Samskip reka Sæfara áfram

Samskip reka Sæfara áfram

Samningur Vegagerðarinnar og Samskipa um rekstur Grímseyjarferjunnar Sæfara hefur verið framlengdur til næstu tveggja ára. Landflutningar-Samskip hafa annast rekstur ferjunnar óslitið í rúm 12 ár eða frá 1. maí 1996. 

Í tilkynningu frá Samskipum segir, að nokkur aukning hafi verið milli ára í farþegaflutningum með Sæfara, fyrst og fremst yfir sumartímann. Aukningin milli áranna 2007 og 2008 hafi t.d. verið allt að 40% og muni þar sérstaklega um fjölgun farþega til og frá Grímsey.

Nýtt skip, sem getur tekið allt að 108 farþega og 160 tonn af varningi, var tekið í notkun í fyrra. Siglt er þrisvar í viku á milli Dalvíkur og Grímseyjar; á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum, en tvisvar í viku á milli Dalvíkur og Hríseyjar; á þriðjudögum og fimmtudögum. Skipstjóri á Sæfara er Sigurjón Herbertsson.

Frétt fengin af www.mbl.is