Týr áfram á Söngkeppni Samfés

Týr áfram á Söngkeppni Samfés

NorðurOrg 2020 fór fram í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri föstudagskvöldið 24. janúar sl. Um er að ræða landshlutakeppni þar sem 5 atriði frá Norðurlandi eru valin áfram til að taka þátt í söngkeppni Samfés sem fer fram laugardaginn 21. mars nk. Yfir 400 unglingar komu saman frá félagsmiðstöðvum víðsvegar af Norðurlandi til að hlusta á keppendur og skemmta sér á balli á eftir.

Félagsmiðstöðin Týr var eitt þeirra 5 atriða sem komst áfram með frumsömdu lagi.
Þröstur Ingvarsson söng lagið Running away. Með honum spiluðu Máni Dalstein Ingimarsson á bassa, Þormar Ernir Guðmundsson á trommur og Þorsteinn Jakob Klemenzson á gítar.
Lagið samdi Þorsteinn og Þröstur á svo textann við lagið.

Á hverju ári halda Samtök félagsmiðstöðva og ungmennahús á Íslandi (Samfés) söngkeppni í laugardalshöllinni. Hver landshluti fær að senda nokkra keppendur á þessa keppni, sem undanfarin ár hefur verið sjónvarpað beint á RÚV.

Drengirnir munu því keppa fyrir okkar hönd í Söngkeppni Samfés sem fram fer í Laugardalshöllinni 21. mars nk. Félagsmiðstöðin mun að sjálfsögðu fylgja þeim eftir og munum við fara með (vonandi) fulla rútu af stuðningsmönnum til að fylgjast með keppninni. En söngkeppni er hluti af árlegum SamFesting Samfés sem samanstendur af balli og söngkeppni í mars á hverju ári.

Óskum við þeim til hamingju með áfangann og óskum þeim góðs gengis á Söngkeppni Samfés 2020.