Leikskólabörn heimsækja bókasafnið

Á efri myndinni má sjá hetjuhópinn og á þeirri neðri er tröllahópurinn.
Á efri myndinni má sjá hetjuhópinn og á þeirri neðri er tröllahópurinn.

Í morgun komu tveir hópar frá Krílakoti í heimsókn á bókasafnið. Síðastliðin ár hefur verið unnið markvisst með heimsóknir leik- og grunnskólabarna á bókasafnið og það vel gefist. Börnin læra að umgangast bókasafnið, bókakostinn og húsið í heild sinni og oftar en ekki verða þessar heimsóknir til þess að börnin fá foreldra sína með sér á safnið. Fyrstu tveir hópar ársins voru skipaðir ótrúlega flottum krökkum sem kölluðu sig hetjuhóp annars vegar og tröllahóp hins vegar.

Heimsókn dagsins byggðist á lestri og skrafi um bókina Kuggur 5: Þorrablót eftir Sigrúnu Eldjárn en þar á eftir var litið á þorrasýninguna í glerskáp bókasafnsins. Börnin á Krílakoti héldu sitt eigið þorrablót í síðustu viku og voru því bæði þorramatur og þorrasöngvar þeim ofarlega í huga. Því næst fengu bæði hetjur og tröll að skoða nýja sýningu sem hangir í sal menningarhússins en þar gefur að líta gömul kennsluspjöld frá Dalvíkurskóla ásamt völdum tækjum og tólum. Að lokum fékk hópurinn að skoða undirgöngin sem liggja frá bókasafninu að Ráðhúsinu. Það er nefnilega svo skrýtið með það að þó að göngin séu undir jörðinni þá er hægt að sjá stjörnurnar í geimnum frá göngunum. Það verður reyndar að slökkva ljósin fyrst. 

Við hvetjum alla sem ekki trúa okkur að koma og prófa það á eigin skinni. 

 

Næsti leikskólahópur kemur á morgun en þessar heimsóknir verða á sínum stað, vikulega á mánudögum og þriðjudögum í allan vetur. Við á bókasafninu hlökkum mikið til komandi missera.