Vöxtur í atvinnulífi og bjartsýni

Vöxtur í atvinnulífi og bjartsýni

Atvinnumála- og kynningarráð hefur nú birt niðurstöður atvinnulífskönnunar sem framkvæmd var í lok árs 2017. Könnunin er sambærileg við könnun sem framkvæmd var árið 2015 og eru niðurstöðurnar birtar saman í einni skýrslu.

Heilt yfir eru niðurstöðurnar mjög jákvæðar fyrir atvinnulífið og sem dæmi má nefna að tekjur fyrirtækja hafa aukist á milli kannana. Það ásamt því að 33% fyrirtækja telja að þau þurfi að fjölga starfmönnum sínum bendir til þess að atvinnulíf á svæðinu sé í auknum vexti. Almennt telja fyrirtækin að verkefnastaða hafi batnað, velta hafi aukist og að afkoman sé heilt yfir betri. Þannig gætir ákveðinnar bjartsýni og jákvæðni.

Athygli vekur að iðnaður er greinilega vaxandi atvinnugrein í sveitarfélaginu en hann tekur stökk á milli kannana en töluvert fleiri fyrirtæki í þeirri atvinnugrein taka þátt í könnuninni árið 2017 heldur en árið 2015.

Fyrirtækin eru líka almennt jákvæð gagnvart vöruþróun, nýsköpun og markaðssetningu ásamt því að 65% fyrirtækja hafa mjög eða frekar mikinn áhuga á samstarfi við önnur fyrirtæki.

Niðurstöðurnar gefa til kynna ýmis sóknarfæri og má þar helsta nefna tækifæri til að fjölga störfum fyrir háskólamenntaða, bæta samgöngur, nýsköpun og fleiri opinber verkefni.

Þessar jákvæðu niðurstöður ásamt nýlegri frétt um lóðaúthlutanir í sveitarfélaginu til einstaklinga og fyrirtækja benda til þess að almennt sé jákvæður vöxtur í samfélaginu. Nýjustu tölur um fjölgun íbúa gefa þetta einnig til kynna og ánægjulegt að finna almenna bjartsýni á meðal íbúa.

Atvinnulíf í Dalvíkurbyggð - samaburður á milli áranna 2017 og 2015

 

Fyrir hönd atvinnumála- og kynningarráðs

Margrét Víkingsdóttir, upplýsingafulltrúi