Vefur Dalvíkurbyggðar í 6. sæti yfir sveitarfélagavefi

Vefur Dalvíkurbyggðar í 6. sæti yfir sveitarfélagavefi

Síðastliðið haust fór fram úttekt á öllum opinberum vefjum en slík úttekt er gerð annað hvert ár og er þetta í sjöunda sinn sem slík úttekt fer fram. Gefin eru stig fyrir flokkana innihald, nytsemi, aðgengi, þjónustu og lýðræðislega þátttöku og út frá þessum flokkum gefinn heildarstigafjöldi fyrir hvern vef en mest er hægt að fá 100 stig. Úttektin er gerð að frumkvæði Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og nær til allra opinberra stofnana og sveitarfélaga. 

Vefur Dalvíkurbyggðar hefur alltaf náð góðum árangri í þessum úttektum og verið á topp 10 yfir sveitarfélagavefina. Í ár náði vefurinn sínu hæsta stigaskori eða 95 stigum af 100 mögulegum og endaði í 6. sæti yfir alla sveitarfélagavefi á landinu, einu stigi á eftir næstu tveimur sveitarfélögum. 

Við erum afar stolt af þessum árangri vefs Dalvíkurbyggðar en árið 2016 var vefurinn tekinn til gagngerrar endurskoðunar í samstarfi við Stefnu.