Spil

Mjög mikilvægt er að nýta þau tækifæri sem gefast í daglegu lífi barnsins til stærðfræðilegra vangaveltna, s.s. umræðna um hvað þarf marga diska, glös eða hnífapör þegar barnið hjálpar til við að leggja á borð.  spil

Oft leynist líka stærðfræði í texta sem verið er að lesa fyrir barnið. Flest börn hafa ánægju af að spila og eru teningaspil (t.d. slönguspilið) og ýmis spil sem spiluð eru á 52 spil kjörin til að eiga ánægjulega samveru með börnunum heima og styðja við þroska þeirra í leiðinni. Hér eru nokkur spil sem gætu hentað vel, líka til að eiga gæðastund með barninu.

Blindtrú - Langavitleysa

Spil fyrir 2 sem hentar vel ungum börnum.
Gögn: Spilastokkur með 52 spilum. Undirbúningur: Eitt spil er dregið úr spilastokknum. Það segir til um hvaða litur (hjarta, spaði, tígull eða lauf) er tromp. Spilinu er stungið aftur í stokkinn, stokkað vandlega og spilunum síðan skipt jafnt á milli spilara. Gangur spilsins: Báðir spilararnir snúa spilum sínum á grúfu og mega ekki skoða þau. Sá sem byrjar setur efsta spilið úr sínum bunka upp í loft í borðið, hinn leggur efsta spilið í sínum bunka ofan á það. Þetta gera spilarar til skiptis þar til tromp kemur upp. Þá setur sá sem ekki átti trompið eitt spil ofan á spil sem hafa gildin frá 2 upp í 10, tvö ofan á gosa, þrjú ofan á drottningu, fjögur ofan á kóng og fimm ofan á ás. Sá sem átti trompið stingur síðan öllum bunkanum á grúfu undir sín spil og setur út nýtt spil. Þannig gengur þetta þar til annar er búinn með öll sín spil og hefur hann þá tapað spilinu.

Kóngur úti í horni

Spil fyrir 2. Hentar yngri börnum ágætlega.
Gögn: Spilastokkur með 52 spilum. Undirbúningur: Leikmönnum eru gefin þrjú spil fyrst, síðan tvö og svo aftur þrjú. Leikmenn einir sjá spilin sín. Stokkurinn settur á hvolf á mitt borðið. Fjögur spil lögð upp í loft á borðið, eitt við hverja hlið stokksins. Gangur spilsins: Spilið gengur út á að losna við öll spilin af hendi. Leikmenn gera til skiptis. Alltaf er byrjað á að draga spil úr stokknum áður en leikmaður gerir. Sá sem ekki gaf byrjar og leggur síðan einu lægra spil í öðrum lit ofan á eitthver af spilunum á borðinu. Dæmi: Svartur gosi í borði-rauð tía löð ofan á hann eða rauð tía í borði sem má vera með spil ofan á sér er færð ofan á svarta gosann. Spilarinn sem er að gera má leggja niður eins mörg spil og hann getur þegar hann á leik. Kónga á að leggja við horn spilastokksins og rekja ofan á þá. Ef eyða myndast á einhverjum hinna fjögurra staða má leggja hvaða spil sem er í hana. Þegar annar spilarinn hefur losnað við öll spilin sín af hendi hefur hann sigrað.

Ólsen - Ólsen

Spil fyrir 2-5.
Gögn: Spilastokkur með 52 spilum. Undirbúningur: Gefið er sólarsinnis og fær hver spilari fyrst þrjú spil og síðan tvö. Það sem eftir er af stokknum er lagt á grúfu á borðið og efsta spilið sett upp í loft við hlið hans. Sá sem er á vinstri hönd við þann sem gaf byrjar að gera og hann á líka að gefa næst. Gangur spilsins: Spilið gengur út á að losna við öll spilin af hendi. Sá sem á leik leggur spil af sama lit eða með sama gildi og spilið sem snýr upp ofan á það spil. Dæmi: Efsta spilið er hjarta þristur. Þá má leggja annað hvort hjarta fjarka ofan á eða þrist af annarri sort. Átturnar má nota til að “breyta” með og geta því komið í staðinn fyrir hvaða spil sem er. Ef átta snýr upp í byrjun spils má leggja hvaða spil sem er ofan á hana. Ef spilari getur ekki eða vill ekki leggja niður spil verður hann að draga eitt spil úr stokknum.Geti hann ekki lagt það niður dregur hann annað spil og enn annað geti hann ekki notað það (ekki má draga oftar en þrisvar). Leikmenn skiptast á um að gera og í hvert sinn sem röðin kemur að þeim leggja þeir spil í bunkann eða draga úr stokknum. Þegar einhver leggur niður næstsíðasta spilið sitt segir hann “Ólsen” til að vara aðra við því að hann eigi bara eitt spil eftir á hendi. Gleymi hann því verður hann að draga þrjú spil úr stokknum. Segja á “Ólsen, Ólsen” þegar síðasta spilið er lagt niður, gleymist það þarf líka að draga þrjú spil úr stokknum og spilið heldur áfram. Sé stokkurinn búinn áður en spilinu lýkur er efsta spilið í bunkanum skilið eftir í borði, hin stokkuð og stokknum komið fyrir á sama stað og áður. Útreikningar: Þegar einhver spilaranna hefur náð að losna við öll spilin af hendi eru refsistig hinna talin. Þau eru reiknuð út frá spilunum sem þeir hafa á hendi. Hver átta gildir 40 stig, ás 20 stig, mannspilin og tía 10 stig og tvistur upp í níu 5 stig. Þegar einhver leikmanna er kominn yfir 100 stig er hann sprunginn og hefur tapað spilinu. Fái einhver nákvæmlega 100 fær hann að byrja aftur á núlli. Springi enginn spilari í fyrsta spili er spilið endurtekið eins oft og þarf þar til einhver springur. Nýjum refsistigum er bætt við fyrri refsistig þar til 100 refsistigum er náð.

Ólsen – Ólsen upp og niður

Spil fyrir 2-5. Hentar yngri börnum ágætlega.
Gögn: Spilastokkur með 52 spilum. Undirbúningur: Gefið er sólarsinnis og fær hver spilari fyrst þrjú spil og síðan tvö. Það sem eftir er af stokknum er lagt á grúfu á borðið og efsta spilið sett upp í loft við hlið hans. Sá sem er á vinstri hönd við þann sem gaf byrjar að gera og hann á líka að gefa næst.
Gangur spilsins: Spilið gengur út á að losna við öll spilin af hendi. Sá sem á leik leggur spil sem er einu hærra eða einu lægra en spilið sem snýr upp ofan á það spil. Dæmi: Efsta spilið er kóngur. Þá má leggja annað hvort drottningu ofan á eða ás. Ef spilari getur ekki lagt niður spil verður hann að draga eitt spil úr stokknum.Geti hann ekki lagt það niður dregur hann annað spil og enn annað geti hann ekki notað það (ekki má draga oftar en þrisvar). Leikmenn skiptast á um að gera og í hvert sinn sem röðin kemur að þeim leggja þeir spil í bunkann eða draga úr stokknum. Þegar einhver leggur niður næstsíðasta spilið sitt segir hann “Ólsen”. Gleymi hann því verður hann að draga þrjú spil úr stokknum. Segja á “Ólsen, Ólsen” þegar síðasta spilið er lagt niður, gleymist það þarf líka að draga þrjú spil úr stokknum og spilið heldur áfram. Ef stokkurinn er búinn áður en spilinu lýkur er efsta spilið í bunkanum skilið eftir í borði en hin spilin stokkuð og stokknum komið fyrir á sama stað og áður.

Svarti Pétur

Spil fyrir 2-10 sem hentar vel ungum börnum.
Gögn: Spilastokkur með 52 spilum. Undirbúningur: Eitt spil er dregið úr spilastokknum og sett til hliðar án þess að nokkur sjái. Spilin sem eru eftir eru gefin réttsælis, eitt í einu. Allir skoða spilin sín og “jafna”, en það þýðir að finna á allar tveggja spila samstæður á hendi og leggja til hliðar. Þær eru ekki meira með í spilinu. Gangur spilsins: Spilið gengur út á að losna við öll spilin af hendi. Sá sem situr uppi með síðasta spilið er Svarti Pétur og hann er sá sem tapar. Sá sem er á vinstri hönd við þann sem gaf byrjar og dregur eitt spil af þeim sem gaf, passa vandlega að enginn sjái spilin. Sé hægt að jafna nýja spilinu við eitthvert þeirra spila sem eru á hendinni má kasta þeirri samstæðu. Síðan dregur sá næsti til vinstri o.s.frv. Þegar spilari hefur losnað við öll spilin af hendinni er hann ekki lengur með í spilinu og þar með sloppinn við að verða Svarti Pétur. Síðasta spilið jafnast síðan við spilið sem upphaflega var dregið úr bunkanum og sá sem er með það á hendi verður Svarti Pétur.

Veiðimaður

2-4 spila á 52 spil

Markmið Afbrigði 1- Að safna slögum (fjórum spilum með sama gildi), t.d. öllum tvistunum. Leikmaðurinn sem safnar flestum slögum vinnur. Afbrigði 2- Eins og afbrigði 1 nema nú vinnur leikmaðurinn sem nær til sín öllum slögunum í lokin. Gangur spilsins Afbrigði 1: Öllum spilunum er dreift á borðið með bakhliðina upp. Hver leikmaður dregur 5 spil til að hafa á hendi. Samkomulag er um hver byrjar að spyrja. Spyrja má hvaða leikmann sem er hvort hann eigi spil með ákveðnu gildi. Dæmi: „Jón, áttu fjarka?“ Eigi Jón spilið verður hann að afhenda það og leikmaðurinn sem spurði á að spyrja aftur. Ef Jón á ekki spilið segir hann „veiddu“ sem þýðir að leikmaðurinn sem spurði á að draga eitt spil úr borði. Sé leikmaður svo heppinn að draga það spil sem hann spurði um má hann spyrja aftur, annars spyr sá sem var spurður. Ef leikmaður hefur ekkert spil á hendi á hann að draga eitt spil úr borði til að halda áfram. Þegar leikmaður hefur fengið öll fjögur spilin með sama gildi hefur hann fengið slag sem hann leggur á hvolf á borðið. Leikmaðurinn með flesta slagina í borði vinnur spilið.
Afbrigði 2 (framhald af 1): Spilað er eins og lýst var hér á undan (afbrigði 1), en nú vinnur leikmaðurinn sem nær öllum slögunum til sín í lokin. Leikmaðurinn með flesta slagi í borði byrjar að spyrja um þá slagi sem hann á ekki og verður að muna hvað hann á sjálfur. Hann spyr eins og áður um slag með ákveðnu gildi. Dæmi: „Anna, áttu þristana?“. Anna má skoða sína slagi. Ef hún á þristana lætur hún leikmanninn hafa þá og leikmaðurinn sem spurði má spyrja aftur. Ef hún á ekki þristana fær hún að spyrja. Svona er haldið áfram þar til einn leikmaður hefur náð öllum slögunum til sín.