Klassík í Bergi - Sigurður Flosason og Gunnar Gunnarsson.

Klassík í Bergi - Sigurður Flosason og Gunnar Gunnarsson.

Fyrstu tónleikarnir í tónleikaröðinni Klassík í Bergi  verða ekki af verri endanum en nú eru það félagarnir Sigurður Flosason og Gunnar Gunnarsson sem spila fyrir gesti. Á tónleikunum verður flutt fjölbreytt og blönduð dagskrá þar sem koma fyrir swing tónlist, þekktir sálmar sem þeir félgar hafa hljóðritað auk trúartónlistar þeldökkra bandaríkjamanna; svokallaðra negrasálma og spíritúala. Í öllum tilfellum gera Gunnar og Sigurður tónlistina sína með eigin útsetningum og ófyrirsjáanlegum spuna. Vænta má skemmtilegra kynninga á fjölbreyttum og skemmtilegum tónleikum þar sem samleikur byggður á tuttugu ára samvinnu er í öndvegi.

Saxófónleikarinn Sigurður Flosason og organistinn Gunnar Gunnarsson hófu samstarf sitt árið 1998.  Þeir héldu sína fyrstu tónleika í Hallgrímskirkju í september 1999 og fyrsta platan, Sálmar lífsins, kom út árið 2000.  Hún snérist um endurútsetningar þekktra sálmalaga og spuna út frá þeim.  Sálmar jólanna kom út árið 2001, en á henni voru sálmar og önnur tónlist tengd jólum tekin til skoðunar. Þriðji diskurinn, Draumalandið, kom út árið 2004, en hann hefur að geyma íslensk ættjarðarlög í spunaútsetningum dúósins. Sá fjórði, Sálmar tímans, kom ári 2010 en á honum er fjölbreytt úrval sálmalaga. Þá hefur komið út safndiskurinn Icelandic hymns (2013) en á honum eru eingöngu íslenskir sálmar af fyrri diskum Sigurðar og Gunnars í útgáfu fyrir erlenda hlustendur. Gunnar og Sigurður hafa komið fram á fjölmörgum tónleikum í öllum landshlutum, en auk þess í Þýskalandi, Danmörku, Færeyjum og Álandseyjum.

 

Sigurður Flosason lauk einleikaraprófi á saxófón frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1983. Hann stundaði framhaldsnám í klassískum saxófónleik og jazzfræðum við Indiana University í Bandaríkjunum og lauk þaðan Bachelorsprófi  1986 og Mastersprófi 1988. Sigurður stundaði einkanám hjá George Coleman í New York veturinn 1988-1989.  Hann var ráðinn yfirkennari jazzdeildar Tónlistarskóla F.Í.H. 1989 og hefur gegnt því starfi síðan.

 

Sigurður hefur verið atkvæðamikill í íslensku jazzlífi undanfarin ár.  Hann hefur gefið út á þriðja tug geisladiska. Sigurður hefur tekið þátt í mörgum fjölþjóðlegum samstarfsverkefnum og leikið talsvert erlendis.  Hér á landi hefur hann starfað með fjölmörgum hljómsveitum við flestar gerðir tónlistar.  Sigurður hefur komið mikið fram á tónleikum, leikið á geisladiskum og starfað í leikhúsum auk ýmissa félags- og stjórnunarstarfa tengdum tónlist.  Hann hefur átta sinnum hlotið íslensku tónlistarverðlaunin og tvívegis verið tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.

 

Gunnar Gunnarsson hóf píanónám hjá Þórgunni Ingimundardóttur og fór síðar í Tónlistarskólann á Akureyri. Hann lauk kantorsprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar árið 1988 og lokaprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík ári síðar. Gunnar stundaði rannsóknir á íslenskum sálmum bæði í Kaupmannahöfn og hér heima og birti niðurstöðurnar í ritgerðinni Um Weyse-handritin og Choralbog for Island (1993). Gunnar hefur einnig lokið MA-prófi í almennum málvísindum frá Háskóla Íslands.

 

Gunnar hefur getið sér gott orð fyrir fjölbreytilegan tónlistarflutning og víða komið fram á tónleikum innan lands og utan. Auk hefðbundinna starfa sem organisti og kórstjóri hefur hann útsett og flutt trúarlega tónlist með óhefðbundnum hætti um árabil. Gunnar hefur leikið á píanó með mörgum þekktum tónlistarmönnum, átt þátt í útsetningum og hljóðritunum bæði djasstónlistar og þjóðlegrar tónlistar en á undanförnum árum hefur hann mest útsett fyrir kóra og sönghópa. Gunnar er organisti Fríkirkjunnar í Reykjavík.