Byggðaráð

1094. fundur 25. janúar 2024 kl. 13:15 - 15:47 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Helgi Einarsson formaður
  • Freyr Antonsson varaformaður
  • Lilja Guðnadóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir/ Guðrún Pálína Jóhannsdóttir Sveitarstjóri/ sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Dagskrá

1.Vinnuhópur um farartæki, tæki og tæknibúnað

Málsnúmer 202301101Vakta málsnúmer

Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs Helga Íris Ingólfsdóttir, deildarstjóri Eigna- og framkvæmdadeildar, og Halla Dögg Káradóttir, veitustjóri,kl. 13:15.

Til umræðu vinnuhópur Dalvíkurbyggðar um farartæki, tæki og tæknibúnað og endurskipun í hópinn.

Hlutverk vinnuhópsins er að lágmarka rekstrarkostnað og hámarka öryggi og endingu farartækja, tækja og tæknibúnaðar í eigu sveitarfélagsins til lengri tíma. Markmiðið náist með því að skipuleggja reglubundið og tímasett viðhald,endurnýjun sem og skýrt skilgreindum eftirlits- og ábyrgðaraðila.

Samkvæmt samþykktu erindisbréfi dagsettu í febrúar 2020 skipa vinnuhópinn: einn fulltrúi frá byggðaráði, einn frá veitusviði, einn frá hafnasviði og deildarstjóri EF deildar.

Halla vék af fundi kl. 13:28
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að breyta nafni vinnuhópsins í Vinnuhópur um tækjabúnað Dalvíkurbyggðar og breyta skipan hans þannig að í honum eigi enginn kjörinn fulltrúi sæti einungis starfsfólk sveitarfélagsins. Eftir breytingu skipa vinnuhópinn: Halla Dögg Káradóttir veitustjóri, Haukur Guðjónsson verkstjóri Eigna- og framkvæmdadeildar, Arnar Rúnarsson starfsmaður veitna og Björn Björnsson hafnarvörður. Veitustjóra er falið að uppfæra erindisbréf hópsins með þessum breytingum. Jafnframt óskar byggðaráð eftir því að þegar fundargerðir vinnuhópsins eru til umræðu á fundum byggðaráðs mæti veitustjóri til fundar og fylgi þeim eftir.

2.Frá deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar; Viðauki vegna kaupa á bíl fyrir Eigna- og framkvæmdadeild

Málsnúmer 202401111Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar, dagsett þann 22. janúar 2024, þar sem óskað er eftir viðauka við fjárhagsáætlun 2024 til kaupa á bíl fyrir Eigna- og framkvæmdadeild. Á fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir kr. 7.000.000 vegna kaupa á bíl. Eftir þarfagreiningu og upplýsingaöflun um þá kosti sem eru í boði þá er niðurstaðan að óska eftir að kaupa nýjan VW Transporter T6.1 Double Cab 4x4 skv. tilboði sem er kr. 8.087.600. Í erindinu koma fram rök fyrir ofangreindu vali og kaupum.

Helga Íris vék af fundi kl. 13:33
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreinda viðaukabeiðni, viðauki nr. 6 við fjárhagsáætlun 2024, að upphæð kr. 1.087.600 á lið 32200-11853 og að viðaukanum verði mætt með lækkun á handbæru fé.
Vísað til umfjöllunar og afgreiðslu sveitarstjórnar.

3.Byggðasafnið Hvoll

Málsnúmer 202301098Vakta málsnúmer

Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs Björk Hólm Þorsteinsdóttir, forstöðumaður safna, og Gísli Bjarnason, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs, kl. 13:45.

Á 1071. fundi byggðaráðs þann 15. júní sl. var eftirfarandi bókað:
"Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs kl. 13:15 Björk Hólm Þorsteinsdótti, forstöðumaður safna, Gísli Bjarnason, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs, Ásta Olga Magnúsdóttir og Helga Hlín Guðlaugsdóttir frá Gagarín í gegnum TEAMS, og frá menningarráði Lovísa María Sigurgeirdóttir, formaður, Jóhann Már Kristinsson, varaformaður, og Heiða Hilmarsdóttir. Á 355. fundi sveitarstjórnar þann 14. febrúar sl. var eftirfarandi bókað: "Á 279. fundi fræðsluráðs var eftirfarandi bókað: Tekið fyrir bréf frá Björk Hólm Þorsteinsdóttir, forstöðumanni safna og Menningarhúss Bergs dags.18.01.2023, þar sem hún er bjóða fulltrúum úr fræðsluráði til að taka þátt í grunnvinnu fyrir framtíðarsýn Byggðasafnsins í Dalvíkurbyggð.Niðurstaða:Fræðsluráð, leggur til með fimm atkvæðum að Benedikt Snær Magnússon, taki þátt í vinnufundi 3. mars 2023. Á 94.fundi menningarráðs var eftirfarandi bókað: Björk Hólm Þorteinsdóttir, forstöðumaður safna og framkvæmdastjóri Menningarhússins Bergs, kynnti verkefnið og óskaði eftir þátttöku menningarráðs í verkefninu.Niðurstaða:Menningarráð fagnar verkefninu. Menningarráð mætir í verkefnið 3. mars. Enginn tók til máls. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum þær tillögur að Benedikt Snær Magnússon og menningarráð taki þátt í vinnuhópi og í grunnvinnu fyrir framtíðarsýn Byggðasafnsins." Með fundarboði byggðaráðs fylgdi greinargerð um niðurstöður úr vinnustofu sem haldin var 3.mars 2023 um stefnumótun fyrir Menningarhús og söfn Dalvíkurbyggðar; Byggðasafnið, Héraðssjalasafn og Bókasafn. Ásta Helga og Olga Hlín frá Gagarín kynntu niðurstöðurnar. Til umræðu ofangreint. Ásta Helga og Olga Hlín viku af fundi kl. 14:03.Niðurstaða:Byggðaráð þakkar Gagarín fyrir kynninguna. Frekari umfjöllun er frestað þar til vinnuhópur um húsnæðismál sveitarfélagsins hefur skilað tillögum sínum til byggðaráðs."

Tillögur frá vinnuhópi um húsnæðismál sveitarfélagsins liggja ekki fyrir en í fjárhagsáætlun 2024 er forstöðurmaður safna með heimild til að ráða tímabundið í 50% starf frá janúar- júní 2024. Þessi starfsmaður myndi hafa umsjón með allri skráningu muna og halda utan um flutninga og endurskipulagningu varðveislurýmis í Ráðhúsinu á meðan á framkvæmdum stendur.

Björk og Gísli viku af fundi kl. 14:19
Til umræðu húsnæðismál Byggðasafnsins, unnið verður áfram að verkefninu.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fá Björk og Gísla til fundar eftir tvær vikur.

4.Frá SSNE; Erindi vegna Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands

Málsnúmer 202311012Vakta málsnúmer

Undir þessum lið kom á fund byggðaráðs Díana Jóhannsdóttir, verkefnastjóri hjá SSNE, í gegnum TEAMS fund kl. 14:15.

Á 363. fundi sveitarstjórnar þann 28. nóvember sl. var eftirfarandi bókað:
"Á 1087. fundi byggðaráðs þann 9. nóvember sl. var eftirfarandi bókað: "Tekið fyrir erindi frá SSNE, dagsett þann 2. nóvember sl., þar sem fram kemur að föstudaginn 15. september bauð stjórn Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands (VMÍ) fulltrúm sveitarfélaganna á Norðurlandi eystra til kynningarfundar þar sem farið var yfir starfsemi VMÍ og sýn stjórnar á áframhaldandi starf og útvíkkun starfseminnar. Mikil jákvæðni var í garð verkefnisins á fundinum og ljóst að mikill hagur getur verið fyrir VMÍ og sveitarfélögin, að mati fundarmanna,að útvíkka starfsemina. Í framhaldi af fundinum vill stjórn VMÍ formlega kanna hug sveitarfélaganna til þátttöku að þróun verkefnisins og því er þetta erindi sent til umfjöllunar. Meðfylgjandi er einnig minnisblað frá SSNE, dagsett þann 22. september 2023.Niðurstaða:Byggðaráð þakkar boðið en hefur ekki hug á að taka þátt í verkefninu."Niðurstaða:Enginn tók til máls. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum ofangreinda afgreiðslu byggðaráðs."

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi rafpóstur frá SSNE, dagsettur þann 5. desember 2023, þar sem vísað er í ofangreint erindi frá 2. nóvember sl. Fram kemur að SSNE sendir fyrir hönd stjórnar VMÍ erindi á sveitarfélögin varðandi hug sveitarfélagana gagnvart þátttöku í áframhaldandi þróun Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands. Var þar horft til breiðari þátttöku sveitarfélaga sem og fjölbreyttari vetraríþrótta. Ekki er gert ráð fyrir fjárhagslegri skuldbindingu frá sveitarfélögunum heldur aðeins viljayfirlýsingu um þátttöku í þróunarvinnu. Nokkur sveitarfélög hafa nú samþykkt erindið, en önnur hafa óskað eftir frekari upplýsingum og er boðið upp á stuttan kynningarfund.

Til umræðu ofangreind.

Díana vék af fundi kl. 14:40

Byggðaráð þakkar Díönu fyrir góða kynningu og samþykkir samhljóða 3 atkvæðum að taka þátt í þróunarvinnu um Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

5.Frá SSNE; Innviðagreining fyrir Dalvíkurbyggð

Málsnúmer 202401083Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá verkefnastjóra SSNE, dagsettur þann 5. janúar sl, þar sem fram kemur að meðfylgjandi eru fyrstu drög að innviðagreiningu sem sveitarstjóri óskaði eftir.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa drögum að innviðagreiningu fyrir Dalvíkurbyggð til umræðu í fagráðum sveitarfélagsins.

6.Frá Arctic Hydro hf.; Árskógsvirkjun í Þorvaldsdal; ósk um samningaviðræður

Málsnúmer 202401017Vakta málsnúmer

Á 1093. fundi byggðaráðs þann 18. janúar sl. var eftirfarandi bókað:
"Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs Snævar Örn Georgsson frá EFLU, Skírnir Sigurbjörnsson, Sigurbjörn Skírnisson og Eiður Pétursson frá Artic Hydro hf., kl. 13.15, og sveitarstjórnarfulltrúarnir Freyr Antonsson í gegnum TEAMS, Gunnar Guðmundsson, Katrín Sif Ingvarsdóttir, Monika Margrét Sigurðardóttir. Ennig sat fundinn Halla Dögg Káradóttir, veitustjóri. Tekið fyrir erindi frá Arctic Hydro hf., dagsett þann 21. desember 2023, þar sem óskað er eftir því að fá kynningarfund með Dalvíkurbyggð þar sem kynnt verða áform um fyrirhugaða Árskógsvirkjun í Þorvaldsdal. Í kynningunni verður farið yfir tilhögun virkjunarinnar, þá forhönnun og samráð sem hefur átt sér stað, skipulagsmál, framkvæmdaraðila, reynslu af sambærilegum verkum og helstu umhverfisáhrif. Forsvarsmenn Arctic Hydro hf. kynntu ofangreind áform. Gunnar Guðmundsson vék af fundi kl. 14:10. Snævar Örn, Skírnir, Sigurbjörn og Eiður viku af fundi kl. 14:30. Katrín Sif, Monika og Freyr viku af fundi kl. 14:35.Niðurstaða:Lagt fram til kynningar. Byggðaráð þakkar fyrir góða kynningu og yfirferð."

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi erindi frá Sókn lögmannsstofu fyrir hönd Arctic Hydro hf., dagsett þann 19. janúar sl., þar sem óskað er eftir sérstökum fundi til að fara yfir meðfylgjandi gögn og jafnframt kynna málið vegna samningaviðræðna um jarðir í eigu Dalvíkurbyggðar vegna mögulegrar virkjunar Þorvaldsár í Þorvaldsdal. Dalvíkurbyggð er eigandi jarðanna Grundar og Hrafnagils, en eignarhald vatnsréttinda tengdum jörðunum er hjá íslenska ríkinu.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sveitarstjóra að boða til fundar með Sókn lögmannsstofu til þess að fara yfir gögn málsins vegna samningaviðræðna um jarðir í eigu sveitarfélagsins.

7.Frá Ingimari Guðmundssyni; Sjúkraþálfun Dalvíkur - snyrting í kjallara

Málsnúmer 202401010Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Ingimari Guðmundssyni, dagsett þann 21. janúar 2024, þar sem fram kemur að Sjúkraþjálfun Dalvíkur missir húsnæði sitt í kjallara Hótels Dalvíkur þann 1. febrúar næstkomandi. Eftir skoðun á aðstöðu sem gæti hentað hér á Dalvík þá hafa samningar tekist milli Sjúkraþálfunar Dalvíkur og Landsbankans um leigu á aðstöðu í Ráðhúsinu þar sem Sýslumaður og Marel voru áður til húsa. Fram kemur að þar sé þó einn hængur á; salernisaðstaða er mjög þröng og engan veginn ætluð fyrir hjólastólaaðgengi. Erfiðleikum er bundið að breyta henni og þar með mjög dýrt. Kröfur eru gerðar til aðstöðu sjúkraþjálfara að salerni sé fyrir hreyfihamlaða/hjólastólanotendur. Aðgengi fyrir hreyfihamlaða að Ráðhúsinu sé gott en ekkert salerni í húsinu er hannað fyrir hjólastóla. Í kjallara hússins eru tvö salerni og við nánari skoðun á þeim með trésmið í för, virðist ekki vera dýrt að breyta öðru þeirra svo það standist kröfur um hjólastólaaðgengi (stækkun á dyrum og færsla á léttum trévegg). Skorað er á sveitarstjórn að beita sér fyrir því að áðurnefndu salerni verði breytt svo það henti fyrir hjólastólanotendur.
Byggðaráð hafnar erindinu þar sem leiga á húsnæði í eigu Landsbankans er ekki á forræði sveitarfélagins. Hvað varðar salerni í kjallara Ráðhússins þá eru þau sameign eigenda hússins og ákvarðanir varðandi breytingar á sameign eiga heima í stjórn húsfélags Ráðhúss Dalvíkurbyggðar. Samþykkt samhljóða með 3 atkvæðum.

8.Frá SSNE; Skipan í fjölmenningarráð SSNE

Málsnúmer 202401116Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá SSNE, dagsett þann 19. janúar sl., þar sem fram kemur að endurvekja á fjölmenningarráð SSNE sem starfrækt var árið 2021. Fram kemur að Gísli Rúnar Gylfason, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi var fulltrúi Dalvíkurbyggðar en hann gefur ekki kost á sér áfram. SSNE óskar eftir að sveitarfélögin tilefni fulltrúa sinn í fjölmenningarráðið. Reikna má með 3-4 fundum á ári í fjarfundi og verkefnin ákvarðast af ráðinu sjálfu. Gert er ráð fyrir að þeir sem væru ekki í launaðri vinnu hjá sveitarfélaginu fengju greidda fundarsetur frá SSNE.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sveitarstjóra að tilnefna fulltrúa og leggja fyrir næsta fund.

9.Ákvarðanir Persónuverndar um notkun Google Workspace for Education í grunnskólastarfi

Málsnúmer 202401080Vakta málsnúmer

Tekið fyrir bréf frá Persónuvernd, dagsett þann 11. janúar sl, þar sem vísað er til ákvarðana Persónuverndar frá 6. desember sl. vegna úttekta á notkun fimm sveitarfélaga á nemendakerfi Google, Google Workspace frá Education, í grunnskólastarfi. Í ljósi þess að fjöldi grunnskóla notast við Google-nemendakarfið telur Persónuvernd þörf á að vekja athygli allra sveitarfélaga á ákvörðunum. Persónuvernd beinir því til sveitarfélaga sem nota umrætt kerfi að meta hvort þörf er á að gera viðeigandi úrbætur á vinnslu persónuupplýsinga í kerfinu.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ofangreindu til stjórnenda í grunnskólum sveitarfélagsins, sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs, persónuverndarfulltrúa, kerfisstjóra og persónuverndarteymis sveitarfélagsins til skoðunar og úrvinnslu.

10.Frá umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytiu; Boð um þátttöku í samráði - Áform um breytingu á lögum nr. 491997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Málsnúmer 202401077Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu, dagsett þann 12. janúar 2024, þar sem ráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 6/2024 -Áform um breytingu á lögum nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Með þessum tölvupósti er sérstaklega boðin þátttaka.

Umsagnarfrestur er til og með 26.01.2024. Boð um umsögn er sent til hagsmunaaðila en öllum er frjálst að taka þátt í samráðinu.

Lagt fram til kynningar.

11.Frá innviðaráðuneytinu; Til allra sveitarfélaga - beiðni um upplýsingar varðandi innheimtu innviðagjalda

Málsnúmer 202401088Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá innviðaráðuneytinu, dagsett þann 18. janúar 2024, þar sem fram kemur að ráðuneytið er með til skoðunar í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga hvort tilefni sé til að leggja til breytingar á lögum þar sem fjallað yrði um gjöld sem sveitarfélög innheimta nú á einkaréttarlegum grundvelli vegna skipulagsmála og lóðaútlutana. Með lagasetningu yrði þá m.a. setefnt að samræmingu og auknu gegnsæi varðandi gjaldtöku vegna innviðauppbyggingar samhliða húsnæðisuppbyggingu. Til að leggja mat á áhrif mögulegra lagabreytinga af þessu tilefni er þörf á upplýsingum hvernig álagning og innheimtu gjalda er háttað hjá hverju sveitarfélagi. Fram kemur ósk um að sveitarfélagið sendi ráðuneytinu fyrir 23. febrúar nk. umbeðnar upplýsingar og/eða sjónarmið sveitarfélagsins sem fram koma í 7. liðum í erindi ráðuneytisins.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atvæðum að vísa erindinu til fjármála- og stjórnsýslusviðs til úrlausnar.

12.Frá SSNE; fundargerð nr. 59.

Málsnúmer 202401075Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar SSNE frá 5. janúar 2024.
Lagt fram til kynningar.

13.Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; Fundargerð stjórnar nr. 941.

Málsnúmer 202401087Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 12. janúar sl.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 15:47.

Nefndarmenn
  • Helgi Einarsson formaður
  • Freyr Antonsson varaformaður
  • Lilja Guðnadóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir/ Guðrún Pálína Jóhannsdóttir Sveitarstjóri/ sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs