Nú er það ákveðið að Íþróttamiðstöðin á Dalvík og þar með ræktin og sundlaugin opna á morgun fimmtudaginn 8. júní kl. 06:15. Við biðjumst velvirðingar á því að lokun skuli hafa tekið þetta langan tíma en hér hefur mörgum þörfum verið sinnt þessa daga.
Helstu breytingar sem taka má eftir er að sundlaugarhúsið var málað og flísar á bökkum og í laug hafa verið lagfærðar. Farið var í miklar viðhaldsaðgerðir í tækjarými, skipt var um sand í öllum síum en það eru milli 5 og 6 tonn sem þurfti að fjarlægja og endurnýja. Búast má við að gestir verði varir við fínan sand í lauginni fyrstu dagana á meðan sandur er að setjast í síunum. Farið var yfir varmaskipta og klórgeymsla og tankar endurnýjaðir auk þess að farið var í þrif í húsinu hátt og lágt. Starfsfólkið hefur lagt mikið á sig og staðið sig frábærlega við að ganga þannig frá hlutum að allt sé í lagi fyrir sumaropnun sem hefst um helgina. Um helgina og um helgar í sumar verður opið frá kl. 10:00 til kl. 19:00 og á virkum dögum í sumar verður opið frá kl. 06:15 til kl. 20:00.
Verið velkomin í íþróttamiðstöðina!