Á hátíðarfundi íþrótta-, æskulýðs- og menningarráðs þann 30. desember sl. voru veittar aðrar viðurkenningar en til þeirra íþróttamanna sem þóttu standa uppúr á árinu. Hestamannafélagið Hringur fékk viðurkenningu fyrir frábæra framkvæmd íslandsmótsins í hestaíþróttum sem haldið var í Hringsholti í sumar. Einnig voru heiðraðir þeir Vilhjálmur Björnsson sem lengi hefur stutt við íþróttastarf og íþróttafólk og verið vakinn og sofinn í áhuga sínum og stuðningi sem margir hafa notið, og svo Jón Halldórsson sem hefur unnið ötullega að uppbyggingu skíðaíþróttarinnar og skíðasvæðisins í áratugi.
Í fyrra kom upp sú hugmynd í íþrótta-, æskulýðs- og menningarráði að árlega yrðu veittar viðurkenningar til þeirra sem að einhverju leyti hefðu verið til fyrirmyndar í starfinu. Þá fengu Fiskidagurinn og Karlakór Dalvíkur viðurkenningar en í ár er það Hestamannafélagið Hringur sem varð fyrir valinu og hlýtur viðurkenningu ráðsins.
Íþrótta-, æskulýðs- og menningarráð Dalvíkurbyggðar samþykkti að veita Hestamannafélaginu Hring viðurkenningu fyrir frábæra framkvæmd á Íslandsmótinu í hestaíþróttum 2007. Mótið þótti takast með afbrigðum vel og hefur hróður þess og félagsins borist víða. Bryddað var upp á nýjungum eins og beinum útsendingum frá keppni á netinu sem hægt var að fylgjast með hvar sem var í heiminum. Félagið fékk viðurkenningu í ramma og fjárhæð að upphæð 50.000 krónur að auki.
Íþrótta-, æskulýðs- og menningarráð samþykkti einnig að veita tveimur heiðursmönnum viðurkenningur fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþrótta í Dalvíkurbyggð. Eins og menn vita hefur íþróttastarf í áranna rás verið nær óframkvæmanlegt án eldhuga, frumherja og sjálfboðaliða af öllu tagi. Þeir heiðursmenn sem ráðið heiðraði þann 30. desember fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþrótta í Dalvíkurbyggð eru Jón Halldórsson og Vilhjálmur Björnsson.