Úthlutun menningarstyrkja Menningarráðs Eyþings 2010

Úthlutun menningarstyrkja Menningarráðs Eyþings 2010

 
Fimmtudaginn 18. mars sl. úthlutaði Menningarráð Eyþings 23 milljónum króna til menningarstarfs á starfssvæði Eyþings við hátíðlega athöfn í menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Þetta er í sjötta sinn sem úthlutað er styrkjum samkvæmt samstarfssamningi mennta- og menningarmálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og sveitarfélaga í Eyþingi um menningarmál.
Menningarráðinu bárust alls 127 umsóknir um tæpar 74 milljónir króna. Til ráðstöfunar voru nálægt 23 milljónir króna og hlutu 71 verkefni styrk.
Ávörp fluttu Björn Ingimarsson formaður Menningarráðs Eyþings og Stefán Arngrímsson fyrir hönd RARIK en undirritaður var samstarfssamningur um að RARIK verði aflvaki menningar í Eyþingi árið 2010. Auk þeirra voru viðstaddir styrkþegar menningarráðs, sveitarstjórnarmenn og gestir.
Menningarráðið leggur jafnan áherslu á að þau verkefni sem hljóta styrki efli á einhvern hátt samstarf og/eða samvinnu í menningarmálum á Norðausturlandi eða dragi fram menningarleg sérkenni svæðisins. Áherslur við úthlutun þessa árs eru meðal annars verkefni sem stuðla að samvinnu atvinnumanna í listum, listnema og leikmanna, verkefni sem hvetja til samvinnu ólíkra þjóðarbrota í samstarfi við Íslendinga, verkefni sem efla þekkingu og fræðslu á sviði menningar og lista og verkefni sem efla atvinnustarfsemi á sviði menningar og lista.
Hæsta styrkinn hlaut sameiginlegt markaðsátak safna og sýninga á Eyþingssvæðinu. Að verkefninu standa 30 aðilar innan tveggja safnaklasa, Safnaklasa Eyjafjarðar og Safnaþings. Með verkefninu verður sköpuð heildstæð og sameiginleg ímynd safna á svæðinu með því að gefa út kynningarrit. Ritinu er ætlað að vekja áhuga og ýta undir aukinn straum ferðamanna til svæðisins. Með þessu framtaki er einnig verið að skapa sameiginlega vitund samfélagsins gagnvart söfnunum og verður hvatning fyrir íbúa til að heimsækja söfnin og njóta þess sem er í heimabyggð.

Eftirtalin verkefni hlutu styrk að þessu sinni: