Ýmsar upplýsingar í maí 2011

Því miður hefur heimasíða sundlaugarinnar verið að stríða okkur lengi vel og við ekki verið dugleg að setja inn fréttir eða annað sem gæti gagnast gestum okkar. Úr því verður bætt á næstunni en hér eru til að byrja með nokkur fróðleikskorn til að upplýsa um ýmislegt sem er í gangi.

Opnunartími til 10. júní verður frá 6:15 til 19:00 virka daga (sami og venjulega) en um helgar verður opið frá kl. 10:00 til kl. 16:00. Þann 11.júní tekur við sumartími en þá verður opið virka daga frá kl. 06:15 til kl. 20:00 og frá kl. 10:00 til kl. 19:00 um helgar.

Lionsmót í sundi fer fram næsta sunnudag, 15. maí n.k. Mótið er í umsjón Sundfélagsins Ránar á Dalvík. Sundlaugin er opin öðrum gestum en keppendum en búast má við því að þröngt verði á þingi og biðjum við ykkur um að sýna því skilning en mótið tekur stærstan hluta dagsins.

Mörgum til mikillar gleði hefur nú tekist að sýna fram á að hægt er að bæta hitastig í barnalaug og Bláa lóninu okkar þannig að allir ættu að geta buslað þar og slakað á án þess að blána á vörum! Til þess að þetta mætti gerast þurfti að loka gatinu inn í sundlaugina (sem gerir hana reyndar betri til keppnishalds), þrífa og laga í kring um varmaskipta og lagnir og stilla kerfi upp á nýtt. Við erum enn að fínstilla hitastigið en í dag var barnalaugin rúmar 30°C og Bláa lónið 38°C!

Hefðbundin vorlokun sundlaugar verður að þessu sinni frá 30. maí, trúlega frá hádegi en það verður nánar auglýst síðar. Við eigum eftir að útfæra það hvort við getum haft ræktina opna á meðan. Lokunin er vegna lagfæringa og þrifa, undirbúnings fyrir sumarið. Vonandi stendur lokun ekki lengur en 4-5 daga en það fer eftir því hvernig til tekst við lagfæringar.

Ný tæki voru tekin í notkun í ræktinni í gær, tvö ný hlaupabretti af gerðinni Cybex og Arc trainer frá sama fyrirtæki. Tækin eru keypt af Erninum í Reykjavík. Áður höfðum við keypt róðravélar, fjölþjálfa og spinning hjól ásamt lóðum og stöngum frá Sporttæki í Hveragerði. Við teljum því að við séum að verða nokkuð vel græjuð í bili en við eigum eftir að fá 2 spinning hjól í viðbót sem nota má í ræktinni eða sem hluta af stöðvaþjálfun í leikfimisalnum.  Þeir gestir sem reynt hafa við tækin nýju eru hæst ánægðir og loksins má segja að nýtt tímabil sé að renna upp í ræktinni með þessari endurnýjun.

Við reynum að uppfæra fréttir og fróðleik á næstunni, fylgist með. Einnig má senda tölvupóst á sundlaug@dalvikurbyggd.is ef þið hafið spurningar eða ábendingar.

Með kveðju, Bjarni Gunnarsson íþrótta- og æskulýðsfulltrúi