Sunnuhvoll 1910 (Hafnarbraut 18)
(Fasteignarmat 1931)
Lóð 1,87 ha. Girt með gaddavír, leigulóð. Húsið er 7,5 x 6,25 m vegghæð frá kjallara er 2,2 m. rishæð 2,2 m. Kjallari. Húsið af timbri, útveggir úr timbri, járnvarin. Þak úr timbri, járnvarið. Gólf, loft og skilrúm út timbri. 1 íbúð með 4 herbergjum. Reykháfur einn steyptur. Rakalaust en kalt. Útbygging 7,5 x 4,38 m kjallaralaus (í smíðum).
Útihús: steinsteypuhús 10,0 x 5,0 m járnþak (fjós, hlaða og áburðarhús).
Byggt 1911 eigandi Júlíus Björnsson.
(Skrá yfir hús og bæi á Dalvík 2. júní 1934. úr skýrslu Jarðskjálftanefndar)
Timburhús – portbyggt á steyptum kjallara. Húsið skemmdist lítið, íbúðarhæft en reykháfur þarfnast viðgerðar. Húsráðendur; Júlíus Björnsson og Jónína Jónsdóttir.
Stutt saga húss.
Júlíus Björnsson útvegsmaður og k.h. Jónína Jónsdóttir byggðu húsið 1910. Árið 1929 byggði Júlíus þverálmu, útbyggingu fyrir gafli hússins. Þegar jarðskjálftinn dundi yfir 1934 stóð húsið nokkuð óskemmt fyrir utan eina sprungu á kjallaravegg sunnanverðum sem sést enn þann dag í dag. Gísli Arason kallaður ”Gísli greifi” keypti húsið af Jónínu og Júlíusi 1945. Hann átti það í nokkur ár. Ingimar Guttormsson og Jóhanna Jónasdóttir bjuggu í húsinu árið 1953. Hjálmar Blómkvist Júlíusson og Sólveig Eyfeld leigðu efri hæð hússins 1954. Þá bjuggu á neðri hæð Anna Stefánsdóttir, Egill Gunnlaugsson og Anna Gunnlaugsdóttir. Árið 1957 eru ásamt Hjálmari og fjölskyldu á neðri hæð hússins þau Jón Anton Jónsson og Hekla Tryggvadóttir. Árið 1958 er Hjálmar og hans fólk flutt í Baldurshaga en í þeirra stað eru flutt inn þau Jóhannes Haraldsson og Steinunn Pétursdóttir og fjölskylda frá Laugahlíð. Stefán Bjarmar var kennari á Dalvík um 1962 og bjó í Sunnuhvoli. Þar vann hann að þýðingu sinni á bók Ernest Hemmingways, Hverjum klukkan glymur. Ævar Klemenzson eignast efri hæð hússins eftir að Hjálmar fer. Þá bjó einnig Sigtryggur Árnason frá Brekkukoti í kjallaraíbúðinni. Aðalsteinn Haukson átti húsið um tíma og breytti nokkuð að innan, tók eða færði skilrúm og breytti herbergjaskipan hússins.
Athugasemd um hús:
Júlíus Baldursson kaupir húsið af Húsnæðisstofnun ríkisins árið 1996 á 500.000 kr. Þá hafði húsið staðið autt í nokkurn tíma og var orðið talsvert illa farið, flestar rúður brotnar og neglt fyrir glugga með krossvið.
Þegar Júlíus kaupir húsið skoðar hann það vel og áttar sig á að timburgrindin er mjög góð og algerlega fúalaus utan einn gólfbiti sem var við steyptan stigapall úti þar sem vatn hafði legið á. Júlíus reif alla klæðningu utan af húsinu. Grindin var einangruð með reiðingi sem hann fjarlægði og setti steinull í staðin. Einnig fjarlægði hann allt járn af þaki, einangraði ofan á timburloftið, heilklæddi þak og setti þakpappa og nýtt járn eða endurnýtt sem hann fékk af blokk á Keflavíkurflugvelli sem var verið að endurnýja. Upphaflega voru tveir reykháfar á húsinu. Þegar Júlíus kaupir stendur annar þeirra enn sem hann fjarlægði. Einnig voru steyptar útitröppur norðan við húsið og timburpallur. Hann fjarlægði það allt og steypti nýjan stiga og pall og undir pallinum gerði hann nýjan inngang í kjallara úr steinsteypu. Vatnsbretti sem eru á hæðarskilum hafa verið alla tíð en Júlíus endurnýjaði þau öll. Einnig endurnýjaði hann alla glugga í upprunalegri mynd en gluggum í kjallara hafði verið breytt áður.
Júlíus byggir bílskúr og gestahús sambyggð árið 2002 skammt sunnan við íbúðarhúsið.
Hólmfríður Gísladóttir kaupir Sunnuhvol af Júlíusi árið 2002.
Athugasemd um umhverfi húss:
Sumarið 1937 var unnið að vatnsleiðslugreftri hjá Sunnuhvoli og komu menn þá niður á fornt kuml með leifum af báti. Á sömu slóðum varð og vart fornra kumla nokkrum árum fyrr en ekki voru þau rannsökuð.