Vel sóttur íbúafundur á Rimum

Vel sóttur íbúafundur á Rimum

Nú rétt í þessu var íbúafundi á Rimum, í kjölfar óveðursins í desember, að ljúka. Fundurinn var vel sóttur og góðar umræður sköpuðust í kjölfar hans.
Viðbragðsaðilar héldu tölu um það hvað fór vel, hvað hefði mátt betur fara og hvaða lærdóm þeir hafi dregið af þessum aðstæðum. Einstaklingar komu frá Veitum, Landsneti, Rarik, Björgunarsveitinni, Lögreglunni, Slökkviliðinu, Rauða Krossinum, Búnaðarsambandinu og Jónína prestur, sem fulltrúi kirkjunnar. Margar góðar spurningar komu fram á fundinum og reyndu viðbragðsaðilar að svara þeim eftir bestu getu. 

Viðbragðsaðilar töluðu um hvað samstarfið milli aðila hafi gengið vel, allir hafi unnið sem einn maður til að ná sem bestum árangri í afar erfiðum aðstæðum. Þá var sérstaklega talað um hvað móttökur í Dalvíkurbyggð hefðu verið góðar. Margir hefðu verið tilbúnir til að aðstoða þar sem hægt var að aðstoða og góður mannskapur hefði fengist í erfið verk. 

Farið var yfir breytta áætlun um endurnýjun dreifikerfis á Norðurlandi. Ákveðið hefur verið að setja aukafjármagn í endurnýjun kerfisins og er þar áætlun um að leggja jarðstreng þar sem eftir er í Svarfaðardal. Þá er áætlun um að allar dreifilínur í Dalvíkurbyggð verði komnar í jörð árið 2024. 

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri, endaði fundinn á að koma á framfæri þökkum til íbúa sveitarfélagsins, viðbragðsaðila og samstarfsmanna fyrir einstaka samstöðu og samhug í erfiðum aðstæðum í desember.