Árskíma - Garmann

Guðmundur Ármann Sigurjónsson, garmann mun setja upp sýningu á málverkum og grafík í Menningarhúsi Dalvíkinga, Bergi. Sýningin mun vera í húsinu þegar það opnar mánudaginn 4. maí eftir samkomubann, Covid19.

Formleg opnun verður svo 16. maí kl 14.

Sýninguna nefnir Guðmundur Árskíma, á sýningunni er 21 olíumálverk og sex einþrykk. Öll verkin eru unnin á árunum 2019 og 2020.

Kveikjan að þessum verkum er náttúran, fjöllin, himinninn og byggðin sem kúrir undir fjöllunum á Tröllaskaga. Fyrstu skrefin voru unnin í seríu mynda sem voru unnar 2018/19 með grafískri aðferð sem nefnist  einþrykk.

Sýningin verður opin á opnunartíma Bergs frá 4. til 31. maí. Virka daga kl 10 – 17, laugardaga 13 – 17, lokað á sunnudögum.

 

Guðmundur Ármann Sigurjónsson

Lauk prentmyndasmíðanámi 1962. Hóf myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1962 og útskrifaðist af málunardeild 1966. Nám við Valand, Listaháskólann í Gautaborg 1966 og  lauk þar námi við grafíkdeild skólans 1972. Kennararéttindarnám við Háskólann á Akureyri 2002. Frá sama skóla meistaranám í menntunarfræðum M.Ed. 2013.

 Fyrsta einkasýning á Mokkakaffi í Reykjavík 1962, sýndi þar blekteikningar og kolteikningar. Einkasýningar eru 40. Sýndi sumarið 2008 í Listasafninu á Akureyri. Þátttaka í fjölda samsýninga hér heima og erlendis. Tekið þátt í og skipulagt norræn myndlistarverkefni tekið þátt í alþjóðlegum grafík- og vatnslitasýningum. Verk í eigu Listasafna á Íslandi, safna á Norðurlöndunum og alþjóðlegu vatnslitasafni í Fabriano á Ítalíu. Starfslaun úr launasjóði myndlistar 1986. Bæjarlistamaður Akureyrar 1994. Þátttaka og verk á alþjóðlegu vatnslitasýningunni Fabriano Acquarello 2018 og 2019. Er meðlimur í Íslenskri grafík, Félagi íslenskra myndlistakennara, Gilfélaginu, Íslenska Vatnslitafélaginu, Norræna vatnslitabandalaginu og Myndlistafélaginu á Akureyri. Starfaði sem kennari við  listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri 2000-2014.