Bæjaryfirvöld og starfsfólk heilsugæslu í Dalvíkurbyggð telja hagsmunum íbúanna betur borgið með þvi að sameina heilsugæsluna í Eyjafirði öllum en að farið sé í smærri sameiningu og leggjast því gegn áformaðri sameiningu Heilsugæslustöðvarinnar á Dalvík, Heilsugæslustöðvarinnar á Ólafsfirði og Heilbrigðisstofnunarinnar á Siglufirði.
Á bæjarráðsfundi 10. apríl var til kynningar afrit af bréfi frá Heilsugæslustöðinni á Dalvík til heilbrigðisráðherra varðandi áformaða sameiningu Heilsugæslustöðvarinnar á Dalvík, Heilsugæslustöðvarinnar á Ólafsfirði og Heilbrigðisstofnunarinnar á Siglufirði. Starfsfólk heilsugæslunnar lýsir sig andsnúið slíkri sameiningu og í niðurlagi bréfsins segir:
,,Það er álit starfsmanna á Heilsugæslustöðinni á Dalvík að sameiningin sem nú hefur verið ákveðin sé ekki til góðs. Skynsamlegra væri að sameina Heilsugæslustöðina á Dalvík og Dalbæ. Ef víðtækari sameiningar er óskað er rétt að sameina þjónustuna á öllu Eyjarfjarðarsvæðinu. "
Bæjarráð tekur undir álit starfsmanna Heilsugæslustöðvarinnar á Dalvík og ítrekar fyrri ályktun bæjarráðs um málið en hinn 13. mars sl. ályktaði bæjarráð að ef sameina ætti heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar við Eyjafjörð væri eðlilegast að allur fjörðurinn verði eitt svæði og fól bæjarstjóra að koma því áliti á framfæri við heilbrigðisyfirvöld. Bæjarstjórn samþykkti einróma þessa niðurstöðu bæjarráðs.
Bæjarstjóri skrifaði heilbrigðisráðherra 25. mars sl. og gerði honum grein fyrir afstöðu bæjaryfirvalda í Dalvíkurbyggð. Afrit af því bréfi fengu bæjarstjórarnir í Fjallabyggð og á Akureyri. Sömuleiðis allir þingmenn kjördæmisins.