Hjóladagur í Bergi!

Hjóladagur í Bergi!

Hjóladagur í Bergi

Nú þegar júní mánuður er senn á enda og sólardagarnir leika við okkur sjáum við meira og meira af stórum sem smáum á hjólum og hlaupahjólum á götum bæjarins. 

Síðastliðin sumur hefur myndast hálfgerð hefð fyrir því að bjóða ungum reiðhjólaiðkendum ásamt foreldrum þeirra upp á aðstoð við að yfirfara reiðhjólin sín og fara yfir mikilvæg atriði svo allt virki eins og það á að gera. Að þessu sinni verður í boði að smyrja keðjur, pumpa í dekk, yfirfara bremsur og gefa hjólinu hágæða sumarþvott. Það verður allt til alls á staðnum svo það eina sem þú þarft að gera er bara að mæta!

 

Lögreglan mun líta við, gefa viðstöddum fræðslu um helstu öryggisatriði og gagna úr skugga um að hjólin standist ítrustu öryggiskröfur.

Það verða starfsmenn vinnuskóla Dalvíkurbyggðar sem verða með yfirumsjón með deginum en þeir verða þá búnir að fá fræðslu frá hinum eina sanna Degi Óskarssyni, hjólasnillingi með meiru, og ættu því að vera færir í flestan sjó.

 

Ef hjólið eða hlaupahjólið þarfnast engrar lagfæringar hvetjum við fólk samt sem áður til að nýta tækifærið og skrúbba og bóna fákana sína. Gestum er bent á að koma með hjólin á sólpallinn fyrir aftan Berg.