Nýjar bækur

Nokkrar nýjar bækur bættust við safnkostinn í morgun og aðrar sem voru til fyrir en eru nú fáanlegar…
Nokkrar nýjar bækur bættust við safnkostinn í morgun og aðrar sem voru til fyrir en eru nú fáanlegar í kilju.

Á nýju ári fara að detta inn nýjar bækur og enn aðrar koma aftur en að þessu sinni í kilju. Margir kjósa það heldur að fá bókmenntirnar matreiddar í kiljuformi en oft þarf að bíða lengur eftir kiljunum en þeim harðspjalda. Það má því gera ráð fyrir því að margir bíði spenntir eftir nýjustu bókum Arnaldar, Yrsu og Ragnars í kiljuformi en því miður þurfa þeir sömu að bíða aðeins lengur því þær eru ókomnar enn. 

Í gær voru Fjöruverðlaunin afhent í ellefta skipti en það eru sérstök bókmenntaverðlaun kvenna. Handhafar verðlaunanna að þessu sinni voru Steinunn G. Helgadóttir í flokki fagurbókmennta fyrir bókina Raddir úr húsi loftskeytamannsins, Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir fengu verðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta fyrir bókina Íslandsbók barnanna og Steinunn Sigurðardóttir í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis fyrir bókina Heiða - fjalldalabóndinn. Allar þessar bækur eru að sjálfsögðu fáanlegar hjá Bókasafni Dalvíkurbyggðar og viljum við óska þessum rithöfundum hjartanlega til hamingju með sína viðurkenningu. 

Það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi á bókasafninu hjá okkur!