Ýmislegt af netinu tengt mjólkurflutningi í Svarfaðardal

Ýmislegt af netinu tengt mjólkurflutningi í Svarfaðardal

 


VERKAMAÐURINN            XXXVII. árg. 35. tbl.:

Akureyri, föstudaginn 22. október 1954        

Stórviðri fyrir Norðurlandi

Í fyrradag og aðfaranótt dagsins í gær var stórviðri fyrir Norðurlandi og mikil fannkoma í útsveitum. Strandferðaskipið Skjaldbreið fékk brotsjó á sig hér úti fyrir og brotnuðu gluggar í yfirbyggingu skipsins og lífbáturinn laskaðist og minni skemmdir urðu. Á Siglufirði, Svarfaðardal og víðar norðanlands hefur fannkoma verið mikil og urðu ýtur t d. að ryðja mjólkurflutningabílum braut í Svarfaðardal í gær, en snjór var þar þá allt að knédjúpur.

Heimild: Tímarit.is


Dagur, miðv. 9. febrúar 1955

 

Ýmis tíðindi úr nágrannabyggðum

Þrír stórir vöruflutningabílar rjúfa einangrun Svarfaðardals

 

              Úr Svarfaðardal 7. febrúar.

Þrír stórir vöruflutningabílar flytja mjólk úr Svarfaðardal hingað til Akureyrar og þungavöru héðan til kaupfélagsins og annarra verzlana á Dalvík. Þessir bílar eru einu samgöngutækin, er rjúfa einangrun Svarfaðardals og Dalvíkur. Undanfarna viku hefur engum öðrum en þessum stóru trukkum verið fært að komast milli Akureyrar og Dalvíkur. – Snjór er mikill, sérstaklega frá Dalvík og inn fyrir Hámundarstaðaháls. Í Svarfaðardal er og mikill snjór.

Dalvíkurbílarnir hafa brotizt til Akureyrar þrisvar í viku. En fyrst sækja þeir mjólkina fram í Svarfaðardal, að Brekku. Er þar illt færi, jafnvel þessum sterku bíkum. T. d. voru þeir sl. laugardag 9 klst. á leiðinni fram að Brekku og aftur til Dalvíkur Er þetta aðeins 6 km. vegalengd [á] sleðum.

En Svarfdælingar hafa beltisdráttarvél í förum, með stóran mjólkurflutningasleða í togi og flytja á honum mjólkina úr Svarfaðardal annan daginn en úr Skíðadal hinn daginn. Bændur verða því líka að bjargast “upp á gamla móðinn” og flytja á hestasleðum líka.

Undanfarið hefur verið óstillt tíð og jafnan rennt í slóðina frá degi til dags. En bílstjórarnir eru vanir ýmsu á þessari leið og leggja nótt við dag þegar því er að skipta. Bifreiðarnar eru alltaf samferða og er það mikill styrkur í vondu færi. Er það algeng sjón á þessari leið að sjá bílana ýta hver á annan og má þá vera vond færð, svo að ekki miði áfram. Ekki hefur þótt tiltækilegt að skafa veginn meðan tíðin er jafn óstillt og verið hefur. 

Hangikjötið soðið – en þorrablóti frestað.

Svarfdælingar ætluðu að halda þorrablót fyrir nokkru, en urðu að fresta því vegan ótíðarinnar. Búið var að sjóða hangikjötið og undirbúa samkomuna á annan hátt. Verður hún haldin strax og veðri slotar og venjulegum bílum verður fært um veginn. […]

Heimild: Tímarit.is 

 


Tíminn, 25. jan. 1959

 

Dalvíkurvegur mjög erfiður

Akureyri í gær. – Í dag er frostlaust sunnan átt og sæmilega bjart veður. Renningur hefur verið og slóðir á vegum fyllt. Dalvíkurvegurinn hefur verið sérstaklega erfiður síðustu daga, og eitt sinn voru mjólkurbílar 24 klukkustundir aðra leiðina, sem að sumri er ekki nema klukkustundar ferð. ED

Heimild: Tímarit.is   (bls. 2)


Tíminn, 25. jan. 1959

 

Mjólkurbílar 15 klst frá Dalvík til Akureyrar

Frá fréttaritara Tímans á Dalvík.

Hér eru allir vegir ófærir um þessar mundir vegna snjóa, hefir hríðað gríðarmikið undanfarna daga og skafið svo í förin, að mjólkurbílar, sem í fyrradag brutust fram í sveitina, voru 15 klst. að aka 16 km leið fram og til baka, þótt þeir nytu aðstoðar frá jarðýtum. Mjólkurbílarnir fóru til Akureyrar í gær og voru einnig 15 tíma á þeirri leið, en ætluðu frá Akureyri í morgun heimleiðis, en snéru við. Verður byrjað að ryðja veginn Dalvíkurmegin í fyrramálið. P.J.

 

Heimild: Tímarit.is     (bls. 12)


Dagur, 28. jan. 1959

 

Mynd á forsíðu af tveimur trukkum og þremur bílstjórum; Sveini Jónssyni, Jóni Jónssyni og Friðþjófi Þórarinssyni. Texti:

“Dalvíkurtrukkarnir fara allt.” Hér eru tveir þeirra rétt komnir, voru 24 klst. frá Svarfaðardal. -   Mynd E.D.

 

Á baksíðu (bls. 8): Viðtal við Björn Júlíusson í Laugahlíð

Gerðist bóndi eftir nær 30 ára iðnstarf

[…]

Björn Júlíusson er Svarfdælingur að ætt og uppruna og stundaði sveitastörfin fram undir þrítugsaldurinn, lagði miðstöðvar í nær 30 ár og átti þá heima hér á Akureyri og hóf búskap í Svarfaðardal á síðasta vori.

Hvenær komstu annars í bæinn í dag?

Var rétt að koma, svarar Björn, og ég lít á klukkuna. Hún var rúmlega 10 árdegis.

Ykkur hefur gengið vel í morgun úr Svarfaðardalnum?

Já, furðu vel. Við komum samt ekki að heiman í morgun. Mjólkurbílarnir, þessir þrír trukkar hérna lögðu af stað um þetta leyti í gærmorgun og hafa því verið um það bil sólarhring á leiðinni framan úr Svarfaðardal og hingað til Akureyrar, segir Björn.

Vegurinn er þá sem sagt ófær?

Já, í venjulegum skilningi er hann það, sem bezt sést á því, að þessi vegalengd er ekki nema röskur klukkustundar akstur á góðum vegi.

[…]

Heimild: Tímarit.is

 

 


Dagur 1. apríl 1969

 

Mikill rauðmagaafli

Dalvík 31. marz

Góð hrognkelsaveiði hefur verið hér þegar á sjó hefur gefið. Fengizt hafa upp í 700 rauðmagar í umvitjum hjá hverju úthaldi.

Verið er að opna leiðina til Akureyrar og einnig fram í dalina. Mjólkurbílarnir leggja af stað með mjólk til Akureyrar í kvöld, eftir meira en vikuhlé. En þann tíma hefur mjólkin verið flutt sjóleiðina.

Skugga-Sveinn verður væntanlega frumsýndur um miðjan apríl. J.H.  

 

Heimild: Tímarit.is


 

Blaðaviðtöl við bílstjóra með myndum:

 

Norðurslóð, Þórarinn Hjartarson við Halldór Gunnlaugsson og Gunnar Jónsson, hér á Tímarit.is. 

Sjá einnig á sama stað eftir sama höfund (bls. 12):  Annáll mjólkurflutninga í Svarfaðardal

Norðurslóð, Hjörtur E. Þórarinsson við Jón A. Jónsson, hér á Tímarit.is. 


Skjaladagar safna:

 

Mjólkurflutningar í Eyjafirði

Mjólkurflutningar úr Svarfaðardal til Akureyrar hófust sumarið 1934. Sú frumraun gaf það góðan árangur að menn vildu halda þeim áfram og næstu árin þar á eftir urðu flutningarnir stöðugt meiri, þrátt fyrir slæma vegi og ýmsa farartálma. Fyrst í stað var mjólkin aðeins flutt á sumrin en það var mönnum keppikefli að mjólkin væri flutt árið um kring.

Heimild: Skjaladagur 

 

Mjólkurflutningar í Svarfaðardal

Árið 1934 var í fyrsta sinn gerð tilraun til að flytja mjólk frá Svarfaðardal til Akureyrar. Þetta var fyrri hluta sumars og vegurinn til Akureyrar var ekki fullgerður. Tilraunin tókst það vel og varð slík búbót fyrir bændur að í kjölfarið eða 1935 var ákveðið að stofna sérstaka mjólkurdeild innan Svarfdæladeildar KEA. Það voru 18 bændur sem gerðust stofnfélagar.

Heimild: Skjaladagur 

 


 

Brúsapallar horfnir

 

Úr grein Þórðar Helgasonar í Mbl. 23. janúar 2011 

 

Kennari, hvað er brúsapallur?     Tungutak Þórður Helgason

 

[…] Þannig er það staðreynd að allsendis væri ómögulegt að kenna börnum vorum og unglingum ljóðið um Bjössa á mjólkurbílnum án þess að því fylgdu nákvæmar orðskýringar. Þannig stendur í Íslensku orðabókinni:

„Brúsapallur: pallur á mótum þjóðvegar og heimreiðar að býli þar sem mjólkurbrúsar eru settir fyrir mjólkurbílinn.“

Það vekur athygli að sögnin, sem fylgir skýringunni, er í nútíð (eru). Nú er tími brúsapallanna liðinn og líklega væri réttara að nota þátíðina (voru).

Brotthvarf brúsapallanna úr íslensku þjóðlífi var fyrir nokkrum árum tilefni þessarar vísu manns sem virðist sakna ákaft horfins tíma:

 

Öðruvísi allt í gær;

aldni tíminn fallinn.

Okkar bíður engin mær

við engan brúsapallinn.

 

Brúsapallurinn horfni er einungis eitt dæmi ótal margra um orð sem látið hafa í minni pokann fyrir þessu óttalega skrímsli sem við köllum þróun, jafnvel framfarir, og engu eirir. […]

Heimild: Morgunblaðið


 

Minningabrot           

Brúsapallurinn                                 

(Af Suðurlandi)

Við því næst hvern afleggjara frá þjóðveginum var brúsapallur. Á honum biðu fullir mjólkurbrúsar eftir mjólkurbílnum og tómir brúsar frá deginum áður biðu þess að vera sóttir. Brúsapallar voru þó annað og meira en stæði fyrir mjólkurbrúsa. Þar biðu vörur sem komu með mjólkurbílnum, bæði búvörur og vörur til heimilisþarfa. Og ekki má gleyma póstinum sem líka kom með mjólkurbílnum. […]

Þarna báru menn saman bækur sínar, sögðu fréttir og töluðu um veðrið. Svo bættist mjólkurbílstjórinn við og hafði frá einhverju að segja. [...]

Brúsapallurinn sjálfur var ekki mikið mannvirki. Gæti hafa verið tveir og hálfur metri á lengd. Breiddin rúmlega metri og hæðin tæpur metri. Pallgólfið timburplankar og burðarvirkið líka. Hann var nánast í vegkantinum þannig að mjólkurbíllinn þurfti lítið að sveigja til að geta stöðvað þannig að bílpallurinn og brúsapallurinn mynduðu eina samfellu. [...]

Mjólkurbíllinn var vörubíll með opnum palli með háum skjólborðum, líklega jafnháum brúsunum. Ekilshúsið var það stórt að bekkur var aftan við ökumann og sessunauta hans. Mjólkurbíllinn var nefnilega líka notaður til farþegaflutninga. [...]

Mjólkurbrúsarnir voru undantekningarlítið 40 lítra járnbrúsar. [...] 

 G.Sv.

Heimild: Garðshorn   (sótt 27. okt. 2020)

 


 

Svarfdælasýsl

Á síðunni um snjóflóð í Sv.dal 1955 segir svo:

Mjólkurbíll frá Akureyri var allan Þorláksmessudaginn að brjótast til Dalvíkur.

 

Heimild: Svarfdælasýsl    (Sótt 26. ágúst 2020)


 


(„Þetta er ekki búið!!“ SBG)

mbl.is, mið. 2. jan. 2013 10:14

 

Mjólkurbíll var á ferð til kl. 3 í nótt

Kristín Halldórsdóttir, mjólkurbússtjóri á Akureyri, segir að miklir erfiðleikar hafi verið við mjólkursöfnun á Norðurlandi síðustu daga vegna ófærðar. Síðasti mjólkurbíllinn skilaði sér til Akureyrar kl. 3 í nótt.

Samkvæmt áætlun átti að vera búið að sækja mjólk til allra bænda á Norðurlandi fyrir áramót. Það tókst ekki því veður var mjög slæmt á gamlársdag og því lögðu mjólkurbílsstjórar aftur af stað í gær. Ófærðin var mest í Svarfaðardal og í Mývatnssveit. Bíllinn sem fór í Svarfaðardal skilaði sér ekki til Akureyrar fyrr en kl. 3 í nótt. Bílarnir sem komu í gær voru að ná í mjólk sem var orðin fjögurra daga gömul.

[…]

Kristín sagði að þessi vetur væri búinn að vera erfiður í mjólkurflutningum á Norðurlandi. Það hefðu verið truflanir á mjólkurflutningum strax í óveðrinu 10. september og síðan í október hefðu menn nær stöðugt verið að eiga við ófærð.

 

Heimild: Morgunblaðið