Hátíðir

 

Fiskidagurinn mikli

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli er haldinn hátíðleg í Dalvíkurbyggð helgina eftir verslunarmannahelgi. Fiskverkendur og fleiri framtakssamir í byggðarlaginu bjóða, með hjálp góðra styrktaraðila, landsmönnum öllum upp á dýrindis fiskrétti, milli kl. 11:00 og 17:00 á laugardeginum.

Matseðillinn breytist ár frá ári þó ávallt sé boðið upp á ákveðna vinsæla rétti. Öllum réttum fylgja brauð og drykkir eins og hver getur í sig látið.
Vináttukeðjan er hugljúf dagskrá á sviði við kirkjuna á föstudeginum þar er tónlist, skemmtun, vináttukeðjuræðan og risaknús í lokin til að leggja línurnar fyrir helgina.

Á föstudagskvöldinu bjóða íbúar byggðalagsins gestum og gangandi upp á fiskisúpu í heimahúsum og görðum. Afar vönduð og fjölbreytt skemmtidagskrá prýðir hátíðina ár hvert. Markmið hátíðarinnar er að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk.
Á laugardagskvöldinu býður Samherji til stórtónleika með stórskotaliði landsins í tónlistarflutningi sem stjórnað er af Rigg-viðburðum og risaflugeldasýning á eftir.

www.fiskidagurinnmikli.is

Svarfdælskur mars

Svarfdælskur mars er menningarhátíð haldin í Dalvíkurbyggð ár hvert í mars. Hátíðin er einkum hugsuð til að lyfta andanum um vorjafndægur og til að minna á og viðhalda menningarlegum sérkennum og skemmtilegheitum sem tíðkast hafa á þessum slóðum. Á hátíðinni er dansaður Svarfdælskur mars, spilaður brús og haldið málþing svo eitthvað sé nefnt.

Draumabláir páskar í Dalvíkurbyggð

Draumabláir páskar í Dalvíkurbyggð er hátíð sem er í ný á nálinni. Hátíðin er hugmynd ferðaþjónustuaðila í Dalvíkurbyggð. Til stóð að halda fyrstu hátíðina um páskana 2020 en þá setti kórónuveiran strik í reikninginn og öll plön voru sett á ís. Hugsunin er að geta boðið upp á dagskrá frá fimmtudegi til sunnudags fyrir gesti Dalvíkurbyggðar. 
Skíðasvæðið opið, gönguskíðaleiðir troðnar, opið í sund og böð, tónleikar og hamingjustundir.
Eitthvað fyrir alla í Dalvíkurbyggð um páskana!