Íbúafundur vegna áforma um vistvæna endurvinnslustöð

Almennur fundur verður haldinn í félagsheimilinu Árskógi, Árskógsströnd, miðvikudaginn 18. mars kl. 16:00.

Á fundinn munu mæta fulltrúar TSverige Shippingline AB til að kynna verkefnið.

Allir velkomnir.

Nánar um verkefnið:
Af gefnu tilefni vill Dalvíkurbyggð upplýsa að fulltrúar frá TSverige Shippingline AB settu sig í samband við sveitarfélagið í maí 2014, vegna hugmynda þeirra um að reisa vistvæna endurvinnslustöð fyrir niðurrif skipa á Íslandi.


Í framhaldi var undirrituð viljayfirlýsing 17. júlí 2014 á milli aðila og á grundvelli hennar hafa verið, á undanförnum mánuðum, viðræður í gangi á milli sveitarfélagsins og fyrirtækisins. Unnið hefur verið að drögum að lóðarleigusamningi og ívilnunarsamningi. Engin ákvörðun hefur verið tekin um lyktir málsins, enda málið á viðræðustigi og mörgum spurningum enn ósvarað um áform þeirra s.s. um byggingamagn á lóðinni, umhverfisáhrif starfseminnar og þeirrar aðstöðu sem hún kallar á. TSverige Shippingline AB sótti um lóð undir starfsemina í sveitarfélaginu og er hluti þeirrar lóðar á landi sem er í eigu ríkisins. Sú spilda var ekki til umræðu fyrr en eftir að samband hafði verið haft við hlutaðeigandi aðila hjá Jarðeignum ríkisins í ráðuneyti fjármála- og efnahagsmála, og er sá hluti málsins til skoðunar þar.


Dalvíkurbyggð var ljóst að þar sem um ný og stór áform um hafnaraðstöðu við Hauganes var að ræða þá mundi slík framkvæmd sjálfkrafa þurfa að fara í umhverfismat. Það er opið ferli með aðkomu og athugasemdum almennings og ýmissa stofnana ríkis og Heilbrigðiseftirlits, eins og lög kveða á um. Úrskurður Skipulagsstofnunar liggur fyrir með bréfi sem dagsett er 25. febrúar 2015 um að verkefnið þurfi að fara í feril umhverfismats. Vinna við gerð umhverfismats mun líklega taka 9 til 12 mánuði.


TSverige Shippingline AB óskaði eftir því, eftir undirritun viljayfirlýsingarinnar, að farið yrði með málið á vinnslustigi sem trúnaðarmál og varð Dalvíkurbyggð við þeirri ósk. Þess vegna hefur sveitarfélagið ekki tjáð sig opinberlega um málið fyrr en nú.


Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri