Jóhann Kr. Pétursson 110 ára

Jóhann Kr. Pétursson 110 ára

Hinsta ferðalag Jóhanns “Svarfdælings” Péturssonar

Jóhann Kr. Pétursson 110 ára

Jóhann Kristinn Pétursson fæddist í Lundargötu 6 á Akureyri, þann 9. febrúar 1913. Foreldrar hans voru Pétur Gunnlaugsson (1878) sjómaður frá Glæsibæ og Sigurjóna Steinunn Jóhannsdóttir (1886) frá Brekkukoti í Svarfaðardal. Þegar Jóhann var þriggja mánaða gamall, flutti fjölskyldan til Dalvíkur og seinna í Svarfaðardal. Jóhann var ósköp venjulegt barn og þótti ekkert óeðlilegt við vöxt hans. Það var ekki fyrr en á kynþroskaskeiðinu sem að vöxtur hans fór að vekja athygli. Jóhann varð fyrir því óláni að fæðast með góðkynja æxli í heiladingli sem valdið hafði offramleiðslu vaxtarhormóns. Þessi sjaldgæfi sjúkdómur veldur miklum og hröðum líkamsvexti sem heldur áfram ef ekki er gripið inn í. Í dag er hægt að koma í veg fyrir þennan ofvöxt með skurðaðgerð, en það var ekki tilfellið hjá Jóhanni. Hann þurfti því að lifa með sjúkdómnum sem litaði mjög ævi Jóhanns.

Á byggðasafni Dalvíkurbyggðar, Hvoli, er Jóhannsstofa þar sem varðveittir munir úr eigu Jóhanns eru m.a. til sýnis. Þó að þessir munir gefi okkur einhverja sýn á hversu flókið en viðburðaríkt líf Jóhanns var, þá er lítið hægt að sjá hvað bjó innra með honum, enda var Jóhann ekki mikið fyrir sviðsljósið þó að lífið hafi valið það hlutverk fyrir hann.

 

Jón Hjaltason skrifaði ævisögu Jóhanns er nefnist "Of stór fyrir Ísland" árið 2001. Þar er lífi Jóhanns gerð góð skil með bréfum eftir hann sjálfan og aðrar heimildir honum tengt. Á Héraðsskjalasafninu er í varðveislu bréfasafn og dagbækur Jóhanns sem varpa ljósi á tilfinningalíf Jóhanns á frábrugðnu æviskeiði, hvað braust um í kollinum á Jóhanni Péturssyni? Hvernig maður var hann? Hvaða skoðanir hafði hann?. Flest skjölin eru þó flokkuð sem trúnaðarskjöl í virðingu við einkalíf Jóhanns, en til eru bréf frá honum í öðrum afhendingum sem geta gefið okkur örlítið innsýn inn í líf hans.

Í afhendingu frá Dr. Kristjáni Eldjárn Þórarinssyni eru varðveitt bréfaskipti milli hans og Jóhanns.
Árið 1980 sendi Jóhann æskuvini sínum Danna bréf. Danni þessi var fyrrnefndur Kristján Eldjárn. Þeir Jóhann og Kristján voru sveitungar og þekktust ágætlega á þeim tíma þegar þeir voru enn að slíta barnsskónum í Svarfaðardal, enda einungis þrjú ár á milli þeirra. Þeir héldu góðu vinasambandi eftir að Jóhann fluttist út í heim og lífsvegir þeirra skildust að, annar í fjölleikahús og hinn á Bessastaði.

Það var þó ekki tilviljun að Jóhann sendi Kristjáni bréf 1980, því sama ár tilkynnti Kristján að hann myndi ekki gefa kost á sér í fjórða sinn í komandi forsetakosningum þann 29. júní 1980. Þá var Jóhann búsettur í Riverview í Flórída. Bréfið ritar Jóhann deginum fyrir kosningarnar og er greinilegt að það hafi verið kveikjan á komandi bréfaskiptum.

28 júní 1980: „ Herra Dr. og forseti Kristján Eldjárn. Kæri æskuvinur - Danni!
Í dag ert þú titlaður forseti. Á morgun má skreyta þig fegursta og ljúfasta titilinn sem þér hefur verið gefið, sem sé „Danni“

Eitthvað hefur gamla gælunafn Kristjáns vakið upp gamlar minningar þar sem hann svarar Jóhanni stuttu seinna með þessum orðum:

10 ágúst 1980: „Góði gamli vinur. [...] Ég held að ég hafi einhvern tíma sagt þér hverjir síðast kölluðu mig Danna. Það voru Trausti bróðir þinn og Sigríður frá Völlum en langt er nú orðið síðan. Nú hefur þú slegið metið og það mjög rækilega, og enn hlýnar mér um hjartarætur við að heyra þetta góða gamla nafn, sem satt að segja er synd og skömm að skuli nokkurn tíma hafa verið lagt niður. Þetta átti víst að vera Stjáni, sem kom svona fallega út úr mér. Ég man að allir í sveitinni kölluðu mig þessu nafni, en eftir að ég komst á tvítugsaldur fór það smám saman að leggjast af. Það var nú það. Hver veit nema nú verði farið að nota það aftur, því nú erum við flutt frá Bessastöðum […].“

Í bréfaskiptunum þeirra félaga ræða þeir samfélagsmálin, veðurfarið og einkalífið. Það sem liggur þó mest á Jóhanni og er aðal umræðuefni bréfanna er að Jóhann var á þessum tíma að missa heilsuna bæði líkamlega og ekki síður andlega. Í þessum veikindum hugsaði Jóhann heim til Íslands og þann möguleika að eyða þar því sem eftir væri ævi sinnar. Hann á þó erfitt með að ímynda sér þá framkvæmd og miklar hana fyrir sér bæði vegna heilsufars síns en ekki síst að komast aftur inn í íslenskt samfélag.

„Af mér er lítið sem ekkert að frétta. Heilsan mín og líkamspartar í lélegu ástandi. Sennilega verð ég að fara að slá þrána á bug og gegna fyrir alvöru að komast heim til Íslands til að dvelja þar í von og vissu um að þar geti ég fengið meiri og betri aðhlynningu læknis og kannski á elliheimili ? Hér er mér orðið ófært að vera svona aleinn. [...] En á fótum er ég nú, bara lélegur og fer hvorki [á] færi í Keflavíkina né Sveinsstaða göngur (1).
Kærasta kveðja. Jóhann K. Pétursson “

(1) Hér vitnar Jóhann í þegar hann sem ungur piltur var á sjó í Eyjafirðinum og er "Keflavíkin" sem um ræðir í Fjörðum. "Sveinstaða göngur" eru göngur sem enn eru gengnar ári hverju í Sveinsstaðarafrétt í Skíðadal. Jóhann hefur ef til vill gengið þar þegar hann var sveitapiltur í Svarfaðardal

Kristján svarar:

“Þá kemur sú spurning sem þú innir að í bréfinu, hvort þú ættir ekki að “sigrast á þráanum” og koma hingað heim, til þess einkum að komast undir læknis hendur með fullkomnari hætti en þú sennilega átt kost á þar sem þú ert nú. Enn sem fyrr verður þetta að vera þín ákvörðun, ekki er hægt að ákveða neitt fyrir þig. En ég held að þú hljótir að vita að mörgum hér heima finnst að þú ættir að koma heim. Og einnig munt þú vita að margir myndu vilja greiða götur þína í þessu sambandi ef ske kynni að heimflutningur yrði þér erfiður einhverra hluta vegna. Til að mynda myndi varla vera erfiðleikum bundið að einhver þér kunnugur skytist vestur og hjálpaði þér til að komast af stað ef á þyrfti að halda. Einhvern veginn finnst mér heilsufar þitt muni vera þannig að gott væri fyrir þig að hafa slíkan aðstoðarmann ef þú brygðir á það ráð að búast til heimferðar. [...] Allt þetta sem ég skrifa um þín mál byggi ég á lýsingu sjálfs þín í bréfi þínu, nefnilega lýsinguna á heilsufari þínu á síðustu árum, svo og þeim ummælum að þú sért jafnvel kominn í alvarlega heimferðarþanka. En þá ætla ég að ítreka, að þú munir láta lækni þinn gefa sem fyllsta umsögn um ástand þitt til líkamans, því á grundvelli slíkrar umsagnar mund þú væntanlega komast inn á sjúkrahús í fyrstu atrennu og geta látið “laspra þér til”, eins og einhver karl í Svarfaðardal komst að orði. (var það ekki Jón gamli í Hánefsstöðum?) [...]. Ég vona, góði vinur, að þetta bréf hitti þig sæmilega hressan, og mér er það gleðiefni að léttur tónn var í bréfi þínu, þótt þú hafir gengið gegnum miklar þrengingar. Ég sé að þú heldur þínum húmor þótt á móti blási. Það er eitt hið besta lífsmark, það er fjallgrimm vissa fyrir því. [...]
Þinn einlægur “

Það eru m.a. þessi bréf sem urðu kveikjan á því, að koma Jóhanni heim til Íslands með hjálp fjölskyldu og vina, en það tók sinn tíma að sannfæra Jóhann að koma heim. Eftir 1980 fór heilsa Jóhanns að hraka mikið og árið 1982 var hann fyrir því óláni að hrasa við heimilið sitt sem varð til þess að líkamlega ástand hans hrakaði mjög. Jóhann lýsir þeirri atburðarás sem og heilsu sinni ítarlega í bréfi sínu til kunningja síns og sveitunga Gísla Kristjánssonar frá Brautarhóli sem var þá ritstjóri hjá búnaðarblaðinu Frey.

1. Febrúar 1982: “Heilsunni minni virðist hafa hnignað leiðinlega mikið s.l. ár. Gigtin í skrokknum vex á meðan ég minnka. Þessi liðabrjósk-beinagigt, sem hér er nefnd "arthreitis" er illlæknandi óþverri. [...] þá varð mér það á að riða og falla, sko, detta, missa rænu og skaða mig eða mína völtu fætur á hnám, báða ökkla og allar tær á vinstri fæti. Þær höfðu tættst, er ég með veikri rænu var að reyna reisa mig, en árangurslausu, því ég hafði fengið svo slæmt sjokk, að ég missti allan mátt. Ég lá þarna í bílaportinu á sementsgólfi frá kl. 11 um kvöldið til kl. 9 um morguninn, að ég gat kallað á hjálp nágranna, sem fengu sjúkrabíl í hvelli, og komst ég þannig á spítala. [...] Þar lá ég í þrjár vikur og var svo fluttur heim í sjúkrakörfunni aftur, ógangfær og með opin sár. Hjúkrunarkona kemur daglega og skiptir á sárum kannski bara í viku, þá á ég vonandi að geta gert það sjálfur [...] Þessa 4 daga síðan ég kom heim hef ég getað rölt ögn um hér inni með göngugrind og fæ vonandi máttinn í fætur á ný. Hægri fótur minn, sá veili í áraraðir, skemmdist þó ekki, nema ökklinn ögn. Það gekk út yfir þann vinstri og sterkari. Læknir ráðleggur mér að panta hjólastól, sem ég muni þurfa nota framvegis svo að sennilega ek ég aldrei hringveginn. Auðvitað óska ég þess heitt, að ég væri heima á Íslandi nú. En heim kemst ég ekki fyrstu mánuðina”

Það var þetta sama ár sem að það var að alvöru gengið í að koma Jóhanni heim í læknishendur og í betri umönnun. Gunnar Bergmann þáverandi forstöðumaður dvalarheimilisins Dalbæ tók að sér það verkefni að ferðast sjálfur út til Flórída árið 1982 og fylgja Jóhanni heim, fyrst á Landspítalann þar sem hann dvaldi í eitt ár og svo norður á heimaslóðirnar. Jóhann lést á Dalbæ tveimur árum eftir heimkomuna, þann 26. Nóvember 1984 og var útför hans gerð frá Dalvíkurkirkju.

Vert er að taka fram að hér hefur aðeins verið tekið til umfjöllunar brot af því verðuga verkefni að koma Jóhanni heim í öruggar hendur. Það er greinilegt að þó að líf Jóhanns hafi verið honum oft erfitt og ósanngjarnt, þá var hann ríkur af góðu fólki, fjölskyldu og vinum sem vildu honum vel. Það er þeim að þakka að Jóhann fékk sína hinstu hvílu í því umhverfi sem hann óskaði sér.


Það eru skjalasöfnum að þakka að við getum greint frá lífi þeirra sem á undan okkur voru og varðveitt þannig mikilvæga og merkilega menningarsögu okkar.

- Björk Eldjárn Kristjánsdóttir
Skjalavörður Héraðsskjalasafn Svarfdæla


 

Ljósmyndir:

 

Jóhann Kr. Pétursson og Kristján Eldjárn á Reykjalundi 1982 þar sem Kristján heimsótti hann reglulega.
(ljósm. Karl Magnússon í eigu Byggðasafnsins Hvol)

 

F.v Gísli Kristjánsson, Snorri Sigfússon og Kristján Eldjárn.
(Fyrsta stjórn Svarfdælingafélagsins í Reykjavík)

 

Jóhann fær aðstoð frá starfsmönnum Reykjavíkurflugvallar að komast upp í flugvélina sem flaug með hann norður á heimaslóðirnar í desember 1983.
(Ljósm. Dv. úr bókinni “Of stór fyrir Ísland”)

 

Myndin var tekin þegar Jóhann kom til Dalvíkur 1983 til að dvelja á dvalarheimilinu Dalbæ. Hjónin Steinunn Pétursdóttir (systir Jóhanns) og Jóhannes Haraldsson ganga með Gunnari Bergmann og Jóhanni.
(Ljósm. Ólafur Thoroddsen úr bókinni “Of stór fyrir Ísland”)