Sigríður Huld Sýnir í Bergi

Sigríður Huld Sýnir í Bergi

Sigríður Huld Ingvarsdóttir er fædd og uppalin í Bárðardal, Suður-Þingeyjarsýslu og sækir innblástur til fortíðarinnar úr sveitinni. Gæruskinn, hestar, kindur og náttúran spila stórt hlutverk í verkum hennar sem öll eru unnin með klassískum miðlum, olía á striga og kol.

Hún útskrifaðist af fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri  2011 og árið eftir flutti hún til Svíþjóðar til að stunda nám við SARA The Swedish Academy of Art, sem þá var staðsett í Stokkhómi en er nú í Simrishamn. Í SARA stundaði hún nám við klassíska teikningu og olíumálun þar sem einungis var unnið eftir lifandi fyrirmyndum og uppstillingum. Hún útskrifaðist þaðan vorið 2015 og hefur síðan búið og starfað í Uppsölum í Svíþjóð. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þá í fjölda samsýninga, bæði á Íslandi og í Svíþjóð, en þetta er fyrsta einkasýningin hennar á Íslandi síðan hún flutti til Svíþjóðar.

„Síðastliðin 3 ár hef ég gert portrett of konum og dýrum þar sem ég sæki innblástur til fortíðar minnar: áferðar gæruskinnsins, íslenska hestsins og kindarinnar og einnig til gömlu sagnanna. Ég vil að áhorfandinn geti farið inn í málverkið og ímyndað sér hvað sé handan sjóndeildarhringsins, fundið ylin frá gæruskinninu og heyrt hestinn frísa. Ég vil að áhorfandinn geti í smástund gleymt því hvað er að gerast í heiminum, endalausar fréttir og auglýsingar herja á okkur stanslaust og það er svo auðvelt að gleyma fegurðinni. Með minni myndlist vil ég minna fólk á hana.

Hvert málverk og teikning hefur sögu á bakvið sig. Þau fjalla um minningar mínar og drauma.  Ég geri portrett af dýrum og tel það vera alveg jafn mikilvægt að fanga einstaklingshætti dýrsins líkt og portrettum af fólki. Ég vinn að því að ná fram dýptinni og birtunni sem er svo einstök á Íslandi, skapa heildarstemmingu með litum, ljósi og skugga. Verkin eru tímalaus, einlæg og falleg. Handverkið skiptir miklu máli í minni list. Ég bý til verk, sem sýna hlutina eins og ég sé þá, með olíu og kolum. Þar spilar stórt hlutverk að vinna eftir lifandi fyrirmyndum og uppstillingum. Núna notast ég þó einnig við ímyndurnaraflið og ljósmyndir en minni mig ávalt á að vinna útfrá því hvað augun mín sjá en ekki einungis hvað ljósmyndin sýnir.“