Kristjánsstofa

Kristján Eldjárn fæddist að Tjörn í Svarfaðardal 6.desember 1916 og var næstelsta barn Þórarins Kr. Eldjárns, bónda og kennara þar og konu hans Sigrúnar Sigurhjartardóttur frá Urðum í Svarfaðardal.

Hann ólst upp í dalnum sem alla tíð síðan átti mikil ítök í honum. Haustið 1930 hóf hann nám við Menntaskólann á Akureyri og bjó þá á vetrum hjá föðursystrum sínum Sesselju og Ingibjörgu Eldjárn sem rak mötuneyti í Brekkugötu 9.

Kristján lauk stúdentsprófi 1936 og hlaut styrk til náms erlendis. Þá um haustið innritaðist hann  í Kaupmannahafnarháskóla, lagði fyrst stund á tungumál en sneri sér brátt að fornleifafræði og lauk fyrrihlutaprófi vorið 1939.

Sumarið 1937 var hann við fornleifarannsóknir á Grænlandi og 1939 með norrænum leiðangri í Þjórsárdal. Þá um haustið varð hann eftir á Íslandi, hugðist bíða af sér heimsstyrjöldina og kenndi ensku, dönsku og latínu við MA næstu tvo vetur. Þegar ljóst var að styrjöldin drægist á langinn hóf hann nám við Háskóla Íslands og lauk magistersprófi í norrænum fræðum vorið 1944. Hann varð aðstoðarmaður á Þjóðminjasafni Íslands og síðan þjóðminjavörður frá 1947. það kom í hans hlut að stjórna flutningi safnsins í nýtt hús 1950. Kristján varði doktorsritgerð sína, Kuml og haugfé í heiðnum sið á Íslandi, við Háskóla Íslands í janúar 1957.

Hann kvæntist Halldóru Kristínu Ingólfsdóttur frá Ísafirði 6. febrúar 1947 og eignuðust þau fjögur börn, Ólöfu, Þórarinn, Sigrúnu og Ingólf.

Kristján var kjörinn forseti Íslands 30. júní 1968 og gegndi því embætti þrjú kjörtímabil, til 1980. Eftir það var hann skipaður prófessor í íslenskri fornleifafræði við Háskóla Íslands.

Kristján lést 14.september 1982 eftir hjartaaðgerð í Bandaríkjunum.

Kristján Eldjárn var alla tíð afkastamikill fræðimaður, stundaði fornleifarannsóknir og skrifaði margar bækur og fjölmargar ritgerðir og greinar um fræði sín og menningarsöguleg efni almennt. Hann var ákaflega ritfær og vel skáldmæltur, svo sem þýðing hans á kvæðabálknum Norðurlandstromet eftir norska 17.aldarskáldið Petter Dass ber með sér.

Um skáldskap sinn annars orti Kristján eitt sinn þessa vísu: 

 

Öll mín kvæði eru fikt

eintóm skrípalæti.

Aðeins reykur eða lykt

af því sem ég

gæti -.