Friðland Svarfdæla

Árið 1972, nánar tiltekið 8. september, tóku nokkrir bændur og jarðeigendur í Svarfaðardal saman höndum með Náttúruverndarráði Íslands og stofnuðu Friðland Svarfdæla sem tekur yfir um 8 km2 votlendissvæði beggja vegna Svarfaðardalsár neðan frá sjó fram að Húsabakka. Á þessu víðáttumikla landflæmi skiptast á þurrir árbakkar og blautar mýrar með stararflóum, síkjum og gróðursælum seftjörnum. Þetta náttúrufar skapar kjörlendi fyrir fjölmargar fuglategundir sem eiga hér varplönd sín. Í apríl taka farfuglarnir að tínast hingað hver á fætur öðrum og bæta á hverjum degi nýrri rödd í hljómkviðu náttúrunnar.

Tilgangurinn með stofnun Friðlands Svarfdæla var að vernda þetta einstæða lífríki og koma í veg fyrir frekari framræslu og spjöll á því. Má þar hvorki spilla gróðri, granda fugli né raska að öðru leyti hinum eðlilega gangi náttúrunnar.

Frá Húsabakka liggja merktar, auðfarnar gönguleiðir um hluta Friðlandsins en vissara er göngumönnum að vera í vaðstígvélum á þeim slóðum. Handan árinnar innan marka Friðlandsins er Hánefsstaðaskógur, 12 hektara skógræktargirðing með skipulögðum skógarstígum og skjólsælum áningastöðum. Eiríkur Hjartarson skógræktarfrömuður hóf hér skógrækt 1941 en hann á einnig heiðurinn af Grasagarðinum í Reykjavík. Skógurinn er nú í eigu og umsjá Skógræktarfélags Eyjafjarðar.

Nánari upplýsingar gefur Valur Þór Hilmarsson í síma 844 0220 og á netfanginu valur@dalvikurbyggd.is

Fuglategundir í Friðlandinu

Á Byggðasafninu Hvoli má finna fjölda uppstoppaðra fugla sömu tegundar og þeirra sem koma við hér í Friðlandinu.

Endur og gæsir

Æðarfugl, stokkönd,  rauðhöfði, toppönd, gulönd, urtönd, skúfönd, duggönd, flórgoði, hávella, grafönd, grágæs, lómur, álft

Spörfuglar og aðrir

Þúfutittlingur, auðnutittlingur, steindepill, skógarþröstur, maríuerla, músarrindill, rjúpa, brandugla

Mávar

Svartbaku, sílamávur, stormmávur, hettumávur, kjói, kría

Vaðfuglar

Jaðrakan, spói, óðinshani, heiðlóa, sandlóa, hrossagaukur, lóuþræll, tjaldur

Gestir sem ekki verpa

Hrafn, fálki, smyrill, himbrimi, heiðagæs, helsingi, gráhegri, straumönd, tildra, sendlingur, hvítmávur, silfurmávur, rita