Nú stendur yfir í Bergi menningarhúsi á Dalvík sýningin Glæman av fjøllum eða Ljósið frá fjöllunum eftir færeyska listmálarann øssur Mohr. Verkin eru 27 talsins, allt olíumálverk, langflest máluð á árinu 2013.
Myndirnar hafa sterka tengingu við færeyska málarahefð og sýna gjarnan heimaslóðir listamannsins, Fuglefjord. Formin eru einföld en tjá ríka tilfinningu þar sem sterkir litir náttúrunnar, grænn og blár, leika aðalhlutverkið.
Birtan, sem er líf alls, flæðir yfir og tengir saman himinn, haf, jörð og þorp. Gefur fyrirheit um eitthvað æðra sem vakir yfir. Ber keim af þokunni þar sem skilin verða óljós og ekki alltaf ljóst hvar eitt tekur við af öðru. Miðlar þessari kyrrlátu stemmningu sem þeir sem búa við sjóinn þekkja. Ölduniður, lykt af seltu. Ró.
Allt tvinnast saman í eitt og verður hluti að órjúfanlegri heild náttúru, birtu og manns.
Øssur Mohr er fæddur 1961 í Færeyjum. Hann byrjaði að mála um miðjan níunda áratuginn og hélt sína fyrstu sýningu í Færeyjum 1991. Síðan þá hefur hann haldið margar sýningar víða um Evrópu meðal annars Hollandi, Frakklandi og Þýskalandi og hafa verk hans verið seld víða um heim. Þetta er hans önnur sýning hér á landi en 2006 tók hann þátt í samsýningu sex færeyskra listamanna í Listasafni Reykjanesbæjar.
Sýningin stendur fram til 31. ágúst 2013.