Söngfugl að sunnan

Tónleikar með Ingibjörgu Fríðu söngkonu og Þorvaldi Erni píanóleikara. Róleg og innileg stemmning þar sem Ingibjörg og Þorvaldur flytja á sinn hátt íslenskar sönglagaperlur eftir Atla Heimi Sveinsson, Pál Ísólfsson, Jón Múla Árnason, Jórunni Viðar og Ingibjörgu Þorbergs. Ingibjörg Fríða Helgadóttir er með fjölbreyttan bakgrunn í tónlist og hefur lokið burtfararprófi bæði í klassískum söng og jazzsöng ásamt bakkalársgráðu í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands. Einmitt í Listaháskólanum kynntist hún Þorvaldi Erni Davíðssyni. Hann lærði rytmískan og klassískan píanóleik við Tónlistarskólann á Akureyri og lauk þaðan framhaldsprófi. Þá lærði hann píanóleik og tónsmíðar við Listaháskóla Íslands. Þorvaldur hefur nýlokið organistaprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar er nú í meistaranámi í tónsmíðum.

Ingibjörg Fríða er dóttir Helga Más Halldórssonar frá Jarðbrú í Svarfaðardal og mun um verslunarmannahelgina einnig taka þátt í ættarmóti Göngustaðaættar á Húsabakka. Hún býður öllum að njóta stundarinnar með sér: náskyldum, fjarskyldum og alls óskyldum! Tónleikarnir standa yfir í um klukkustund. Miðaverð er 2.500 krónur en 2.000 fyrir eftirlaunafólk og öryrkja. Frítt fyrir börn yngri en 15 ára.