Verður kafbátur gerður út frá Dalvík í framtíðinni

Verður kafbátur gerður út frá Dalvík í framtíðinni

Sl. sumar fékk Dalvíkingurinn Freyr Antonsson þá hugmynd að gera út kafbát fyrir ferðamenn frá Dalvík með áherslu á að skoða landslag í firðinum, fiska og hvali. Í sumar verður fenginn til landsins lítill kafbátur til að kanna aðstæður og hvort slík kafbátaútgerð sé gerleg í Eyjafirði. 


Freyr er á síðasta ári í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri auk þess að vera starfandi upplýsingafulltrúi Dalvíkurbyggðar. Hann segir að í námi sínu í vöruþróun og neytendahegðun hafi verið unnið með hugmyndina í vinnuhóp og meðal annars gerð markaðsáætlun. Í kjölfarið sótti hann um styrk til Impru og fékk hæsta styrk, sex hundruð þúsund til að gera svonefnda fýsileikaathugun á rekstri slíks kafbáts. Hann hefur jafnframt sótt um styrki á fleiri stöðum, en heildarkostnaður til að ljúka nauðsynlegum könnunum fyrir verkefnið er um þrjár milljónir króna. 
„Ég þarf m.a. að leigja lítinn kafbát hingað í viku til að kanna fjörðinn og hvort þetta er yfirleitt gerlegt. Gert er ráð fyrir að kafbáturinn komi hingað rétt fyrir Fiskidaginn mikla og verði sýndur þar, og vikuna eftir fiskidag verður landslag Eyjafjarðarins kannað, hvort eitthvað skemmtilegt er að sjá, fiskar skoðaðir og tilraun gerð með að fylgjast  með hvölum. Það í raun stærsta spurninginn, og útgangspunkturinn í þessu verkefni hvernig hvalir taka því að vera eltir á kafbát. Samkvæmt þeim upplýsinginum sem ég hef aflað mér er hvergi boðið uppá það í heiminum að fylgjast með hvölum úr kafbát, og miðað við þær vinsældir sem hvalaskoðunarferðir  njóta, ætti slík neðansjávarskoðun ekki síður að höfða til ferðamanna," segir Freyr. 
Kafbáturinn sem Freyr hefur augastað á  kostar um 400 milljónir króna. Slíkir bátar taka 24-36 farþega. "Það er alveg ljóst að kanna þarf alla hluti til fulls áður en ráðist verður í að reyna að fjármagna slíka fjárfestingu," segir Freyr, „miðað við mínar áætanir þarf að fá um fimmtán þúsund farþega á ári til að reksturinn standi undir sér. Það liggur náttúrulega ljóst fyrir að ef þær áætlanir gengju eftir þá yrði sprenging í ferðamannastraumi hingað, og myndi  hafa víðtæk og vonandi jákvæð áhrif fyrir sveitarfélagið. Eg er bjartsýnn á að þetta geti gengið, enda einstakt í heiminum að boðið sé uppá að elta hvali á kafbát," sagði Freyr Antonsson að lokum.