Hátíðir

 

Fiskidagurinn mikli

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli er haldinn hátíðleg í Dalvíkurbyggð helgina eftir verslunarmannahelgi. Fiskverkendur og fleiri framtakssamir í byggðarlaginu bjóða, með hjálp góðra styrktaraðila, landsmönnum öllum upp á dýrindis fiskrétti, milli kl. 11:00 og 17:00 á laugardeginum.

Matseðilinn breytist ár frá ári þó ávallt sé boðið upp á ákveðna vinsæla rétti. Öllum réttum fylgja brauð og drykkir eins og hver getur í sig látið. Vináttukeðjan er hugljúf dagskrá á sviði við kirkjuna á föstudeginum þar er tónlist, skemmtun, vináttukeðjuræðan og risaknús í lokin til að leggja línurnar fyrir helgina.

Á föstudagskvöldinu bjóða íbúar byggðalagsins gestum og gangandi upp á fiskisúpu í heimahúsum og görðum. Afar vönduð og fjölbreytt skemmtidagskrá prýðir hátíðina ár hvert. Markmið hátíðarinnar er að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk.
Á laugardagskvöldinu býður Samherji til stórtónleika með stórskotaliði landsins í tónlistarflutningi og risaflugeldasýning á eftir.

www.fiskidagurinnmikli.is

Svarfdælskur mars

Svarfdælskur mars er menningarhátíð haldin í mars ár hvert. Þar er ýmislegt til gamans gert svo sem að keppa um heimsmeistaratitilinn í brús og dansa Svarfdælskan mars. Brús er sérstakt spil sem hefur lengi verið spilað í Svarfaðardal, og raunar víðar, en hefur hvergi lifað jafn góðu lífi og þar. Auk þess að spila og dansa er lesið upp úr Svarfdælasögu og haldin vegleg menningardagskrá með ýmsu umfjöllunarefni.