Þriðjudaginn 4. febrúar 2014 var fundur haldinn í Veðurklúbbi Dalbæjar. Fundurinn hófst kl. 14:00 og voru fundarmenn 9 talsins. Farið var yfir veðurfar í janúar og voru klúbbfélagar mjög sáttir við hvernig spáin hafði gengið eftir. Nýtt tungl kviknar ekki í febrúar en tungl kviknaði 30. janúar í NV kl. 21:39. Hafa fundarmenn tilfinningu fyrir að vindar muni einkum blása úr gagnstæðri átt, það er að segja suðlægum áttum.
Gert er ráð fyrir að febrúarmánuður verði mildur og hitastig svipað og í janúar. Það styðja draumar einnig. Næsta tungl kviknar 1. mars og verða veðurfarslegar ályktanir dregnar út frá þeirri tunglkomu þegar spáð verður fyrir um veðurhorfur í marsmánuði.
Við viljum vekja athygli á því að spádómar okkar um veðurfar eru einkum sniðnir að veðurfari hér um slóðir þó svo að vissulega taki spáin til alls landsins og jafnvel út fyrir það.
Með góðri kveðju
Veðurklúbburinn á Dalbæ