Opnun myndlistarsýningar - Sigurður Atli Sigurðsson - Löngun / Longing

Opnun myndlistarsýningar - Sigurður Atli Sigurðsson - Löngun / Longing
Verið hjartanlega velkomin á opnun sýningar Sigurðs Atla Sigurðssonar, Löngun (e. Longing) í sal Menningarhússins Bergs laugardaginn 8. febrúar kl. 14:00. Listamaðurinn verður á staðnum. Léttar veigar í boði Kalda.
Árið 2024 sýndi Sigurður Atli Sigurðsson verkið Frelsi á Listasafni Akureyrar sem samanstóð af tólf stólpum sem mynduðu jafna dreifingu yfir rýmið. Þessir stólpar sem venjulega tengjast böndum til að beina fólki í raðir, voru ótengdir og mynduðu opið kerfi. Fyrir sýninguna í Bergi hefur Sigurður fengið verkið lánað úr safneign Listasafns Akureyrar og sýnir það hér aftur með breyttu sniði. Titilverk sýningarinnar Löngun sýnir tólf stólpa dreifða um sýningarrýmið. Á meðan nokkrir þeirra eru staðbundnir, líða aðrir um rýmið í leit að sínum stað, jafnvægi, tilbreytingu eða mögulega bara leitarinnar vegna.
Sigurður Atli Sigurðsson (f. 1988) er þekktur fyrir formhrein verk sem skoða þau mynstur sem móta mannleg samskipti. Verk hans taka á sig form stórra myndaraða og innsetninga sem taka yfir sýningarrýmið. Á ferli sínum hefur Sigurður Atli unnið með ýmsar grafískar prentaðferðir og fengist við útgáfu bókverka. Sérþekking hans á þessu sviði hefur leitt hann til að halda sýningar, kenna og stýra sýningum víða um heim, nýlega á Museum of Contemporary Art Tokyo, Listasafni Ísafjarðar, Listasafninu á Akureyri og Listasafni Íslands.
Sýningin stendur til 20. mars 2025