Klassík i Bergi - Rúnar Óskarsson og Helga Bryndís Magnúsdóttir

Klassík i Bergi - Rúnar Óskarsson og Helga Bryndís Magnúsdóttir

Tónleikaröðin „Klassík í Bergi“  í samstarfi við Tónaland (Landsbyggðartónleikar).

Efnisskrá:

Robert Schumann Drei Fantasiestücke, Op. 73
I. Zart und mit Ausdruck
II. Lebhaft, leicht
III. Rasch und mit Feuer

Norbert Burgmüller Duo op. 15 fyrir klarinett og píanó

Johannes Brahms Sónata í Es dúr op. 120 no. 2
I. Allegro amabile
II. Allegro appassionato
III. Andante con moto - Allegro


Þrjú eftirlætistónverk
Rúnar Óskarsson klarínettuleikari og Helga Bryndís Magnúsdóttir pianóleikari halda tónleika í menningarmiðstöðinni Bergi á Dalvík 19. október 2019. Á efnisskránni eru Þrjár fantasíur eftir Robert Schumann, Duo fyrir klarínettu og píanó eftir Norbert Burgmüller og Sónata í Es dúr eftir Johannes Brahms.
Þrátt fyrir að verkin þrjú flokkist líklega sem þau þekktustu fyrir þessa hljóðfærasamsetningu eru þau alltof sjaldan flutt. Flytjendum fannst því við hæfi að leyfa þessum eftirlætisverkum að heyrast á Dalvík á fallegum haustdegi.

Um efnisskrána
Þýska tónskáldið Robert Schumann (1810-1856) var eitt af höfuðtónskáldum Rómantíska tímabilsins. Drei Fantasiestücke fyrir klarínettu og píanó op. 73 voru samin á einungis tveimur dögum í febrúar 1849. Verkið er upphaflega samið fyrir klarínettu og píanó, en Schumann sagði sjálfur að það væri upplagt að leika það á fiðlu eða selló, og hafa sellóleikarar verið sérstaklega iðnir við að leika það.

Norbert Burgmüller (1810-1836) var fæddur í Þýskalandi og lést aðeins 26 ára gamall. Hann var af samferðamönnum sínum talinn sérlega hæfileikaríkt tónskáld og var í hávegum hafður. Haft var eftir Robert Schumann, að næst á eftir ótímabæru láti Franz Schuberts hefði fátt verið hryggilegra en lát Burgmüllers.
Duo op. 15 fyrir klarínettu og píanó var samið árið 1834.

Johannes Brahms (1833-1897) hafði lýst því yfir að hann væri hættur að semja tónlist þegar hann var tónleikagestur hjá hinum fræga klarinettleikara Richard Mühlfeld. Andinn kom yfir Brahms á ný og fjögur verk urðu til þar sem klarinettið var í fyrirrúmi: tríó fyrir selló, klarinett og píanó, tvær sónötur fyrir klarinett og píanó, og kvintett fyrir klarinett og strengjakvartett. Þetta urðu með síðustu verkum tónskáldsins.
Þeim Mühlfeld og Brahms varð vel til vina og kynnti Brahms Mühlfeld alltaf sem „Fräulein von Mühlfeld, meine Primadonna“ — eða „Fröken von Mühlfeld, prímadonnan mín“ og kallaði hann „Næturgala hljómsveitarinnar“ og í bréfi til Clöru Schumann skrifaði hann: „Það er ekki hægt að leika betur á klarínettu en hann herra Mühlfeld gerir.“ Frá árinu 1892 fór Mühlfeld í langar tónleikaferðir og voru Brahms og fiðluleikarinn Joseph Joachim með honum í sumum þeirra. Þessi tónleikaferðalög urðu til þess að hin nýju kammerverk Brahms urðu þekkt víða um Evrópu. Leikur Mühlfelds hafði einnig djúp áhrif á marga klarínettuleikara sem heyrðu hann spila.


Flytjendur
Rúnar Óskarsson lauk kennara- og einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1993 þar sem hann naut handleiðslu Sigurðar I. Snorrasonar. Hann stundaði framhaldsnám hjá George Pieterson við Sweelinck tónlistarháskólann í Amsterdam og lauk prófi frá skólanum1996. Samhliða klarínettunáminu nam hann bassaklarínettuleik hjá Harry Sparnaay og lauk prófi á bassaklarínettu vorið 1998. Rúnar sótti og tíma hjá Walter Boeykens í Rotterdam.
Hann er fastráðinn klarínettu- og bassaklarínettuleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 2004, en auk þess hefur hann leikið með ýmsum hópum, t.d. Kammersveit Reykjavíkur, Caput, hljómsveit Íslensku óperunnar og í Þjóðleikhúsinu. Rúnar hefur einnig leikið á fjölmörgum einleiks- og kammertónleikum, kennir við Tónlistarskóla Kópavogs og er stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar.

Helga Bryndís Magnúsdóttir lauk einleikara-og kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987 þar sem aðalkennari hennar var Jónas Ingimundarson. Hún stundaði framhaldsnám við Konservatoríið í Vínarborg hjá Leonid Brumberg og Sibeliusarakademíuna í Helsinki, hjá Liisu Pohjola og Tuiju Hakkila. Hún hefur leikið fjölmörg einleiksprógrömm, m.a. í Salnum í Kópavogi, á Listahátíð í Reykjavík og um allt land. Hún hefur auk þess leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, píanókonserta eftir Ravel, Poulenc, Brahms, Gershwin og Bach. Helga Bryndís lék einleik í beinni sjónvarpsútsendingu á Norðurlöndunum í spurningaþættinum Kontrapunkti. Hún hefur leikið mikinn fjölda tónleika með fremstu söngvurum og hljóðfæraleikurum landsins og hljóðritað marga geisladiska í samstarfi við aðra. Hún er meðlimur í Caput hópnum og hefur leikið með honum víða erlendis og hér heimavið auk þess að hafa leikið inn á geisladiska með þeim. Hún hefur einnig gert upptökur fyrir sjónvarp og útvarp, bæði ein og með öðrum. Hún starfar sem píanóleikari við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólana í Kópavogi og Reykjanesbæ.