Vinnuskóli Dalvíkurbyggðar 2008

Starfshópur sumarsins 2008 samanstóð af garðyrkjustjóra, yfirflokkstjóra, sex flokkstjórum, fimm manna eldri hóp sem starfaði undir stjórn garðyrkjustjóra og 45 unglingum fæddum á árunum 92-94. Samtals voru starfsmenn vinnuskólans því 58. Vinnutíminn var breytilegur eftir aldri krakkanna, en unglingar fæddir 92 fengu að vinna í 10 vikur, unglingar fæddir 93 fengu að vinna í 8 vikur og unglingar fæddir 94 fengu að vinna í 6 vikur. Í byrjun sumars var skipulagið þannig að 92 árgangurinn fékk að vinna allan daginn en 94 árgangurinn vann einungis fyrir hádegi og 93 árgangurinn vann einungis eftir hádegi. Þetta breyttist í kringum Jónsmessuna og allir fengu að vinna allan daginn. Vikan 30. júní – 4. júlí var svo frívika hjá krökkunum til að lengja veru þeirra í vinnuskólanum fram á sumarið.
 
 
Námskeið og undirbúningur
Flokkstjórar og eldri starfsmenn mættu til vinnu um miðjan maí til að undirbúa starfsemi sumarsins. Ásamt undirbúningi sátu flokkstjórar og eldri starfsmenn nokkur námskeið. Til að mynda var á námskeiðunum fjallað um hvernig eigi að bregðast við vinnuslysum, hvernig eigi að sjá út einelti og hvernig beri að sporna við því, ásamt framkomu og samskiptum við unglinga. Þá hélt garðyrkjustjóri undirbúningsnámskeið fyrir sumarið og svo kom Arnar Símonarson og var með hópefli til að hrista hópinn endanlega saman fyrir sumarið. Tveir af eldri starfsmönnunum voru sendir á vinnuvélanámskeið svo þeir gætu keyrt traktorinn. Þeir stóðust það báðir og hafa nú tilskilinn réttindi.
 
Yngri krakkarnir mættu svo til vinnu þriðjudaginn 3. júní og voru þeim þá kynntar reglur vinnuskólans og var lögð áhersla á að vinnuskólinn væri eins og hver annar vinnustaður. Farið var með þeim yfir verkefni komandi sumars og þeim færður bæklingur um starfsemi vinnuskólans. Þarna hittu þau líka flokkstjórana sína og hópinn sinn í fyrsta skipti.
Þórir Áskelsson, sjúkraþjálfari kom svo í heimsókn um sumarið og kenndi öllum starfsmönnum rétta líkamsbeitingu við vinnu.
 
Verkefni
Unglingunum fæddum 92-94 var skipt upp í fimm hópa sem höfðu hver sitt sérsvið. Tveir hópar sáu um slátt á einkalóðum fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja. Í ár sá vinnuskólinn um slátt á 74 einkalóðum og þær voru slegnar alls 289 sinnum eða fjórum sinnum að meðaltali um sumarið, en þess ber að geta að nokkrar þessara lóða voru aðeins slegnar einu sinni, fyrir Fiskidaginn, að beiðni lóðareigenda. Einn hópur sá um slátt á ýmsum opnum svæðum bæjarins ásamt því að sjá um hreinsun og tiltekt í Höfða og hreinsun á hlaupabraut við knattspyrnuvöll Dalvíkur. Einn hópurinn sá um að halda beðum bæjarins hreinum, viðhaldi leikvalla ásamt ýmiskonar málningarvinnu, til dæmis  kantsteinamálningu.
Síðasti hópurinn var svo skipaður unglingum frá Árskógssandi og Hauganesi og sá hann alfarið um allt sem gera þurfti á Árskógsströnd.
Þessir fimm flokkar fóru svo reglulega og tíndu upp rusl á götum byggðarlagsins og meðfram þjóðveginum. Auk þess sá vinnuskólinn um tæmingu heimilisruslatunna alla miðvikudagsmorgna og útveguðu síðan starfsmenn til að vera á ruslabílnum seinna um daginn.
 
Eldri hópurinn sem starfaði undir stjórn garðyrkjustjóra starfaði við margvísleg verkefni. Má þar helst nefna orfavinnu, þar sem slegið var með orfi í kringum jaðarsvæði bæjarins, lúpína í Böggvisstaðafjalli var slegin ásamt kerfli víðsvegar um bæinn. Þá sá eldri hópurinn einnig um að hirða upp gras eftir sláttuhópana og koma því á losunarstað. Eldri hópurinn sá líka um ýmsa málningarvinnu, hreinsun eftir klippingar, viðhald verkfæra, borða og bekkja auk þess sem þau hlupu stöku sinnum í skarðið sem flokkstjórar auk margs annars.
 
 
Starfsemin
Allt sumarið var lögð á það rík áhersla að krakkarnir lærðu rétt vinnubrögð, notuðu verkfærin rétt og bæru virðingu fyrir starfinu og reglum vinnuskólans. Með þessu voru þau undirbúin fyrir störf á almennum vinnumarkaði.
 
Ýmislegt var gert til skemmtunar í sumar. Föstudaginn 27. júní var grillað í skógarreitnum í prýðilegu veðri, en þetta var síðasti dagur krakkanna fyrir sumarfríið þeirra. Í júlí var svo hinn árlegi valdagur þar sem krökkunum gafst tækifæri til að velja úr ýmsum verkefnum til að gera þann dag.
Fimmtudaginn 17. júlí var farin dagsferð til Siglufjarðar og Akureyrar, en hún þótti heppnast einstaklega vel og allir skemmtu sér hið besta. Á leiðinni var stoppað hjá hjónunum Sigurbjörgu Bjarnadóttur og Trausta Sveinssyni sem reka ferðaþjónustu að Bjarnargili í Fljótum og farið í leiki á túninu hjá þeim. Síðan var farið á Síldarminjasafnið á Siglufirði auk þess sem skógræktin var heimsótt og þar borðað nesti. Síðan var haldið til Akureyrar þar sem Gámaþjónustan bauð vinnuskólanum í pizzuhlaðborð á Greifanum fyrir að hafa séð um ruslið í sumar, en peningurinn fyrir ferðina var að mestu leyti fenginn með ruslatökunni. Að lokum var farið í bíó og svo haldið heim á leið.
 
Vinnuskólanum lauk formlega miðvikudaginn 20. ágúst en nokkrir eldri starfsmenn og flokkstjórar unnu eitthvað lengur við frágang og fleira
 
Ágúst 2008.
Magni Þór Óskarsson, yfirflokkstjóri vinnuskólans.