Ráðstefna um menningarstefnur sveitarfélaga
„Menningarstefnur sveitarfélaga - marklaus plögg eða tæki til framfara?" er yfirskrift ráðstefnu sem haldin verður í Ketilhúsinu á Akureyri þann 22. maí nk. Á ráðstefnunni verður fjallað um menningarstefnur sveitarfélaga og hvernig þær geti stuðlað að framförum og eflingu byggðar í landinu.
Frummælendur eru Helgi Gestsson, lektor við Háskólann á Akureyri; Njörður Sigurjónsson, lektor við Háskólann á Bifröst og Gísli Sverrir Árnason, ráðgjafi hjá R3 ráðgjöf. Helgi Gestsson mun fjalla um menningarstefnu á landsbyggðinni, sérstöðu og sóknarfæri. Njörður Sigurjónsson fjallar um menningu og milliliði og Gísli Sverrir Árnason um menningarstarf sem vaxtarsprota byggðanna. Auk þeirra munu Björg Erlingsdóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar, fjalla um vinnu sveitarfélags í skjóli stefnumótunar og Þórgnýr Dýrfjörð, framkvæmdastjóri Akureyrarstofu, mun fjalla um hugmyndafræðina að baki Akureyrarstofu. Að loknum framsöguerindum verða pallborðsumræður.
Ráðstefnan er samstarfsverkefni Menningarráðs Eyþings, Menningarráðs Austurlands, Háskólans á Akureyri, Háskólans á Bifröst og Akureyrarstofu. Ráðstefnan hefst klukkan 13 og stendur til klukkan 16.15
Ráðstefnan er öllum opin og eru sveitarstjórnarmenn og þeir sem vinna að menningarmálum sveitarfélaga sérstaklega hvattir til að mæta.
Dagskrá ráðstefnu