Umhverfisvænni tilhögun sorphirðu í Dalvíkurbyggð

Umhverfisvænni tilhögun sorphirðu í Dalvíkurbyggð

Staðfestur hefur verið samningur um breytta og umhverfisvænni tilhögun sorphirðu í Dalvíkurbyggð. Breytingarnar eru einkum þær að íbúar fá nú endurvinnslutunnu auk tunnu fyrir óflokkað heimilissorp. Sama fyrirkomulag verður í öllu sveitarfélaginu, dreifbýli og þéttbýli. Samningstíminn er frá 1. júlí og munu íbúar fá margvíslega fræðslu um flokkun og endurvinnslu um leið og þessi nýja tilhögun tekur gildi.


Hér er um mikilvægt framfaraskref að ræða fyrir íbúa Dalvíkurbyggðar. Í stað núverandi vikulegrar sorphirðu í þéttbýli er gert ráð fyrir að hvert heimili verði með tvær tunnur. Endurvinnslutunnan verður losuð einu sinni í mánuði en hin tvisvar. Breytingin felur ekki í sér kostnaðarauka fyrir íbúa Dalvíkurbyggðar.


Vorið 2010 verður tekin ákvörðun um það hvort þriðju tunnunni verður bætt við, tunnu fyrir lífrænan úrgang. Samningurinn er við Gámaþjónustu Norðurlands og er viðaukasamningur við gildandi samning og við Sorp ehf. vegna dreifbýlis.