Vaxtarsamningur Eyjafjarðar er samstarfsverkefni opinberra aðila og einkaaðila um uppbyggingu atvinnulífs við Eyjafjörð. Unnið er samkvæmt kenningum um fyrirtækjaklasa með samvinnu fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga um eflingu atvinnulífs og bætt umhverfi fyrir atvinnustarfsemi. Lögð er áhersla á þær atvinnugreinar sem eru nú þegar sterkar í Eyjafirði og styðja þær enn frekar til að takast á við alþjóðlega samkeppni.Vaxtarsamningur Eyjafjarðar mun standa út árið 2007. Ýmsir aðilar koma að fjármögnun þessa verkefnis og er áætlað að á þessu ári verði 17,5 milljónir í beinum fjárframlögum nýttar í Vaxtarsamninginn. Einnig eru framlög í formi sérfræðivinnu.
Vaxtasamningar sem byggja á klasahugmyndafræðinni hafa verið gerðir víða um heim með góðum árangri. Hugmyndafræði um klasana byggir á því að fyrirtæki sem venjulega eru í samkeppni myndi samstarf um þætti sem þau geta hagnast meira á sameinuð en ein og sér. Þetta á ekki bara við um fyrirtæki innan sömu atvinnugreinarinnar, heldur líka fyrirtæki sem mynda stoðkerfi við atvinnugreinina. Klasar eru því skilgreindir sem landfræðileg þyrping tengdra fyrirtækja, birgja, þjónustuaðila og stofnana á sérhæfðum sviðum sem eiga í samkeppni en einnig í samvinnu. Svo dæmi sé tekið geta fyrirtæki til dæmis sameinast um sameiginlegt dreifikerfi og sparað þannig kostnað.
Út frá þeirri grunngerð og atvinnuvegum sem eru á Eyjarfjarðarsvæðinu hafa verið skilgreindir fjórir klasar og verða þeir þungamiðjan í Vaxtasamningi Eyjarfjarðar. Þetta eru eftirfarandi klasar: Matvælaklasa, mennta - og rannsóknarklasa, ferðaþjónustuklasa og heilbrigðisklasi. Búið er að ráða verkefnisstjóra fyrir matvælaklasann og mennta - og rannsóknarklasann og hefst vinna við þá um miðjan febrúar. Reiknað er með að farið verði af stað með hina klasana í lok febrúar eða byrjun mars. Þegar vinna við klasana hefst þá munu verkefnisstjórar klasanna hafa samband við þau fyrirtæki sem til greina koma og bjóða þeim að koma á kynningar - og spjall fund.
Hér í Dalvíkurbyggð eru fjölmörg fyrirtæki sem geta nýtt sér vaxtasamninginn og tekið þátt í einhverjum af fjórum klösunum. Til matvælaklasans teljast öll fiskvinnslu - og sjávarútvegsfyrirtækin, Salka Fiskmiðlun og Sæplast svo dæmi sé tekið. Til ferðaþjónustuklasans teljast öll fyrirtæki sem á einhvern hátt tengjast ferðaþjónustu.
Framkvæmdaraðili Vaxtasamnings Eyjarfjarðar er Atvinnuþróunarfélag Eyjarfjarðar, en tengiliður þar er Halldór Ragnar Gíslason. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í síma 460 5700 eða í rafpósti afe@afe.is. Einnig er hægt að nálgast upplýsingar á nýstofnaðri heimasíðu verkefnisins sem er www.klasar.is