Vor í lofti

Vor í lofti

Þá er heldur betur vorilmur í lofti. Veturinn, sem í mörgu tilliti var okkur ágætur, á undanhaldi. Þó var covid ógnin áskorun á okkar starfsfólk og starfsemi eins og á þjóðfélagið allt og heimsbyggðina. Vonandi næst að ýta bólusetningum þannig áfram að stofnanir okkar geti haldið eðlilegri starfsemi þegar líður á árið.

Ársreikningar sveitarfélagsins verða lagðir fram til fyrri umræðu í sveitarstjórn á þriðjudaginn kemur. Síðastliðinn fimmtudag fór endurskoðandi sveitarfélagsins yfir drög að ársreikningum með byggðaráði, sveitarstjórnarfulltrúum og sviðsstjórum. Í heild kemur reikningurinn vel út, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að meiri partinn af árinu ríkti mjög óeðlilegt ástand í þjóðfélaginu út af covid. Nánar verður gert grein fyrir ársreikningnum á fundi sveitarstjórnar næstkomandi þriðjudag.

Verkefnin eru alls staðar næg og margt spennandi í gangi í sveitarfélaginu okkar. Nokkrar stofnanir hafa nú þegar auglýst eftir fólki í sumarafleysingar og sumarstörf og líflegt starf framundan þar. Aðrar stofnanir eiga sína rólegustu daga yfir sumarið og hlakka örugglega margir starfsmenn til að fá langþráð frí.

Hvert sem álagið er eða vinnuaðstæðurnar er gott að hafa eftirfarandi í huga:
Þín líðan og heilsa er á þína ábyrgð. Þú verður að setja þig í forgang. Hugsaðu vel um þig og lærðu að þykja vænt um þig. Hvernig sýn og túlkun sem við setjum í aðstæður hverju sinni hefur áhrif á líðan okkar. Reyndu að temja þér þakklæti og sjá það jákvæða í hverjum aðstæðum eða verkefni. Sama hversu mikið bjátar á, er alltaf eitthvað jákvætt sem ferlið sem þú ert að fara í gegnum mun leiða af sér. Ekki veita bara hindrunum athygli þína. Með því að setja upp gleraugu sem sýna litmynd fulla af styrk aukum við bjartsýni og það hefur betri áhrif á líðan okkar.

Gangi ykkur vel í ykkar störfum nú sem hingað til.

Kær kveðja,

Katrín Sigurjónsdóttir
Sveitarstjóri