Klassík í Bergi - Marína Ósk og Mikael Máni

Klassík í Bergi - Marína Ósk og Mikael Máni

Söngkonan og gítarleikarinn, Marína Ósk og Mikael Máni, halda tónleika í Menningarhúsinu Bergi sunnudaginn 28.febrúar kl.16:00. Á efnisskrá tónleikanna verða ýmis ástkær íslensk dægurlög í útsetningum tvíeykisins, auk nokkurra vel valinna númera úr þeirra eigin lagasmíðasafni. Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi við Tónaland - Landsbyggðartónleika og Tónlistarsjóð.

 

Marína Ósk og Mikael Máni hafa unnið saman í tónlist frá haustinu 2014 undir ýmsum formerkjum, lengst af sem jazzdúettinn Marína & Mikael, en einnig sem hljómsveitin Tendra, en sú hljómsveit gaf einmitt út sína fyrstu plötu í nóvember 2020. Áður höfðu þau gefið út sitthvora sólóplötuna 2019 (Athvarf - Marína Ósk og Bobby - Mikael Máni) sem og dúettaplötuna “Beint heim” 2017, en þrjár síðastnefndu voru allar tilnefndar til Íslensku tónlistarverðlaunanna.

 

Marína Ósk og Mikael Máni eru bæði með BA í jazztónlist frá Conservatorium van Amsterdam. Þau hafa síðustu ár komið víða við, bæði saman og í sitthvoru lagi, og leikið tónleika á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu, komið fram á Oslo Jazzfestival og Jazzhátíð Reykjavíkur, Berjadögum á Ólafsfirði sem og ótal öðrum tónleikastöðum víðsvegar um landið.

 

Tóndæmi: https://www.youtube.com/watch?v=O7oE_KAMsa4