Ýmsar frásagnir tengdar mjólkurflutningum

Ýmsar frásagnir tengdar mjólkurflutningum

 

Væri þetta ekki tryggingamál í dag?

Anna Sigríður Hjaltadóttir frá Ytra-Garðshorni rifjar upp fyrstu minningu sína um slys á sjálfri sér um 4-5 ára aldurinn. Segist hafa farið með pabba sínum niður á þjóðveg með mjólkurdunka í veg fyrir mjólkurflutningasleðann. Hún fór eitthvað að príla á sleðanum á meðan verið var að lesta og datt á andlitið með þeim afleiðingum að í henni losnuðu og sködduðust framtennur.

Um barnatennur var að ræða og greip faðir hennar til þess ráðs að þrýsta þeim upp í góminn með handafli í þeirri von að þær næðu að festast, þar eð enginn tannlæknir var á Dalvík og ófært til Akureyrar. Þær sátu fastar á sínum stað, urðu dökkar að lit og tolldu allt þar til þær duttu þegar þeirra tími var kominn.

Þegar fullorðinstennurnar birtust kom í ljós að vísarnir að þeim (sem verða til strax á fósturstigi) höfðu skemmst við þetta hnjask, miklir glerungsgallar voru sýnilegir og tennurnar allmikið aflagaðar. Var hún lengi og er enn að bíta úr nálinni með þennan skaða.

Það sem Önnu Sigríði er efst í minni um atburðinn sjálfan er blóðið í snjónum. Annars eru það aðallega afleiðingar slyssins sem hún man.

 

            ***

 

Þegar Dísa Bomma missti af jarðskjálftanum

Þórdís Hjálmarsdóttir vann oft eftir skóla í Ungó með foreldrum sínum, Bomma og Sólveigu, sem voru umsjónarmenn hússins í nokkur ár. Alvanalegt var að húsið nötraði er ýturnar komu með hávaða og látum eftir Skíðabrautinni og beygðu inn á Hafnarbraut með mjólkurflutningasleðana hlaðna úr sveitinni.

Svo er það á skólaskemmtun í Ungó vorið 1963 að jarðskjálfti hristir húsið kröftuglega –-„svo að salurinn gekk í bylgjum,“ að sögn Jóhanns Antonssonar sem spilaði þarna fyrir dansi ásamt félögum sínum. Allir stukku til og æddu skelfdir út úr salnum og út á stétt. Dísa var alveg hissa á þessum ólátum í fólkinu, segist bara hafa haldið að þetta væru ýturnar að koma með mjólkina. Það var ekki fyrr en hún var sjálf komin út sem hún heyrði á tali fólks hvað hafði skeð. Hún orðar það svo að hún hafi því eiginlega misst af jarðskjálftanum.

 

       ***

 

Fyrsti sólardagur

Hallur Steingrímsson fv. bóndi á Skáldalæk og ýtustjóri minnist Jóhanns Jónssonar bílstjóra með hlýju. „Hann Jói í Arnarhóli var góður og skemmtilegur karl og við bræður höfðum alltaf gaman af að hitta hann. Einu sinni man ég að við sátum í tröppunum heima á Ingvörum og fylgdumst með honum þegar hann kom á mjólkurbílnum neðan að og losaði sig við tómu brúsana á leið sinni fram dalinn. Þá kallaði hann til okkar og hló við: „Er ekki lummudagurinn í dag? Ætli maður fái kannski lummur þegar maður kemur til baka?““

Hallur vann síðar með Jóhanni í nokkur ár fyrir Árna Arngrímsson, bæði á vörubílum og líka á traktorsgröfu frá 1966. – „Það var alltaf gaman að vinna með Jóa og við lentum í ýmsu skemmtilegu saman,“ segir hann. – Á þessum árum gróf Hallur m.a. fyrir öllu vegahandriðinu í Ólafsfjarðarmúla. 

 

 

            ***

 

 

Langar tarnir

Helgi Jónsson rafvirkjameistari var stundum kallaður til ef það vantaði mann á mjólkurbílana. Eitt sumar leysti hann t.d. Jón bróður sinn af við akstur er hann fór á síld á Bjarma EA, Helga minnir það hafa verið 1963 eða ´64. Hann leysti líka oft ýtustjóra af á vetrum og sótti þá mjólk öðrum megin í dalnum á móti Vilhjálmi Þórssyni á Bakka, sem fór hinum megin fram eftir. Veturnir 1958 og ´59 voru mjög snjóþungir og eitt sinn (líklega ´58) henti það þegar Helgi var á leið fram Skíðadal að sækja mjólk í snarbrjáluðu veðri, svo að ekki sá út úr augum, að hann missti af beygjunni norðan við Másstaði og ók út af veginum. Ýtan lenti utan í barði og drap á sér og hann kom henni ekki í gang aftur. Hann tók til bragðs að ganga móti veðrinu út í Dæli, giskar á að það hafi tekið hann eitthvað á annan klukkutíma. Segir að sér hafi gengið þokkalega að rata því hann gat fylgt slóðinni eftir ýtuna. Hann gisti í Dæli um nóttina og næsta dag kom Kristinn Jónsson fram eftir á annarri ýtu og bjargaði málum.

Þessa fyrrnefndu vetur voru bílarnir gjarnan geymdir inni á Hjalteyrarás og tóku við mjólkinni þar þegar ýturnar komu með hana utan að. Helgi man líka dágóða bardaga við ófærð klukkustundum saman þegar ýturnar fylgdu bílunum inn eftir og sagði tvær sögur sem dæmi um slíkan barning. Einu sinni var hann að hjálpa mjólkurbílum sem þeir óku, Sveinn Jónsson, Friðþjófur Þórarinsson og Finnur Sigurjónsson. Eftir nokkurra klukkustunda þóf utan frá Dalvík voru þeir komnir inn á Torfneshæð klukkan 8 árdegis. Þaðan er ekki langt í Fagraskóg en þangað komust þeir ekki fyrr en kl. 15. Þar þáðu þeir kaffi og viðurgjörning. Til Akureyrar náðu þeir loks kl. 2 um nóttina.

Í öðru tilviki var hann á leið út eftir á ýtu að fylgja Halldóri Gunnlaugssyni, Friðþjófi og Finni á bílunum í vondu veðri og þungu færi. Þá borðuðu þeir í Árskógarskóla kl. 10 um kvöld og lögðu svo af stað aftur. Um sexleytið næsta morgun voru þeir ekki komnir lengra en út fyrir brúna yfir Þorvaldsdalsána. Skömmu seinna mættu þeir Villa Þórs á hinni ýtunni en í hann höfðu þeir hringt og beðið að koma þeim til aðstoðar. Upp úr því gekk þeim tíðindalítið að þaufast út á Dalvík.

 

 

            ***

 

Eftirköst

Ármann Gunnarsson var í Menntaskólanum á Akureyri á árunum 1960-1964. Hann minnist þess að hafa eitt sinn fengið far með mjólkurbíl til Dalvíkur í helgarfrí. „Það var geysileg ófærð og við vorum 12 eða 13 tíma á leiðinni. Þetta var nú meiri skaksturinn,“ segir hann. „Ég var allan næsta dag að jafna mig.“

 

 

            ***

 

Jól að heiman – Minning Ásu Marinósdóttur, ljósmóður í Kálfskinni

Síðustu færslur Gests Vilhjálmssonar í árslok 1966 tengjast minningu sem Ása Marinósdóttir ljósmóðir í Kálfsskinni rifjaði upp við SBG. Hún var við ljósmóðurstörf í tveimur húsum á Dalvík og einum bæ í Svarfaðardal öll jólin 1966 og fram um áramót, mikil snjóalög voru um allt og engar samkomur haldnar um hátíðirnar.

Vegna ófærðarinnar var Ása sótt á snjóbíl á aðfangadagskvöld til að taka á móti barni það sama kvöld á Dalvík – og öðru við sömu götu á jólanótt. Og á þriðja í jólum flutti snjóbíllinn hana fram í Hæringsstaði, þar sem líka var von á barni. Eitthvað dróst að sú fæðing hæfist og Ása man að þegar gengið var til náða eitt kvöldið hafði frést af því að mjólkurbílar höfðu fest sig báðum megin í dalnum, a.m.k. annar með brotinn öxul. Og við fótaferð morguninn eftir voru þeir enn á sama stað.

Því má bæta við að á gamlaársdag fylgdi Ása Bergþóru á Hæringsstöðum með snjóbíl til Akureyrar þar sem barnið (Sveinn Árnason) fæddist loksins. Á nýársdag komst hún að síðustu heim og voru börnin hennar – og e.t.v. bóndinn líka – víst orðin nokkuð langeygð eftir henni.

[Sjá nánar af þessu í viðtali við Ásu í jólablaði Norðurslóðar 2010 (12. tbl. 16.12. bls. 16)].

https://timarit.is/page/6871300#page/n15/mode/2up

 

Dagbókarfærslur Gests um síðustu daga ársins 1966

„20. des. Hægviðri, hríðarmugga 5° frost ...

21. des. Hægviðri, hríðarmugga 4-5° frost ...

22. des. Hægviðri fyrst en fannkoma síðar norðan hríð og renningur versta veður. Frost um 5°. Stórhríð um tíma í kvöld.

23. des. Norðan svelja, hríðarél frost 10°...

24. des. Aðfangadagur. Hægviðri. Frost 13° bjart og fallegt veður.

25. des. Jóladagur. Hægviðri bjart. Frost 13-15°.

26. des. Hvass norðaustan í nótt og renningur. Frost 1-6°. Messað á Tjörn.

27. Hægviðri lengst af en altaf fannkoma. Frost um 2°.

28. des. Norðan ekki hvass, fjúk um tíma 5°. Færi er nú líklega mjög vont, og engir bílar hafa farið hér um í dag. 

29. des. Suðvestan strekkingur og renningur. Hið versta færi. Mjólkurbílnum hefir gengið mjög seint. Nú kl. um 8-8 ½ var hann hjá Lambá á frameftirleið.

30. des. Renningur í nótt hægur í dag en koldimmur 5° frost. Bætt mikið á. Mjólkurbílarnir komust ekki til Dalvíkur aftur í gærkvöldi. Annar bilaði hjá Brekku í nótt. Hinn stoppaði hjá Skáldalæk.

31. des. Suðvestan hríð og renningur, hægri með kvöldinu. Frost 8° í morgun nú 6°. Nú er komin mjög mikil fönn og vont færi eða líklega alófært fyrir bíla, enda enginn farið um í dag. Snjóbíll fór um í nótt. Sókti hann húsfreyjuna á Hæringsstöðum sem var jóðsjúk, líklega send á sjúkrahús.

Enn eitt ár horfið í tímans skaut. Veturinn í fyrra var snæsamur, kaldur og erfiður. Vorið og sumarið kalt og þurrklítið og heyskapur með minna móti að vöxtum og gæðum. Haustið sæmilega gott en veðrátta það sem af er vetri óstilt mjög köld og snæsöm einkum í þessum mánuði.

Með hækkandi sól vona menn betri og blíðari veðráttu.

Árinu 1966 er lokið. Árið 1967 gengur í garð.“

 

 

                  ***

 

Óhapp

Halldór Jónasson frá Koti leysti Jóhann Sigurbjörnsson af í þrjú sumur, 1971-1973 og var líka stundum kallaður til í afleysingar að vetrinum ef þurfti. Hann minnist þess að hafa verið að lesta vörur á mjólkurbíl að sumarlagi með Jóni A. Jónssyni er svo slysalega vildi til að Jón festi fingur í færibandi sem notað var til að ferma og afferma bílana. Fingurinn tættist illa og brotnaði svo að Jón var frá vinnu um tíma.

 

 

            ***

 

 

Slys  1973

Jón A. Jónsson, sem ásamt Júlíusi Steingrímssyni starfaði lengst allra manna við mjólkurflutninga í Svarfaðardal (vel á 5. tug ára), varð fyrir því óláni að ungt barn renndi sér á snjóþotu undir bílinn hjá honum um jólaleytið 1973. Þetta var Gunnhildur Lilja, dóttir Erlu Gunnarsdóttur (Jónssonar frá Hæringsstöðum), sem þá bjó ásamt manni sínum, Eiríki Ágústssyni, í Dröfn. Í beygjunni við Ungó voru miklir snjóruðningar og var telpan þar að leik. Um þetta segir svo í dagbók Gests Vilhjálmssonar, 29. des. 1973:

[...] „Í dag varð það hormulega slis á Dalvík að 5 ára stúlka var fyrir mjólkurbíl og beið samstundis bana. Jón bílstjóri var að fara með bílinn á verkstæði, en hjá Ungmennafélagshúsinu rendi barnið á snjóþotu undir bílinn og varð undir afturhjóli.“

Telpan var reyndar bara 3½ árs, f. 31. júlí 1970. Mun þetta hafa tekið mjög á Jón og var hann einhvern tíma frá vinnu í kjölfarið.

 

 

            ***

 

 

Gestkvæmi á Þverá og í Brekku

Guðrún Lárusdóttir á Þverá og Gunnar Jónsson, fv. bóndi í Brekku, rifja upp að í ársbyrjun 1975 var mikill ótíðarkafli og illfært um sveitina marga daga í röð. Þá var mjólkurbíll á ferð á vesturkjálkanum við illan leik í foráttuveðri og festist í Urðaenginu. Jarðýta fór að sækja hann en mennirnir urðu að gefast upp fyrir veðrinu á leið út eftir og beiðast gistingar á Þverá. Lofthreinsarar höfðu fyllst af snjó og stíflast í báðum ökutækjum. Skv. dagbók Gests Vilhjálmssonar í Bakkagerði var þetta sunnudaginn 12. janúar 1975. Ýtustjórinn var Jónas Ingimarsson og með honum Ragnar Gunnarsson í Dæli. Ýtan var eign Ræktunarsambandsins, svokallaður „Nalli“. Mjólkurbílstjórarnir voru tveir, Jón Anton Jónsson og Hallgrímur Hreinsson, og að auki var Gunnar, sonur Jóns, með pabba sínum, unglingspiltur á 15. ári (1960-1978); „skrapp bara með pabba til gamans,“ eins og hann svaraði Guðrúnu á Þverá er hún spurði hvað hann væri að „þvælast“ í þessu veðri. Með þeim í för var Ármann Gunnarsson dýralæknir sem hafði um morguninn fest bíl sinn við Bakkagerði á leið fram í Kot að hlynna að kú. Hann fékk því far með ýtunni í þeirri von að komast þangað, sem varð þó aldrei.

 Rafmagnslaust var orðið í sveitinni í veðurhamnum og tekið að kólna á bæjum en ekki var í kot vísað að koma í Þverá því að gamla kolavélin var enn til taks í eldhúsinu, svo að Guðrún gat bæði eldað saltkjöt og baunir, hitað kaffi og bakað lummur eins og hver vildi, auk þess sem kolavélin hitaði vel frá sér í bænum. Gestirnir undu sér við spil um kvöldið og vonuðust eftir betra veðri næsta dag. Upp úr miðjum degi lögðu þeir af stað út eftir en ekki sóttist ferðin vel, bætt hafði á snjóa og veðrið engu skárra en daginn áður. Ekki var borið við að ræsa mjólkurbílinn heldur lagt af stað á jarðýtunni einni saman.

Þótt dýralæknirinn kæmist ekki í Kot að sinna um kúna sýndi sig þennan dag að hann fór ekki erindisleysu af stað morguninn áður. Áður en þeir lögðu af stað frá Þverá var hringt frá Syðra-Garðshorni. Daníel Júlíusson hafði dottið í stiganum milli hæða, fengið myndina „Drottinn blessi heimilið“ af veggnum í höfuðið og skorist á gagnauga er glerið brotnaði. Alófært var fyrir lækni að komast fram eftir en frést hafði af Ármanni á svæðinu og var hann nú beðinn að fara og gera að sárum Daníels.

Hallgrímur og Ragnar tóku sér stöðu sinn hvorum megin á ýtutönnina og reyndu allt hvað þeir gátu að grilla í veginn og segja Jónasi til. Það gekk vægast sagt illa, vegurinn og allar túngirðingar víðast hvar á bólakafi og svo hvasst að þeir áttu fullt í fangi með að halda sér á tönninni og komast hjá því að lenda undir beltin. Skiltið við Syðra-Garðshorn stóð reyndar upp úr og fikraði Jónas sig á ýtunni upp túnið með því að giska á heimreiðina að bænum. Skyndilega stöðvaðist ýtan og kom í ljós við nánari athugum að tré í hlaðvarpanum olli því. Ármann fór inn og hlúði að Daníel, var með spenaklemmur í töskunni og klemmdi sárið saman. 

Ekki komst leiðangurinn lengra en í Brekku þennan daginn, lofthreinsarinn í ýtunni hafði aftur fyllst af snjó og stíflast. Þá er komið fram yfir miðnætti og afráðið að leita húsaskjóls á bænum. Þarna gista þeir allir um nóttina og lofthreinsarinn var þurrkaður á gashitara í kjallaranum á meðan þeir sváfu.

Á þriðjudagsmorgun er öllu skárra veður. Áður en mennirnir fara býst Kristín húsfreyja Klemenzdóttir til að sjóða þeim berjagraut en sem hún ætlar að skera upp fernu með frosnum berjum í hleypur hnífurinn í fingurinn á henni svo að Ármann opnar enn dýralæknistösku sína og saumar nokkur spor í sárið.

Við svo búið var enn haldið af stað og þennan daginn komust allir til síns heima, en við illan leik þó. Hallgrímur segir að ekki hafi verið viðlit að fara á ýtunni út Skíðabrautina; slíkt var fannfergið að þeir sáu ekki húsin neðan við götuna og urðu að aka ofan við skólann og Víkurröst.

-       -     -

Ármann segist aldrei hafa lent í öðru eins veðri og veðrabrigðum. Þegar hann lagði af stað frá Tjörn á sunnudagsmorguninn segir hann að hafi verið þokkalegt veður og færi en fljótlega skellur saman svo að hann lendir í vandræðum neðan við Bakkagerði og festir sem fyrr segir bílinn, sem var rússajeppi, sérsmíðaður fyrir dýralækninn. Hann klofaði skaflana upp að bænum og dvaldi þar nokkra stund í góðu yfirlæti hjá Gesti, Sigrúnu og Ríkarði, sem dreypti á hann brennivínssnafsi. Þar fréttir hann að ýta sé á leiðinni fram eftir og leggur því aftur út í hríðina til að komast í veg fyrir hana. Svo mjög hafði veðrið versnað á meðan hann staldraði við í Bakkagerði að hann vissi aldrei í hvaða átt hann fór. Og topparnir á girðingarstaurunum sem höfðu verið sýnilegir upp úr fönninni er hann gekk upp að bænum sáust nú hvergi. Hann segist hafa verið farinn að hugsa sterklega til þess að grafa sig í fönn en varð heils hugar feginn er hann heyrði loks í ýtunni niðri á vegi. Jónas hafði þá verið búinn að sjá til hans í rofum og varla trúað sínum eigin augum að sjá til mannaferða í þessu veðri.

Á leiðinni fram hjá Bakka minnist Ármann þess að skyndilega skramlaði í einhverju undir ýtunni. Jónasi brá eilítið í brún, hélt kannski að eitthvað hefði brotnað neðan í henni. Í ljós kom að þarna höfðu þeir rutt brúsapallinum á Bakka um koll. Einhverjir brúsar munu hafa verið á pallinum en Ármann man ekki hvernig innihaldinu reiddi af. Bræðurnir Hjörtur og Baldur muna það ekki heldur, en Hjörtur telur að það hljóti að hafa verið botnfrosið í brúsunum.

Á þriðjudaginn var Ármann loks samferða Jónasi og föruneyti út í Tjörn, þar sem þau Steinunn bjuggu þá. Rafmagnslaust var enn í sveitinni og kalt í bænum. Steinunn, sem þá var kennari við Dalvíkurskóla, hafði orðið veðurteppt þar út frá hjá tengdaforeldrum sínum í Björk og Edda, 2 ára dóttir þeirra, var í umsjá Sigríðar húsfreyju á Tjörn, afasystur sinnar. Ármann tekur telpuna og dúðar hana ofan í bakpoka, spennir síðan á sig gönguskíðin og gengur með telpuna á bakinu niður á Dalvík. Að sögn Ármanns hafði hún mjög gaman af ferðalaginu en hann sjálfur minna, orðinn fullsaddur á volkinu.

 

Dagbókarfærsla um ofangreinda atburði

Gestur í Bakkagerði ritar svo í dagbók sína í janúar 1975:

„12. jan. Sunnudagur. Norðan öskublyndstórhríð, sást ögn í morgun fyrir hádegi en síðan ekki. Mjólkurbíllinn stoppaði í Urðaengi og bílstjórinn komst undan veðrinu suður í Urði. Ármann dýralæknir festi bílinn sinn hérna fyrir neðan og komst hingað heim. Seint í kvöld fór ýta frá Dalvík hér frameftir að sækja Mjólkurbílinn en hann komst af sjalfsdáðum út í Þverá. Ármann fór í veg fyrir ýtuna og fór með henni suður eftir en þar varð alt stopp og voru allir mennirnir þar í nótt.

13. jan. Norðan hörku blindbilur í allan dag, og aldrei rofað til. Eitt versta veður sem komið hefur.

14. jan. Enn er norðan blindöskustórhríð, rofar aldrei eða linar á veðrinu. Ýtan komst við illan leik út í Brekku í gærkvöldi og þar settust mennirnir að. Frost er nú ekki mikið.

15. jan. Norðan, ekki mjög hvass, hríðarveður einkum fyrripartinn. Betri nú í kvöld. Frost 7°. Enn er engin umferð á vegum, alt ófært.

16. jan. Hægviðri, bjart. Sólin sást. Frost 11°. Ýtan kom framan úr dalnum í dag. Mjólkurbíllinn var á Þverá síðan á sunnudag, fór í ýtuslóðina í kvöld.“

-       -    -

Framhald; fimmtudagur, 16. jan. 1975 

Hallur Steingrímsson fv. bóndi á Skáldalæk var sendur á jarðýtu sinni (Caterpillar D7E) með Eið bróður sinn fram í Þverá á fimmtudaginn (16. jan.) að sækja mjólkurbílinn, sem var Man-inn, sá stærsti og öflugasti af bílunum. Í upphafi ferðar voru þeir staddir á Ingvörum og fóru fyrst á ýtunni út á Dalvík að sækja tóma brúsa til að skila í sveitina. Síðan fóru þeir fram eftir og dró Hallur bílinn út á Dalvík. Hann segist hafa verið með sérútbúið dráttartóg úr togvír með krækjum á endunum sem hann lét gera fyrir sig hjá Útgerðarfélaginu. Brúin á Þveránni var of mjó fyrir ýtuna svo hann þurfti að aftengja bílinn og fara yfir ána neðan við brú. Var um tíma smeykur um að snjóloftið brysti undan þunganum og hann myndi lenda í ánni –  „en þetta lukkaðist, skaflinn hélt,“ segir Hallur. Þegar hann kom aftur upp á veginn tengdi hann togvírinn aftur í Man-inn og dró hann yfir brúna eftir að þeir höfðu handmokað og troðið honum slóð eftir brúargólfinu.

Hér má skjóta inn í að þeir rifjuðu nýlega upp í spjalli sín á milli, Hallur og Guðbergur Magnússon, fv. bóndi á Þverá (Svarf.), að Hallur hafði rutt dálítið autt svæði við heimkeyrsluna að Steindyrum áður en þeir bræður héldu áfram út eftir. Haugurinn varð nokkuð hár og Guðbergur hafði prílað upp á hann að gamni sínu og horft niður á mjólkurbílinn þegar Eiður ók hjá, og segir að það hafi verið nokkurra metra flug niður að bílnum.  

Þegar til Dalvíkur kom var hlaðið meiri mjólk á Man-inn – eins og hann gat borið; þ.e. brúsum af sleðum sem safnað hafði verið annars staðar í dalnum dagana á undan. Að því búnu settist Júlíus, þriðji Ingvarabróðirinn, undir stýri. Hallur dró hann á ýtunni inn að Fagraskógi en þar inn undan var snjóléttara og kvöddust þeir bræður þar; Hallur sneri við til Dalvíkur en Júlíus hélt áleiðis til Akureyrar.

Að sögn Halls var Júlíus afar laginn að keyra í snjó. Vegagerðarmenn á Akureyri sögðu Halli seinna að þennan dag hefðu þeir verið klukkutímum saman með sjö tæki við snjómokstur á veginum milli Akureyrar og Moldhauga. Þeir héldu að þeir sæju ofsjónir þegar þeir sáu Júlíus birtast síðdegis á Man-inum á Moldhaugnahálsinum.

Hallur getur þess að Man-inn hafi seinna verið seldur Kaupfélagi Eyfirðinga á Akureyri til vöruflutninga milli Akureyrar og Reykjavíkur. „Þetta var alveg magnaður bíll, þriggja hásinga og með drif á öllum hjólum,“ segir hann. „Í ótíð, þegar illfært var yfir Holtavörðuheiði, biðu ferðalangar gjarnan við Staðarskála eftir að hann kæmi að norðan svo að þeir gætu ekið í slóð hans yfir heiðina.“

Eiður Steingrímsson smíðaði yfir Man-inn og líklega alla bílana, telur Hallur. Hann útbjó einnig keðjur undir alla bílana.

 

Framhald 2; fimmtudagurinn langi, 16. janúar 1975

Áður en Hallur Steingrímsson fór með Eiði bróður sínum að sækja Man-inn í Þverá þennan dag var hann búinn að fara söfnunarferð með sleða aftan í ýtunni alla leið fram í Kot. Með honum var Jón Þórarinsson frá Bakka sem hjálpaði honum að þræða veginn.

„Þetta var í raun og veru lífshættuleg för, því við þurftum að fara yfir brýrnar, bæði að Koti og Hæringsstöðum,“ segir Hallur. „Brúin við Hæringsstaði var algjörlega á kafi í snjó og ekki sást einu sinni í handriðin. Ég var ekki viss um að hitta á brúna eða hvort við myndum sunka niður í gilið. En það slapp til, við flutum þetta í rólegheitunum.“

„Fórstu ekki með bænirnar þínar?“ spyr SBG.

„Jú, ætli það ekki, og þá líklega í eina skiptið á ævinni,“ svarar Hallur og hlær.

 

 

            ***

 

Símalínurnar töfðu

Þennan vetur (1975) var einstaklega erfitt að vera ýtustjóri í Svarfaðardal. Hallur Steingrímsson rifjar upp hve erfiðlega gekk oft að ryðja veginn frá Hreiðarsstaðakoti og fram í Urðir. Þannig háttaði til að símalínan lá neðan við veginn, mjög nærri honum á þessum kafla. Símastaurarnir gerðu ýtumönnum oft kleift að giska á hvar vegurinn lá en í svartakófi gat þó verið vandasamt að sneiða hjá staurum sem leyndust í hríðinni og þó nokkra lagni þurfti til að smeygja sköflunum með ýtunni af veginum undir símalínurnar – sem gjarnan voru á kafi – „...því að mann langaði ekki til að slíta símasambandið í sveitinni. Þá hefði fólkið ekki getað hlerað símtölin,“ segir hann í spaugi. Þarna þurftu þeir yfirleitt að vera á tveimur ýtum, ruddu slóð með annarri og ýttu þversum frá með hinni.

„Þetta var ægileg vinna eins og maður gerði iðulega, að ryðja veginn neðan frá Dalvík og fram í Kot, sem er 25 kílómetra leið. Það tók oft dágóðan tíma,“ segir Hallur. „Og svo kom að því að maður fór að kvíða fyrir vetrinum. Ég man að undir það síðasta var ég farinn að finna kvíðahnútinn hlaðast upp í maganum þegar fyrstu snjókornin féllu á haustin.“

 

 

            ***

 

 

Aftur gestkvæmi í Brekku 1995

Í janúar 1995 – eða nákvæmlega tuttugu árum eftir þá atburði sem sagan hér á undan greinir frá – gerðist það öðru sinni að bílstjórarnir gistu í Brekku vegna ófærðar og illviðris. Að sögn Gunnars Jónssonar voru það Jón bróðir hans og bræðurnir frá Ingvörum, Júlíus og Eiður Steingrímssynir. Bíllinn komst þá ekki lengra en í Grundarskriðuna; vegna fannfergisins hafði lofthreinsarinn í bílnum fyllst af snjó og stíflast. Þeir börðu upp á hjá Gunnari og Kristínu og sváfu þar það sem eftir lifði nætur. Kaffilaust var orðið á bænum; þar hafði einmitt verið beðið eftir mjólkurbílnum með vörusendingu úr kaupfélaginu sem innihélt m.a. kaffi. Árla morguninn eftir brá Gunnar bóndi á það ráð að klofast að bílnum til að sækja kassann svo að hægt væri að hella upp á og gjöra mönnunum til góða áður en þeir legðu af stað.

 

 

            ***

 

Bakkabræður á ýtutönn

Baldur Þórarinsson á Bakka man eftir illviðrahrinu þegar þeir bræður, hann og Sigurhjörtur, þá rúmlega fermdir, voru dag einn kvaddir til aðstoðar við söfnun mjólkur að vetrarlagi í blindhríð. Jónas Ingimarsson kom á ýtunni í hlaðið á Bakka og kvaðst eiga erfitt með að halda áfram nema með hjálp því hann sá ekki út úr augum. Það varð til ráða að bræðurnir voru látnir sitja sitt hvorum megin á ýtutönninni og segja honum til við aksturinn fram eftir. Þetta gekk ekki allt of vel, veðrið var kolbrjálað og Baldur segir að þeir hafi iðulega alls ekki séð hvar vegurinn var. Við Þverá tók að rofa lítið eitt til svo að útlit var fyrir betra veður framar í dalnum. Ekki fannst Jónasi þó fyllilega á það treystandi og bað Hjört að koma með sér áfram. En vegna þess hvað húsið á ýtunni var lítið gat hann ekki haft þá báða með sér. Baldur fór því einsamall fótgangandi til baka heim í Bakka, gat fylgt ýtuslóðinni svo að hann villtist ekki af leið. Hjörtur hélt áfram með Jónasi og sat á tönninni fram fyrir Urðir. Þá datt á dúnalogn og birti svo að hann fékk að skríða inn í húsið til Jónasar.  

 

 

            ***

 

Erindrekstur fyrir bændur og búalið

Guðmundur Gunnlaugsson keyrði mjólkurbíl þrjú sumur áður en tankbílavæðingin hófst en hóf þá störf hjá ÚKED í slátur- og vöruflutningum. Hann minnist þess að hafa verið beðinn að reka ýmis erindi fyrir sveitunga sína á Akureyri, svo sem að fara með úr í viðgerð og föt í hreinsun, að ógleymdum vínkaupum í ríkinu. Kveðst þó aldrei hafa verið fenginn til að kaupa vefnaðarvöru eins og Júlíus Steingrímsson sagði honum að hann hefði eitt sinn lent í er húsfreyja ein í sveitinni fól honum að velja og kaupa gardínuefni fyrir sig – sem hann gerði skammlaust.

 

 

            ***

 

Nallinn; TD15C – „æviágrip“ eftir Hall Steingrímsson

Þessi ýta var 17,5 tonn, upphaflega í eigu Ræktunarsambands Svarfdæla og Jónas Ingimarsson vann á henni lengst af. Bræðurnir frá Klaufabrekkum, Jón og Hallgrímur (Dalverk) keyptu hana síðar. Af þeim keypti Gauti, sonur Halls, hana og þeir feðgar gerðu hana upp frá grunni. Hallur leigði ýtuna af Gauta og flutti hana með sér suður. Þar stofnaði hann fyrirtækið Ýtumaðurinn ehf og notaði hana í vinnu fyrir Ístak við að grafa fyrir fangelsinu á Hólmsheiði og jafna síðan í grunninum áður en byrjað var að steypa. Þá var hann búinn að setja laserútbúnað á vélina. Nallinn þykir enn hið mesta djásn og er nú verið að semja um sölu á henni vestur í Húnavatnssýslu.

 

 

            ***

 

Straumhvörf

Í Landbúnaðarsögu Íslands eftir Jónas Jónsson, 3. bindi, er mynd af sundskálanum í Svarfaðardal og sundskálagestum, tekin um 1930. Þar segir:

 

„Um 1934 hófu Svarfdælingar að selja mjólk í mjólkurbúið á Akureyri og olli það straumhvörfum í efnahagslífi dalsins.“

                                                (Úr kaflanum Nautgriparækt, bls. 189. Útg. Skrudda, 2013.)

 

 

Þarfir þjónar

Í 3. bindi Landbúnaðarsögu Íslands eftir Jónas Jónsson segir svo:

 

„Með því varð til ný stétt í landinu, mjólkurbílstjórarnir, sem fljótlega urðu allra manna þarfastir í hverri sveit sakir margháttaðrar fyrirgreiðslu er þeir stöðugt veittu.“

                                    (Úr kaflanum Fyrsta mjólkursamlagið, bls. 190. Útg. Skrudda, 2013.)

 

 

 

Eitt af síðustu rjómabúunum

Í Landbúnaðarsögu Íslands eftir Jónas Jónsson, 3. bindi, segir svo:

 

„Rjómabú urðu ekki mörg í Eyjafirði, því héraði sem síðar átti eftir að verða hvað þekktast fyrir mjólkurframleiðslu og góða og mikla nautgriparækt. Þar var þó eitt af síðustu búunum sem störfuðu í Svarfaðardal og lagðist niður 1918.“

                                    (Úr kaflanum Fyrsta mjólkursamlagið, bls. 190. Útg. Skrudda, 2013.)

 

 

***

 

Kviðlingar

 

 

Vísa um mjólkurflutningabílstjórana á Dalvík:

 

Þó að ei sé gatan greið

gusti kalt og snjói,

samt þeir komast sína leið

Svenni, Dóri og Jói.                       Höf.: Jóhannes Óli Sæmundsson

(Fundið í skjalakassa Jóhannesar Óla á Amtsbókasafninu á Akureyri)

 

 

 

Þorsteinn Kristinsson (Steini Kidda) orti til Halldórs Gunnlaugssonar:

 

Gírahlýrann garpur knýr

greitt hjá Mýrarlóni,

stýrir dýru drengur skýr

dísilhýru ljóni.                                            (Heimildamaður Jón G. Halldórsson)

 

 

Þorsteinn Kristinsson orti til Sveins Jónssonar:



Heldur taki heim í vör
hann ei slakan gefur,
marga svaka svaðilför
Sveinn að baki hefur.                                 (Heimildamaður Sveinn Kristinsson)



Eftirmæli Þorsteins Kristinssonar um Svein Jónsson:


Ævi þín var alltof stutt
en þér tókst að lenda,
hinsta ækið hefur flutt
heilt á leiðarenda.                                       (Heimildamaður Sveinn Kristinsson)

Í kafla um samgöngumál í Sögu Dalvíkur II segir svo (bls. 339-340):

„Mjólkurbílarnir urðu veigamestu samgöngutækin, og ökustarfið var ekki með sældum sótt í þá daga. Haraldur Zóphoníasson sendi bílstjórunum þessa kveðju:

 

Eiga skilið orðin hlý,

ærna þökk og sóma,

þeir sem flytja efnið í

osta, skyr og rjóma.“

 

 

            ***