Þura okkar er fallin frá – eða Amma Þura, eins og börnin kölluðu hana.

Þura okkar er fallin frá – eða Amma Þura, eins og börnin kölluðu hana.

Þuríður Sigurðardóttir, leikskólakennari, starfaði um árabil hjá Dalvíkurbyggð og hafði djúp og varanleg áhrif á leikskólastarfið í sveitarfélaginu. Lengst af starfaði hún í Krílakoti, en einnig um tíma í Kátakoti. Þar sinnti hún meðal annars störfum sem deildarstjóri, í sérkennslu, og ekki síst með áherslu á tónlist, sem var henni hugleikin og hjartfólgin.

Haustið 2009 hófst samstarfsverkefni milli Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar og leikskólanna Krílakots, Kátakots og Leikbæjar. Verkefnið fólst í því að elstu árgangar leikskólanna fengu kennslu í tónlist – og Þura var sú sem leiddi það af mikilli alúð og fagmennsku. Hún heimsótti leikskólana einu sinni í viku, söng með börnunum, þjálfaði þau í rytma og grunnþáttum tónlistarnáms, og kveikti hjá þeim tónlistaráhuga sem margir bera með sér ævilangt.

En Þura var svo miklu meira en hæfur fagmaður. Hún var einstaklega jákvæð, hláturmild og með sterkan og hlýjan húmor sem smitaði út frá sér. Hún var alltaf tilbúin að leiðbeina og styðja samstarfsfólk, sama hvað um var að ræða. Hún var sú sem maður gat alltaf leitað til – með bros á vör og góð orð á reiðum höndum.

Það er enginn vafi á því að Þura hafði einstaka nærveru og getu til að tengjast börnum. Hlýjan hennar, gleðin og ástríðan fyrir starfinu skiluðu sér í því trausta og örugga umhverfi sem hún skapaði fyrir börnin. Í leikskólanum var hún kölluð Amma Þura – heiti sem segir meira en mörg orð um ástina og virðinguna sem börnin báru til hennar.

Við sem störfuðum með Þuru, og öll þau börn og foreldrar sem fengu að njóta hennar, minnumst hennar með djúpri virðingu og þakklæti. Hún skildi eftir sig spor – í hjörtum, í söng og í samfélaginu okkar.

Með þakklæti og virðingu kveðjum við góða vinkonu og samstarfskonu.