Fimmtudagskvöldið 16. október kl. 20:30 verður haldinn almennur fundur í sal Dalvíkurskóla um Náttúrusetur á Húsabakka. Þrátt fyrir kreppu í fjármálakerfinu eru víða sóknarfæri. Eitt slíkt er fólgið í væntanlegu Náttúrusetri á Húsabakka. Uppbygging skólabúða með áherslu á náttúru- og umhverfismennt samhliða ferða-og ráðstefnumiðstöð og fræðasetri er verkefni sem svarar kröfum tímans um aukna umhverfisvitund og fræðslu á því sviði. Áhugi á íslenskri náttúru og náttúruferðamennsku hefur stóraukist undanfarin ár og tekur nú duglegan kipp samfara efnahagssamdrættinum. Friðland Svarfdæla er einstök náttúruperla býður upp á mikil tækifæri bæði á sviði ferðaþjónustu og umhverfismenntar. Náttúrusetrið í Friðlandinu er spennandi verkefni fyrir alla íbúa Dalvíkurbyggðar. Ég vil hvetja alla til að mæta á fundinn og kynna sér málið. Í kjöfar kynningarinnar verður stofnað Hollvinafélag Húsabakka og þá verður boðið upp á kaffi og kleinur.
Ég hlakka til að sjá ykkur
Hjörleifur Hjartarson verkefnisstjóri