Veðurspá Veðurklúbbs Dalbæjar fyrir mars 2012

Fundur haldinn í veðurklúbbi Dalbæjar 29. febrúar 2012, sem hófs kl.14:00.

Félagar klúbbsins voru ánægðir með febrúarspána sína. Þó var hitastig heldur hærra, en spáð hafði verið, en engin ástæða til að súta það.
Hvað veðurhorfur næsta mánuð varðar þá má til taka að tungl kviknar 22. mars í SSV kl. 14:37. Þessi staðreynd ásamt ýmsum öðrum veðurteiknum segir klúbbfélögum að veðráttan verði svipuð í mars eins og hún var í febrúar. Suðvestan og norðvestan áttir verði ríkjandi. Í fundarlok fóru fundarmenn yfir tíðarfar vetrarins og voru sammála um að hann hefði verið góður og töldu að svo yrði til einnig þann tíma sem eftir stendur vetrar.

Með kveðju,

Veðurklúbburinn á Dalbæ