Fundur var haldinn í Veðurklúbbnum á Dalbæ fimmtudaginn 30. ágúst 2012 og hófst fundurinn kl. 14:00 og gerð spá fyrir septembermánuð.
Fundarmenn halda að veðráttan verði góð meiripart mánaðarins og að suðlægar áttir verði ríkjandi. Fullt tungl verður 31. ágúst og nýtt tungl kviknar í N.N.A þann 16. sept. kl. 02:11. Nafnið Óskar kom fyrir í draumi eins fundarmanns og var sá að syngja mjög þægilegan söng. Leið fundarmanni mjög vel í draumnum. Hann telur að þessi draumur boði gott haust. Tunglið sem kviknar þann 16. sept. er sunnudagstungl og þykir það einnig boða gott. Þannig eru flest teikn um gott veður í september og voru 13 fundarmenn á einu máli um það.
Með gágnakveðju,
Veðurklúbburinn á Dalbæ