Upplýsingarskilti um Upsi

Upplýsingarskilti um Upsi

Upplýsingarskilti um staðinn hefur verið sett upp við Upsi, nánar til tekið þar sem síðasti bærinn stóð og skammt frá því sem eftir stendur af síðustu kirkjunni sem þar stóð.


Skiltið er unnið í samvinnu Dalvíkurbyggðar og Lionsklúbbs Dalvíkur. Þar er saga staðarins rakin í stuttu máli, en Upsa er þegar getið í Landnámabók og einnig í Svarfdæla sögu og greinir þar frá því að Karl hinn rauði, sonur Þorsteins svörfuðar, landnámsmanns, hafi búið á Upsum.


Venja er nú að telja mörk Upsastrandar frá Brimnesá út að Ólafsfjarðarmúla.


Vitað er að snemma í kristnum sið var reist kirkja á Upsum. Guðmundur góði Arason, síðar Hólabiskup, er fyrsti prestur, sem kenndur er við Upsir, í lok tólftu aldar.
Fæddir voru á Upsum bræðurnir Gunnar Pálsson, f. 1714, prófastur, um tíma skólameistari á Hólum og eitt merkasta skáld 18. aldar og Bjarni Pálsson, f. 1719, fyrsti landlæknir á Íslandi.
Talið er að skáldkonan Björg Einarsdóttir – Látra-Björg – f. 1716, sé grafin í Upsakirkjugarði.


Séra Baldvin Þorsteinsson, f. 1781, var síðasti búandi prestur á Upsum. Í „kirkjurokinu“ 1901 fauk kirkjan á Upsum. Ný kirkja var reist og þjónaði hún sem sóknarkirkja þar til kirkja var vígð á Dalvík 1960. Upsakirkja var rifin, en kór hennar stendur enn í hinum gamla Upsakirkjugarði. Síðasti prestur sem þjónaði Upsakirkju var séra Stefán Snævarr. 1941 - 1984


Einn af merkilegustu gripum á Þjóðminjasafni Íslands er svonefndur Upsakristur, róðukross, sem talinn er vera frá tólftu öld. Einnig er þar varðveitt altaristafla úr Upsakirkju frá 18. öld.


Margar frásagnir tengjast Upsum, svo sem harmleikurinn um Guðrúnu Bjarnadóttur – Upsa-Gunnu – á 19. öld.


Á staðnum var tíðum margbýlt og útræði löngum mikið frá Upsaströnd. Snemma byggðust hjáleigur í landi Upsa. Þær helstu á síðari tímum voru Háagerði, Efstakot, Miðkot og Neðstakot, en þegar fólki fjölgaði og byggð þéttist í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu fjölgaði býlum í Upsalandi og eru sum þeirra enn í byggð.