Ferðamál til framtíðar - Málþing um ferðamál í Dalvíkurbyggð
Ferðafélag Dalvíkurbyggðar, Ferðatröll, stendur að málþingi um ferðamál í byggðarlaginu í samvinnu við Ferðamálasetur Íslands, Framfarafélag Dalvíkurbyggðar og atvinnumálanefnd í Dalvíkurbyggð. Tilgangurinn er að upplýsa um og kanna nánar möguleika ferðaþjónustu í Dalvíkurbyggð. Einnig að efla tengsl ferðaþjónustunnar við aðrar atvinnugreinar og skoða hver hagræn áhrif atvinnugreinarinnar eru fyrir svæðið.
Athyglisverðir fyrirlesarar
Málþingið verður haldið laugardaginn 21. apríl nk. í sal Dalvíkurskóla og hefst klukkan 11:00. Þar mun kunnáttufólk vera með athyglisverða fyrirlestra um það m.a. hvernig maður byggir upp ferðaþjónustu í dreifbýli, um samlegðaráhrif og tengingar við annað atvinnulíf, um möguleika okkar vegna sérstöðu og menningar svæðisins, um fjallamennsku á Tröllaskaganum og heilsutengda ferðaþjónustu ofl. Meðal þeirra sem flytja erindi eru Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, deildarstjóri ferðamáladeildarinnar á Hólum og Edward Huijbens, forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands. Þá er gert ráð fyrir því að fólk vinni saman í hópum að hagnýtum viðfangsefnum svo sem því hvernig þau tækifæri sem við blasa verða sem best nýtt, hvaða ímynd við viljum að svæðið hafi og til hvernig ferðamanna við viljum helst ná.
Takið daginn frá
Málþingið er öllum opið og eru allir þeir sem hafa áhuga á ferðaþjónustu almennt hvattir til að mæta. Einkum er mikilvægt að þau sem starfa í ferðaþjónustu eða tengjast henni á einhvern hátt mæti og taki þátt í þessari vinnu. Og tengingarnar eru margvíslegar ef að er gáð. Fyrst og fremst er hér um að ræða atvinnumöguleika og þar með aukna fjölbreytni í atvinnulífi svæðisins.
Í hádeginu verður boðið upp á léttan hádegisverð en þar munu félagar úr samtökunum matur úr héraði - local food kynna afurðir sínar.
Dagská málþingsins má finna hér