Söguskjóður

Árið 2013 fór af stað verkefnið Söguskjóður eða Verteltas í leikskólunum Krílakoti og Kátakoti á Dalvík og yngsta stigi Dalvíkurskóla. Verkefnið var unnið í sex og átta vikna lotum með það að markmiði að efla tengsl foreldra við skólann, láta þá finna að þeir séu velkomnir í skólann og hann standi þeim opinn. Lagt var af stað með fjölmenningu að leiðarljósi en tæpur fjórðungur eða um 25 prósent nemenda eru af erlendum uppruna.

Söguskjóðurnar virka þannig að foreldrar koma saman og skipta sér í hópa. Hver hópur velur síðan eina barnabók. Val bókanna hefur verið fjölbreytt en vinsælt viðfangsefni eru bækur með jákvæðan boðskap um t.d. vináttu, það að vera ólík, ævintýri og fleira. Það er síðan verk foreldranna að skreyta skjóðuna og að útbúa innihald hennar, a.m.k. 4 spil, brúður, leikföng og/eða búninga og fleira sem tengist viðfangsefni bókarinnar. Bókin er lesin inn á geisladisk sem fylgir pokanum.

Hver og einn velur sér viðfangsefni við hæfi, sumir eru snillingar í að mála, aðrir að sauma, einhverjir vinna í tölvu og enn aðrir í textagerð. Markmiðið er að foreldrarnir vinni saman að verkefninu og leyfi sköpunargáfunni að njóta sín.

Vinnan við skjóðurnar var utan hefðbundins skólatíma og var boðið upp á gæslu fyrir börnin á meðan foreldrarnir unnu að sínum verkum, kennarar voru foreldrum innan handar og Helga Björt kennsluráðgjafi á fræðslusviði Dalvíkurbyggðar stýrði verkefninu.  Nemendur hafa fengið söguskjóðurnar lánaðar heim í vikutíma í senn og er mikil ásókn í skjóðurnar. Verkefnin í skjóðunum gefa tilefni til náms í gegnum leik auk þess sem þau hafa að geyma bækur og upplestur sem gagnast erlendu foreldrunum okkar til málörvunar. Söguskjóðurnar ýta undir gæðastundir foreldra og barna en ekki er ætlast til börnin séu ein að vinna með skjóðurnar. Kennarar skólanna nýta skjóðurnar líka í starfinu með börnunum.

  Lokaskýrsla  Myndir  Söguskjóður