Borðum okkur til betri heilsu

Eins og fram hefur komið hér hjá okkur héldu Sólveg Sigurðardóttir og Erla Gerður Sveinsdóttir námskeið sem hét „borðum okkur til betri heilsu“ 6. febrúar sl.. Erla Gerður hefur nú sett saman tvo pistla um sykurinn. 

Þessi blessaði sykur

Hvernig minnkum við sykurinn

 

Borðum okkur til betri heilsu

Laugardaginn 6. febrúar héldu Sólvegi Sigurðardóttir og Erla Gerður Sveinsdóttir námskeið sem hét „borðum okkur til betri heilsu“. Námskeiðið var vel sótt og lofaði Sólveig því að senda uppskriftir til gesta námskeiðsins. Hún gékk hins vegar lengra og lofaði okkur að birta þetta hér svo sem flestir geti notið. Ef ykkur lýst vel á þá hefur Sólveig gefið út uppskriftahefri með um 60 uppskriftum. Hægt er að fylgjast með Sólveigu og hafa samband við hana á facebook „Lífsstíll Sólveigar“ https://www.facebook.com/Lífsstíll-Sólveigar-178553395625596/timeline  

Hér má finna 6 uppskriftir frá Sólveigu: • Dásamlegur Chia grautur fyrir tvo • Gott brauð sem hentar öllum í fjölskyldunni • Granóla Bar • Himnesk súpa • Hummus • Kínóa

 

 

Heilbrigður lífsstíll Erla Gerður Sveinsdóttir læknir

Öll viljum við búa við góða heilsu, fyrirbyggja sjúkdóma og láta þá sjúkdóma sem upp koma takmarka okkur sem minnst. Við viljum hafa orku og styrk til að gera það sem veitir okkur gleði, upplifa sálarró og lifa sátt við okkur sjálf og umhverfið. Umfram allt viljum við njóta lífsins.

Það var mér mikið gleðiefni hversu margir gáfu sér tíma til að koma og huga að heilsunni í Árskógi þann 8. janúar síðastliðinn. Í kjölfarið hafa fjölmargir skráð sig í fjarnám hjá okkur í Heilsuborg og ég hlakka til að vinna með ykkur áfram að því að bæta lífsstíl og heilsu.

En hvað er heilbrigður lífsstíll og hvernig á að tileinka sér hann? Við fáum mjög misvísandi skilaboð í samfélaginu og oft er erfitt að átta sig á því hvað er rétt eða rangt. Við erum mjög ólík og það ekki það sama sem hentar öllum hvort sem við erum að tala um mataræði, hreyfingu, svefn eða andlega líðan. Það er oft freistandi að velja einföldustu leiðina en reynslan sýnir að skyndilausnir virka ekki. Markmiðið er að finna leið til að læra á okkur sjálf, finna okkar leið til betri heilsu og upplifa árangur sem endist til langframa.

Í starfi mínu sem læknir hef ég unnið með fjölda einstaklinga sem hafa gert breytingar á sínum högum og uppskorið betri heilsu og lífsgæði. Í kjölfarið hef ég skilgreint leið sem skilar árangri, þessa leið kalla ég Heilsuborgarleiðina. Hún miðar að því að vinna með líkamanum í stað þess að vera í togstreitu á móti honum – finna leið sem gefur langvarandi árangur. Þar þurfum við að taka tillit til ótal margra atriða svo sem líkamssamsetningar, stjórnunar blóðsykurs, meltingar og þarmaflóru, streitu, áreitis, svefns, líkamsklukkunnar og virðingar við okkur sjálf. Regla í daglegu lífi er sem rauður þráður í gegnum þessa þætti og auðveldar okkur að finna jafnvægi. Til að gera langa sögu stutta þá komumst við ansi langt með því að hafa eftirfarandi atriði í huga.

1. Borðum reglulega 4-5 sinnum á dag. Borðum morgunmat innan við klukkustund eftir að við vöknum. Borðum veglegan hádegismat og góðan kvöldmat. Borðum millibita þannig að við verðum alltaf hæfilega södd og hæfilega svöng.

2. Borðum mat - lítið unninn og fjölbreyttan mat. Því minna sem búið er að vinna hráefnið í matnum því meiri næringu skilar hann til okkar. Þannig er líka betra að borða matinn frekar en að drekka hann. Engin ein tegund matar hefur öll þau efni sem við þurfum og því þurfum við að gæta að fjölbreytni. Höfum grænmeti ávallt sem hluta af okkar daglegu fæðu.

3. Innbyrðum orku í samræmi við orkunotkun. Við þurfum að taka tillit til okkar daglegu starfa svo sem hreyfingar, vaktavinnu og fleiri atriða þegar við ákveðum hvernig við dreifum matnum okkar yfir daginn og gæta að magni þeirrar orku sem við innbyrðum.

4. Borðum meðvitað og njótum. Okkur hættir til að háma í okkur matinn eða hafa hugann við eitthvað annað þegar við erum að borða svo sem að horfa á sjónvarpið. Það eykur líkur á því að við missum yfirsýn yfir magnið og kílóin hlaðist upp. Þegar við borðum það sem ekki er á hollustulistanum er líka mikilvægt að leyfa sér að njóta í hæfilegu magni en hleypa ekki samviskubiti og skömm inn í hugann.

5. Hreyfum okkur daglega og þekkjum okkar mörk. Hreyfing eflir heilsu hjá öllum en það er mismunandi hvaða hreyfing hentar okkur. Það gildir hér sem annarsstaðar það það er ekki endilega víst að meira sé betra. Finnum hreyfingu sem okkur finnst skemmtileg og okkur líður vel með að stunda.

6. Sofum vel. Svefn hefur mikil áhrif á heilsuna okkar. Það er svo ótal margt sem gerist í líkamanum þegar við sofum. Tileinkum okkur góðar svefnvenjur og virðum svefntímann.

7. Finnum okkar jafnvægi - setjum okkur markmið. Til að njóta lífsins sem best þarf að ríkja jafnvægi bæði inni í líkama okkar, í huganum og í samskiptum okkar við umhverfið. Það getur verið flókið að finna þetta jafnvægi og oft ætlum við okkur að gera of miklar breytingar í einu. Sættumst við okkur sjálf eins og við erum. Setjum okkur raunhæf markmið um hvað við viljum bæta og efla í okkar fari.

8. Hlúum að sjálfum okkur - tæmum hugann reglulega. Verum okkar besti vinur. Sýnum sjálfum okkur virðingu og gefum okkur tíma til að sinna heilsunni.

9. Byrjum breytingar þar sem við erum - breytum skref fyrir skref. Skoðum okkur sjálf, skoðum okkar stöðu og möguleika á breytingum. Finnum leið sem okkur líður vel með, leið sem endist okkur allt lífið. Setjum upp áætlun og framkvæmum síðan skref fyrir skref.

10. Setjum inn nýjar og góðar venjur - leyfum ósiðum að fjara út. Jákvæð nálgun skilar betri árangri en boð og bönn. Með jákvæðu hugarfari komumst við lengra, leiðin verður skemmtilegri og hindranirnar verða færri.

Heilbrigðu lífi má haga á ótal vegu. Heilbrigður lífsstíll skilar okkur líkama og sál í jafnvægi. Þar er minnst hætta á þróun sjúkdóma, þar fær líkaminn næringu við hæfi og við höfum styrk og orku til að framkvæma og njóta lífsins.

Næsti kafli í þínu lífi er óskrifað blað. Hvernig verður þín saga?

Lifum lífinu fallega og njótum þess.