Ofan við Dalvík og neðan við Brekkusel er myndarlegur skógur. Sunnan við hann er verið að vinna frekara útivistarsvæði með útplöntun á trjám en það er peningagjöf frá Sveini Ólafssyni sem notuð er í það verkefni, eins og hann óskaði eftir.
Þetta svæði er orðið mjög skemmtilegt útivistarsvæði með gönguleiðum, afþreyingarsvæðum, grillaðstöðu, bekkjum, borðum og fjölbreyttum gróðri, íbúum og öðrum til yndis og ánægju. Ýmis verkefni eru þó áfram í vinnslu á þessu svæði og það í stöðugri þróun.
Þetta svæði hefur í raun ekkert ákveðið nafn, heldur hefur verið talað um reitinn, „að fara upp í reit“, eitthvað sem flestir bæjarbúar skilja við hvað er átt.
Nú stendur til að setja upp skilti á planið við skógarreitinn með upplýsingum um hann, Fólkvanginn og nýja svæðið sunnan við og væri því gaman að hafa eitthvert fallegt nafn á skóginum.
Til að vekja athygli og umræðu á þessu skemmtilega útivistarsvæði hefur verið ákveðið að óska eftir hugmyndum frá íbúum um nafn á þetta svæði eða þennan skógarreit.
Tillögur skal senda á Margréti Víkingsdóttur í Þjónustuver Dalvíkurbyggðar fyrir 9. september. Tillögum má skila á netfangið margretv@dalvikurbyggd.is eða senda í pósti á Margrét Víkingsdóttir, Ráðhúsi Dalvíkur, 620 Dalvík, v/nafnasamkeppni á skógreit. Fram þarf að koma tillaga að nafni, og nafn og heimilisfang sendanda.
Skipuð hefur verið 5 manna nefnd sem mun svo vinna úr tillögum.
Jón Arnar Sverrisson
Garðyrkjustjóri