Úr mínum höndum - Jónína Björg Helgadóttir í Menningarhúsinu Bergi.

Úr mínum höndum - Jónína Björg Helgadóttir í Menningarhúsinu Bergi.

Myndlistamaðurinn Jónína Björg Helgadóttir opnar sýninguna Úr mínum höndum í Menningarhúsinu Bergi.

Jónína Björg útskrifaðist úr Myndlistaskólanum á Akureyri 2015, og er þetta hennar fjórða einkasýning síðan. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga, unnið sem verkefnastjóri og er partur af listahóp sem bæði sýnir saman og rekur lista- og menningarrýmið Kaktus á Akureyri.

Verk hennar eru að megninu til málverk og grafíkverk, sem oft eiga uppruna sinn í draumum og draumkenndri hugsun. Þau eiga það til að vera feminísk og sjálfsævisöguleg.

,,Verkin á þessa sýningu vann ég út frá atburðum og tilfinningum í eigin lífi, eins og oft vill gerast. Ég vann sýninguna ansi hratt og naut þess að grandskoða ekki allar ákvarðanir heldur leyfa hugmyndunum að verða að verkum án þess að leggja skýrar línur fyrirfram. Þegar á leið, og ég stóð á miðri vinnustofunni umkringd verkum, uppgötvaði ég svo meininguna og samhengið.”

Sýningin er opin frá 3. nóv. - 28. nóv en formleg opnun verður laugardaginn 11. nóv frá kl. 13-16. Þangað eru allir velkomnir og léttar veitingar verða í boði.