Ljósmyndir og líkön - opnun sýningar

Ljósmyndir og líkön - opnun sýningar

Tilurð sýningarinnar má í raun rekja til þess að ófáir höfðu komið að máli við Elvar um að fá að sjá nýjustu smíði hans. Hugmyndin var í fyrstu að líkanið fengi að standa til sýnis í Bergi í einn dag… boltinn fór fljótlega að rúlla og voru þá Jón Baldvinsson og Haukur Sigvaldason fengnir til að slást í hópinn.

Afraksturinn má skýra sem menningartengda sýningu ljósmynda og líkana um báta og varðveislu bátamenningar á Dalvík og landinu í heild.

Ljósmyndirnar eru í eigu Jóns Baldvinssonar en nokkrar myndir eru teknar af, Heimi Kristinssyni. Elvar Antonsson hefur fengist við smíði á bátslíkönum um áraraðir og liggja meistaraverkin eftir hann víða. Þessi sýning í Menningarhúsinu Bergi er hins vegar hans fyrsta opinberlega sýning og fögnum við því mjög.

Nýjasta líkanið sem verður á sýningunni er skútan - Kútter Fríða - en að þessari sýningu lokinni er hún á leiðinni á safn hjá Minja- og Sögufélagi Grindavíkur. Það má því segja að hér ræði um einstakt tækifæri til að sjá gripinn áður en hann fer úr okkar heimabyggð.

Á sýningunni gefst gestum og gangandi auk þess tækifæri til að sjá ljósmyndir og líkön af aflaskipum úr Dalvíkurbyggð og gefur því að líta tímamótaheimildir í sjálfarútvegssögu byggðarinnar. Hvaða skip þetta eru verður fólk hins vegar að sjá með eigin augum. Sjón er auðvitað alltaf sögu ríkari.