Talið er að um 29.000 manns hafi sótt Dalvíkurbyggð heim á Fiskidagurinn mikla sem haldinn var hátíðlegur 6. ágúst síðastliðinn. Umferð gekk vel miðað við fjölda. Afar lítið var um árekstra milli fólks í næturlífinu og gekk það nánast áfallalaust þrátt fyrir mikið líf og að margir væri á ferðinni. Bærinn var ríkulega skreyttur og töldu margir að ganga um bæinn væri eins og að vera á risastórri skraut og listasýningu.
Vináttukeðjan – Fjöldaknús
Föstudaginn 5. ágúst var dagskrá í kirkjubrekkunni sem er nokkurskonar setningarathöfn fyrir Fiskidaginn mikla og allt sem að honum snýr. Vináttukeðjan er hlý og notaleg stund þar sem staldrað er við og hugað að vináttunni og náungakærleikanum og línur lagðar fyrir helgina. Leikskólabörn sungu og gáfu gestum villta blómvendi, tónlistarmenn skreyttu stundina, Svanhildur Hólm Valsdóttir flutti vinátturæðuna 2011, 5000 friðardúfublöðrum var sleppt og að lokum var mikið og innilegt fjöldaknús sem lengi verður í minnum haft.
Fiskisúpukvöldið mikla.
Á föstudagskvöldinu buðu um 120 fjölskyldur í Dalvíkurbyggð uppá fiskisúpu og vinalegheit. Hver sá sem bauð uppá súpu var með sína uppskrift. Um 19.000 manns voru á röltinu þetta kvöld og nutu gestrisni heimamanna. Þetta var eilítið færra en á sl. ári enda mun þægilegra að komast um og stemmningin fyrir vikið rólegri. Kvöldið var virkilega vel heppnað og margir höfðu á orði að þetta væri eitt besta súpukvöld í tvö til þrjú ár.
Fiskidagurinn mikli – Áfengislaus fjölskylduhátíð.
Laugardaginn 6. ágúst milli kl 11.00 og 17.00 var Fiskidagurinn mikli haldin hátíðlegur í ellefta sinn á hafnarsvæðinu á Dalvík og enn eitt skiptið í blíðskaparveðri. Um eða yfir 118.000 matarskammtar runnu ljúflega ofan í gesti Fiskidagsins mikla. Í boði var fjölbreyttur matseðill m.a. plokkfiskur, síld og rúgbrauð, sasimi bleikja, sasimi hrefna, austurlensk súpa, grillaður þorskur, grilluð bleikja, rækjusalat, kókoskarrýýsa, brauð, drykkir, íspinnar, kaffi og súkkulaði. Skipulag á matarstöðvunum gekk mjög vel og nóg var til. Mjög fjölbreytt dagskrá var á sviði og á hátíðarsvæðinu allan daginn og til að mynda hefur fjölbreytni í barnaefni aldrei verið meiri. Um 130 manns komu fram í vandaðri og vel heppnaðri dagskrá á sviðinu. Á hátíðarsvæðinu ber helst að nefna áhugaverða tískusýningu sem stóð allan daginn þar sem sýnd voru föt framleidd úr roði af fiski sem er unninn á Dalvík, Fiskasýning með um 200 tegundum af ferskum fiski, skemmtisigling, leiksýningar og fleira. Í enda dagsins var síðan slegið áhugavert met í frágangi. Kl 17.00 þegar dagskrá lauk á hátíðarsvæðinu við höfnina mættu vaskar sveitir í frágang. Það er mikið verkefni að ganga frá öllu sem notað er yfir daginn, taka rusl, þrífa, sópa og pakka niður. Að þessu verkefni kom öflugur hópur sem taldi um 80 manns og í ár var slegið met, það tók 65 mínútur að ganga frá öllu og þeir sem komu aftur eftir þann tíma trúðu ekki eigin augum. Það var eins og ekkert hefði verið um að vera þarna á svæðinu þar sem þúsundir höfðu verið allan daginn. Til hamingju allir sem að þessu komu. Fiskidagurinn mikli hefur lagt mikla áherslu á að áfengi sé ekki haft um hönd á hátíðarsvæðinu og segjum við stolt frá því að fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli sé áfengislaus.
Bryggjusöngur og flugeldasýning.
Hátíðinni lauk síðan með bryggjusöng og flugeldasýningu í boði Samherja. Bryggjusöngurinn átti að vera undir stjórn Matta Matt en um kvöldið varð óvænt til nýtt bryggjusöngsband sem svo sannarlega sló í gegn. Meðlimir hins nýja bands voru Dalvíkingarnir Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Matti Matt, Beggi Kára og Friðrik Ómar á trommur, síðan var það hinn nýji vinur Dalvíkur Jógvan og í loka laginu fengu þeir snillinginn Grím Kokk frá Vestmannaeyjum með sér uppá svið með hinn víðfræga trommukassa. Í kjölfarið sáu um 20.000 manns frábæra flugeldasýningu sem að lengi verður í minnum höfð. Sýningin er sett upp af björgunarsveitinni á Dalvík.
Viðurkenningar Fiskidagsins mikla 2011
Frá upphafi hefur Fiskidagurinn mikli heiðrað þá sem hafa með einhverjum hætti haft áhrif á atvinnusögu okkar og íslenskan sjávarútveg. Án allra þeirra væri auðvitað enginn fiskidagur. Fyrir hönd Fiskidagsins mikla veitti Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar viðurkenningar fyrir framlag - og frábær störf í þágu dagsins. Sem fulltrúa allra þeirra sjálfboðaliða sem komið hafa að Fiskideginum mikla voru fjórir aðilar kallaðir til, þeir hafa verið með frá upphafi og aldrei dregið af sér. Úlfar Eysteinsson yfirkokkur, Arnþór Sigurðsson aðstoðarkokkur, Skarphéðinn Ásbjörnsson fiskisýningarstjóri og Auðunn Stefnisson alt mulig maður. Þeim voru veittir veglegir gripir sem Jóhannes Hafsteinsson hannaði og smíðaði að vanda. Þess má geta að alla viðurkenningargripi Fiskidagsins mikla frá upphafi hefur Jóhannes smíðað, hannað og gefið Fiskideginum mikla.
Fiskidagurinn mikli styrkir Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur.
Á hverju ári færir Fiskidagurinn mikli hjálparstofnunum afgangana frá Fiskideginum mikla. Nú þegar hafa 4 bretti af mat verið send til Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur þar sem að fleiri en þeir sem að komast á Fiskidaginn mikla fá að njóta góðra fiskrétta framleidda úr úrvalshráefni. Landflutningar Samskip flytja matinn frítt til Reykjavíkur.
Frábærir unglingar - Forvarnir – Næturlífið – Litlir sigrar
Fiskidagurinn mikli 2011 tókst í alla staði mjög vel og er það mál jafnt gesta sem skipuleggjenda að hátíðin í ár hafi verið ein sú besta í nokkur ár, og má þar m.a. nefna dagskrána, skipulag, og ógleymanlega flugeldasýningu. Sl. vetur var sett á stofn forvarnarnefnd Fiskidagsins mikla og Dalvíkurbyggðar þar sem m.a. var reynt að höfða til foreldra unglinga að virða útivistartímann og að senda ekki ólögráða börn og unglinga ein á hátíðir sem þessa. Við erum mjög ánægð með viðbrögð fjölda fólks við þessum aðgerðum og það er alveg ljóst að við höfum unnið nokkra góða litla sigra en betur má ef duga skal og forvarnarnefndin vinnur áfram að þessum verkefni og fleirum. Við viljum að það komi fram að unga fólkið sem hér var á svo sannarlega skilið að fá hrós fyrir umgengni, framkomu og jákvæðni. Við vinnum áfram með þessum örfáu sem eiga enn eftir að læra. Í samvinnu með þjónustuaðilum unnum við að styttri opnunartíma skemmti -og veitingastaða, það gekk frábærlega og er sannarlega komið til að vera. Þrátt fyrir mikinn fjölda sem var úti á lífinu eftir miðnætti og fjölgun þeirra sem koma keyrandi úr nágrannabyggðarlögunum eingöngu til þess að taka þátt í næturlífi sem er ekki á dagskránni gekk allt stóráfallalaust fyrir sig
Allar nánari upplýsingar gefur framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla
Júlíus Júlíusson – 8979748.